Ritstjórarnir okkar, Rebekka Sif og Díana Sjöfn, fengu þann heiður að heimsækja Emblu Bachmann uppi í útvarpshúsi og ræða við hana um Lestrarklefann og uppáhalds barnabækurnar þeirra. Viðtalið kemur í útvarpsþættinum Hvað ertu að lesa? sem Embla hefur stýrt styrkri hendi. Rebekka og Díana voru beðnar að deila með hlustendum leslista fyrir haustið og fannst tilvalið að deila honum einnig hér á Lestrarklefanum.
Hægt er að hlusta svo á þáttinn hér.
Leslisti Rebekku Sifjar
Ég stóðst auðvitað ekki mátið og varð að mæla með barnabókum sem heltóku mig þegar ég var barn. Það var auðvitað bókaserían Úr Bálki hrakfalla eftir Lemony Snicket og svo Molly Moon og Dáleiðslubókin eftir Georgiu Byng. Ég man svo skýrt eftir að hafa lesið þessar bækur sem barn, Molly Moon var svo spennandi og þetta var í fyrsta skipti sem ég upplifði eitthvað sem gat kallast óvæntur snúningurí bók (e. plot twist) og ég alveg missti mig úr gleði! Úr Bálki hrakfalla voru svo lang uppáhalds hjá mér, þrettán bækur, allar spennandi, allar óhugnanlegar og varla hægt að leggja þær frá sér. Svo færði ég mig inn í samtímann og mældi með snilldarbókinni Mömmuskipti eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Hana las ég fyrir jólin 2023 og fannst hún æðislega skemmtileg og fersk. Fyrir unglingana minntist ég á Hvíta ásinn eftir Jóhönnu Sveinsdóttur en sú bók inniheldur nútímanlegan snúning á norrænni goðafræði í framtíðarheimi á Íslandi.
Leslisti Díönu Sjafnar
Ég skipti meðmælunum mínum svolítið niður í barnabækur fyrir yngri og svo ungmennabækur fyrir ögn eldri lesendur. Það eru auðvitað svo margar bækur sem hægt er að mæla með og hugur minn fór aftur tilbaka með tilheyrandi góðum minningum um æðislegar lestrarstundir og spennu fyrir að fá nýjar bækur í jólapakka. Ég man eftir því hvernig ég beið eftir því að fá Bókatíðindi inn um lúguna til að merkja við hvaða bækur ég óskaði eftir í jólagjöf. Mamma fékk bæklinginn svo auðvitað afhentan með tilskipun um að fara vel yfir áður en hún færi í verslunarleiðangur. Eins og ég minntist á í þættinum Hvað ertu að lesa? að þá held ég að lestraráhugi minn hafi sérstaklega kviknað og logað skært þegar að ég hafði sjálf frelsi til að velja eigin bækur og gat lesið þær ein í notalegu andrými. En auðvitað er lykillinn að þeim áhuga að foreldrar lesi fyrir börn sín mikið og reglulega á unga aldri. Svo er í raun mælt með því að halda þeirri hefð áfram langt fram eftir aldri. Jafnvel lengur en fólk heldur.
Ég varð að mæla með Matildu eftir Roald Dahl en vonandi, og örugglega, eru flest börn á Íslandi annað hvort búin að lesa hana eða á leiðinni í það. Einnig mælti ég með bókatvennunni Elsku besta Binna mín og Bíttu á jaxlinn Binna mín eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, en hún lýsir veruleika venjulegrar stelpu á Íslandi sem er svokallað lyklabarn. Með öðrum orðum er hún mjög sjálfstæð og sterk stelpa sem kann að bjarga sér. Síðan er það bókin Jón Oddur og Jón Bjarni eftir Guðrúnu Helgadóttur sem er álíka jafn skemmtileg fyrir foreldra og hún er fyrir börn.
Bækurnar sem ég mælti með að þessu sinni fyrir eldri börn eru tilvaldar fyrir aldurinn 13-16 ára. Ég vildi sérstaklega nefna Milljón holur eftir Louis Sachar sem er mér mjög eftirminnileg en söguheimurinn er alveg einstakur. Bókin fjallar um Stanley sem að er sakaður um stuld en í refsiskyni er hann skikkaður í vist á einhvers konar búgarði í eyðimörk. Þar er hann ásamt öðrum „vandræða“ börnum látin grafa holur í steikjandi hita. Tilgangur verkefnisins er óljós en ekki er allt sem sýnist. Einnig varð ég að mæla með Hungurleikunum hennar Suzanne Collins sem er auðvitað mjög vinsæll bókaflokkur, en ef það er einhver þarna úti sem á eftir að lesa allar bækurnar að þá á sá von á góðu. Og ég verð að segja að bækurnar gefa þér allt aðra fyllingu heldur en kvikmyndirnar.
Að lokum var það bókin Loforðið eftir Hrund Þórsdóttur sem ég minnist á en ég var að enda við að klára að lesa hana. Hún var endurútgefin nýlega en hún vann Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2007. Sagan fjallar um unga stelpu sem hefur mjög nýlega misst bestu vinkonu sína. Þetta er saga um sorg og missi og er sagt frá á mjög fallegan og einlægan hátt. Þetta er bók sem hefur meðal annars verið notið í sálgæslunámi og getur verið mjög hjálpleg þeim sem að hafa upplifað missi ástvinar, en þarna er líka sögð saga um sanna vináttu.












