Leikhópurinn Stertabenda var stofnaður 2016 og hefur getið sér gott orð í íslenskri leikhússenu með verkunum Stertabenda (2016), Insomnia (2018) og Góðan daginn, faggi (2021).
Nýjasta verkið úr smiðju hópsins, Skammarþríhyrningurinn, gerist í framtíð þar sem menningarstríðinu er lokið. Kynrænt sjálfræði, hinsegin mannréttindi og kvenfrelsi heyra sögunni til og bakslagið hefur náð endatakmarki sínu.
Skammastu þín
Leikritið byrjar frammi í anddyri Borgarleikhússins, þar sem opnun sögusafns um hinn ógurlega Woke-isma hefur verið sett upp. Plaggöt frá þessu hræðilega tímabili, frá 1970-2050, sýna söguna frá menningarstríði sem betur fer hefur tapast þegar hér er komið sögu. Árið er 2050, við erum stödd í Kringlunni. Við ætlum að fara á sýningu þar sem okkur verða sýndir bannaðir hlutir – safngripir frá tímanum þegar Woke-isminn réði ríkjum, kynvillingar og kynsvikarar heilaþvoðu börn, útlendingar og glæpamenn nauðguðu hverri íslensku konunni á fætur annarri og strákar máttu ekki vera strákar.
Sérfræðingarnir sem standa að sýningunni um þessa myrku tíma pólitíska rétttrúnaðarins ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, því hvernig eiga þau að setja upp sýningu um eitthvað sem hefur verið ritskoðað úr sögunni? Sérfræðingarnir reyna að púsla saman mynd af samfélaginu eins og það var á þessum tíma en það reynist hægara sagt en gert.
Sýningarverðirnir eru sérþjálfað fólk, sem betur fer, og geta sýnt okkur áhorfendum hluti frá þessum tíma án þess að verða fyrir skaðlegum áhrifum. Eða hvað? Getur verið að þessar menningarleifar um hinseginleika, kynseginleika, kvenréttindi og frjáls þungunarrof geti enn haft skaðleg áhrif á mannshugann þó það sé búið að útrýma þessu öllu?
Ærsl og ádeila
Á þessum grundvelli leikur hópurinn fyrir áhorfendur verk sem bæði er ótrúlega fyndið og átakanlegt á sama tíma. Það vekur óþægindi og gleði og tekst á við málefni líðandi stundar með beittum húmor, fáránleika og ískaldri hreinskilni. Leikhópurinn semur verkið sjálfur og er því leikstýrt af Grétu Kristínu Ómarsdóttur. Eva Signý Bender sér um leikmynd og búninga og Ray Milano um leikgervi. Sviðsmyndin er svolítið hrá en algjörlega fullkomin, ýmsir hlutir sem tengjast hinseginleikanum hafa verið settir fram sem sýningargripir, og í vali þeirra má finna mikinn húmor og frumlegheit. Búningarnir eru alveg frábærir, þá sérstaklega málþingisjakkafötin, eins og ég kýs að kalla þau, sem og tilvísanirnar í leikhússöguna sem skutu upp kollinum hér og þar. Axel Ingi Árnason sá um tónlistina í samstarfi við Egil Andrason sem einnig var dramatúrg. Ólafur Ágúst Stefánsson sá um ljósahönnun, og gerði það virkilega vel, ljósin spiluðu stóran part í stemningu og sviðsetningu. Þá voru dans og sviðshreyfingar í höndum Camerin Corbett og var vel að þeim staðið eins og öðru í verkinu.
Hópinn skipa Árni Pétur Guðjónsson, Bjarni Snæbjörnsson, Embla Guðrúnar-Ágústsdóttir, Fannar Arnarsson, Kristrún Kolbrúnardóttir og Sindri Sparkle. Þá koma mismunandi gestaleikarar fram á hverri sýningu og leika lifandi safngripi á sögusafninu um Woke-ismann. Leikarar verksins eru allir mjög færir og hæfileikaríkir, og eru þeir hver öðrum betri. Árni Pétur sýnir sem áður hversu sterka nærveru hann hefur sem leikari, hann grípur áhorfendur með sér í hverri þeirri senu sem hann er í og leikur mjög fjölbreytta flóru karaktera. Bjarni og Fannar eru upp á sitt besta og leika hlutverk sín af mikilli orku og persónutöfrum. Þá á Embla margar fyndustu senur verksins, og ber af í beinskeittri gagnrýni á stöðu fatlaðra leikara á Íslandi. Kristrún sýnir bæði mikla leikfærni í mismunandi hlutverkum og húmor, sem og fallegar sviðshreyfingar og nýtir húmor bæði í söng og leik. Sindri kemur á sama hátt mjög sterkt inn í atriðum um veruleika transfólks og sýnir að bakgrunnur háns sem grínista nýtist vel í sviðsframkomu, tímasetningu og sterkri ádeilu.
Ert þú markhópurinn?
Eitt sem ég velti fyrir mér er hver markhópur verksins er, hvort hann sé hinsegin samfélagið, þeir sem berjast hvað harðast gegn tilverurétti hinsegin fólks, eða hvort það sé fjöldinn sem er þarna einhversstaðar á milli, sem hatar kannski ekki hinsegin fólk en skilur ekki heldur af hverju það er alltaf að væla? Mikið af húmor verksins er byggt á hinsegin einkahúmor sem skilar sér sennilega misvel til almennings, en víst er að ádeilan í verkinu mun skilja eftir umhugsunarefni fyrir hvern þann sem sýninguna sér. Þá er meta-rammi verksins vel nýttur í að koma ádeilunni til skila sem og að svara þeim spurningum sem það varpar fram annað hvort jafn óðum eða með áframhaldandi niðurbroti á leikhúsforminu og óvæntum vendingum.
Eitt er víst að allir þurfa nauðsynlega að sjá skammarþríhyrninginn, sem er þegar öllu er á botninn hvolft frumlegt, skemmtilegt og þarft verk sem skefur ekki utan af neinu og passar ekki að neinum líði vel, heldur hendir sér út úr þægindarammanum og rífur áhorfendur með sér.






