Rifrildi, þras og þrætur

9. október 2025

Bókakápa bókarinnar Morð og messufall

Ljósasería Bókabeitunnar hefur verið vinsæl léttlesrarbókaflokkur sem mörg íslensk börn eru í áskrift að og fá senda inn um póstlúguna (svona eins og í gamla daga bara!). Elísabet Thoroddsen gefur hér út sína fyrstu bók fyrir þennan aldurshóp, bókina Rugluskógur, en hún hefur verið að skrifa hrollvekjandi skáldsögur fyrir ungmenni. Það eru bækurnar Allt er svart í myrkrinu, Á eftir dimmum skýjum og Undir sjöunda þili.

Myndhöfundur bókarinnar er hún fjölhæfa Bergrún Íris Sævarsdóttir sem er einnig afkastamikill barnabókahöfundur. 

Rótsterk rifrildasúpa og töfrasteinar

Rugluskógur fjallar um fjörugu stúlkuna Sunnu og mömmu hennar sem er svo sannarlega hugmyndaríkt foreldri og alltaf til í að rugla aðeins. Þær ákveða að fara í ævintýraferð út á land þar sem útlandaferð er ekki beint á boðstólnum vegna fjárhags, en er ekki bara miklu meira spennandi að fá að sofa í hengirúmi undir berum himni? 

Þær finna skóg sem þær nefna Rugluskóg og koma sér fyrir í hengirúmum og njóta sumarsins. Á leiðinni verða til allskyns furðusögur eins og það að Esjan heiti í raun Skuggheimahóll og þar búi hræðilegar „skuggaverur sem veiða rifrildi og læsa þau í búrum inni í fjallinu.“ (bls. 11) Þær búa svo til rótsterka rifrildasúpu og framleiða þannig fleiri steina fyrir fjallið sem mun þá bara stækka og stækka og á endanum springa í loft upp og rústa Reykjavík! En sem betur fer er hægt að bjarga því með töfrasteini sem þær mæðgur ætla að finna í Rugluskógi.

Lífið er leikur

Bókin sýnir fallega og skemmtilega mæðraást- og vináttu. Það er yndislegt að sjá hvað lífið getur verið mikill leikur og það er ekkert að því að rugla aðeins til að lífga upp á tilveruna. Sunna er forvitin og mikill dýraunnandi en þó nokkrir litlir vinir koma við sögu, tveir krúttlegir hundar og einnig par af hestum. Geitungarnir eru þó ekki í miklu uppáhaldi en mamma hennar umbreytir þeim í Drunga og býr til ruglusögu um þá líka til að minnka hræðslu Sunnu. 

Ég verð að fá að minnast á persónuna Apel sem kemur við sögu seinna í bókinni. Þar sjáum við fallega birtingamynd af kynsegin manneskju þar sem aldrei er talað um af hvaða kyni Apel er, enda er það alveg óþarft. Apel er indæl og hjálpsöm manneskja sem kemur Sunnu til bjargar og gerir ævintýraferð mæðgnanna enn skemmtilegri. 

 

Rugluskógur er lífleg og skondin barnabók úr íslenskum veruleika þar sem ímyndunaraflið fær að ráða ferðinni. Myndlýsing Bergrúnar Írisar er litrík og falleg enda er ekki við öðru að búast. Mér finnst hún skapa dýrin sérstaklega vel á myndunum en þau eru alveg svakalega krúttleg og knúsuleg. Ég sé alveg fyrir mér fleiri bækur um þær mæðgur, kannski fáum við Rugluströndina næst, eða Ruglueyjuna? Lengi lifi ruglið. 

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...