Á eftir dimmum skýjum er önnur bók Elísabetar Thoroddsen. Áður hefur hún skrifað unglingabókina Allt er svart í myrkrinu sem fékk tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barnabóka árið 2022.

Í Á eftir dimmum skýjum fylgjum við eftir Tinnu sem kynnt var til sögunnar í Allt er svart í myrkrinu. Tinna er núna komin á nýtt heimili, í nýju hverfi og í nýja skóla og orðin fimmtán ára. Og henni líður ekkert allt of vel í þessu nýja umhverfi. En breytingarnar á lífi fjölskyldunnar stjórnast af því að pabbi Tinnu lamaðist eftir bílslysið í fyrri bókinni og fjölskyldan þarf að takast á við nýjan raunveruleika og nýjar áskoranir. Það kallar meðal annars á nýtt hús í öðru hverfi, til að það sé hjólastólaaðgengi fyrir pabba hennar. 

Rannsókn á hatursglæp

Bókin byrjar með hvelli, bókstaflega. Tinna og Karítas, vinkona hennar, eru í tíma þegar mikill hvellur heyrist. Í kjölfarið fer brunavarnarkerfi skólans af stað, gangarnir fyllast af reyk og skólinn er rýmdur. Á leiðinni út sér Tinna dularfullann mann sem starir á hana illilegum augum í gegnum reykinn. Þegar allir eru komnir út fær Karítas senda mynd í gegnum snapchat af brennandi transfána. Tinnu og Karítas finnst augljóst að sprengingin tengist vaxandi fordómum gagnvart hinsegin nemendum skólans, enda var það kynhlutlausa klósettið sem var sprengt. En trúa skólayfirvöld þeim? 

Skyggn eftir hrakfarirnar

Elísabet titlar sjálfa sig sem hinsegin höfund og hún er það svo sannarlega af lífi og sál. Persónugalleríið hennar á meira og minna rætur að rekja í hinsegin samfélagið. Tinna er lesbía í sambandi við Dóru, Karítas er trans og á tvær mömmur. Þessar þrjár stelpur, Tinna, Karítas og Dóra, eru aðalpersónurnar og fá að taka pláss, hafa hátt og segja sitt. Í nýja skólanum þarf Tinna að takast á við fordómafulla samnemendur sína. Það er gelt á hana, henni er sýnd óvirðing og atvikin eru fleiri. Þetta er því miður raunveruleiki hinsegin barna í grunnskólum í dag. Tinna og Karítas hafa nokkra stráka grunaða um að hafa sprengt klósettið og brennt fánann. En eins og í góðri barna- og unglingabók þá þurfa krakkarnir að taka málin í sínar hendur. Hinir fullorðnu gera sér ekki grein fyrir alvarleika atburðanna eða hve mikil hætta er á ferðinni. Unglingarnir leiðast í hættu. Svo er það þessi maður með illilegu augun. Í fyrri bókinni kemur í ljós að Tinna sér drauga. Sá hæfileiki fylgir henni til Reykjavíkur og það kemur fljótt í ljós að þessi maður er afturgenginn. Þetta eykur enn á spennuna í bókinni. 

 Elísabetu tekst mjög vel upp með bókina. Hún er stutt og skorinort, án þess að gefa afslátt á innihaldinu. Hún fer alla leið í að sýna raunveruleika íslenskra hinsegin barna. Persónum bókarinnar hefur veist erfitt að koma út úr skápnum, þrátt fyrir að eiga foreldra sem eru opnir fyrir hinseginleikanum. Þær eru stressaðar og hræddar að fara í hinsegin félagsmiðstöðina og hitta annað fólk, en á sama tíma er það léttir. Mér finnst frábært að sjá hinsegin börnum komið svona vel til skila, en á sama tíma er bókin spennandi og hrollvekjandi. 

Fjölskyldan í næstu bók?

Fjölskydulíf Tinnu er lítið ávarpað í bókinni og mér þótti það ekki koma að sök. Aðstæður fjölskyldunnar hafa vissulega breyst mikið eftir að pabbi hennar lamaðist. En fókusinn er ekki á nýja raunveruleika fjölskuldunnar í þessari bók og hefði kastljósinu verið varpað í þá átt, þá hefði of mikil orka farið í það og dregið úr hraðri atburðarrásinni sem heldur lesandanum í heljargreipum. Meiri áhersla er á unglingaást og tilfinningar og að sjálfsögðu hinseginleikann. Ég vona þó að í næstu bók fái Tinna að takast á við nýja stöðu fjölskyldunnar í samfélaginu, með föður í hjólastól. 

Á eftir dimmum skýjum er spennandi og hrollvekjandi unglingabók í hæfilegri lengd sem varpar skýru ljósi á líf hinsegin barna í samfélaginu, án þess að gefa afslátt í söguþræði eða spennu. 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....