Hann er genginn í garð. Mánuðurinn ógurlegi. Þriðja árið í röð býður Lestrarklefinn ykkur að læsa að ykkur og laumast undir sæng, slökkva öll ljós og draga fram hrollvekjandi bók til að fagna… hrolltóber.
Rétt eins og fyrri ár höfum við tekið saman leslista með alls kyns ógeði og hryllilegheitum í tilefni októbermánaðar og hrekkjavökunnar.
Þegar velja á hrollvekju
Það getur verið kúnst að velja réttu bókina. Það er auðvitað mjög persónulegt hvað hræðir hvern og einn, og mér finnst oft ágætt að flokka hrollvekjurnar eftir þemum. Þá getur maður valið hvað maður er hræddastur við. Ert þú sérstaklega hræddur við geimverur eins og hún Díana Sjöfn okkar? Eða ertu hræddust við fólk sem hímir úti undir húsvegg í myrkri eins og Rebekka Sif? Sæunn hræðist ekkert meira en slöngur og tómir stólar sem taka á sig mannsmynd á nóttunni vekja óhug hjá henni Ragnhildi. En hvað hræðir þig lesandi góður? Eru það mannæturnar sem hræða þig alltaf mest eins og mig? Krókódílar? Heimsendir? Trúðar? Skylduskil?
Það er svo sannarlega eitthvað til fyrir alla í umfangsmikilli flóru hryllingsbókmennta og vandi að velja. Það sem hræðir mig mest í ár er að missa vitið hægt og bítandi, vont fólk í dulargervi góðs og svo auðvitað kapítalismi.
Óáreiðanlegur sögumaður
She’s a Lamb! – Meredith Hambrock
Jessamyn er ung leikkona sem veit að henni er ætlað að vera stjarna. Hvers vegna það gengur svona hægt er alls ekki henni að kenna heldur heiminum, sem er á móti konum eins og henni, þeim sem eru fallegar og hæfileikaríkar. Þegar henni er ekki boðið eitt einasta hlutverk í Söngvaseið grípur hún til eigin ráða til að komast í hlutverk Maríu, hlutverkið sem hún var fædd til að leika. Grípandi, óþægileg, ógnvekjandi og snörp.
The Killer Inside Me – Jim Thompson
The Killer inside me fjallar um lögreglumanninn Lou Ford, sem er ekki allur þar sem hann er séður. Nú til dags er ekki óvanalegt að lesa um fjöldamorðingja sem fela sig bak við vinalegt andlit og lögreglubúning, en bók Thompsons kom út árið 1952 og var sú fyrsta sem tók þetta umfjöllunarefni fyrir á þennan hátt. Fyrir true crime fólk er þetta mjög áhugaverð bók og virkilega truflandi að sjá hversu góða innsýn Thompson hefur inn í huga raðmorðingja áður en allt þetta efni um þá varð aðgengilegt almenningi.
Mrs. Marsh – Virginia Feito
Frú Marsh er með allt á hreinu, þar til að maðurinn hennar gefur út nýja skáldsögu. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að aðalpersónan er augljóslega byggð á frú Marsh. Og hún er vændiskona. Sem enginn vill sofa hjá. Hvað gæti verið verra? Frú Marsh missir tökin á tilverunni eftir því sem fleiri og fleiri fara að hafa hana að háði og spotti eftir þetta stólpagrín sem eiginmaður hennar gerir að henni opinberlega. Eða hvað?
American Psycho – Bret Easton Ellis
Patrick Bateman er bara venjulegur uppi í New York borg sem mætir í vinnuna, fer út og skemmtir sér með vinnufélögum og unnustu sinni, tekur eiturlyf, sefur hjá konum gegn greiðslu og fremur viðurstyggileg morð. Klassísk skáldsaga Bret Easton Ellis um það ógeðslegasta sem til er – Finance bros – er alltaf klassísk og óhugguleg saga sem manni gæti orðið aðeins óglatt við að lesa.
Furðuhryllingur
Walking Practice – Dolki Min
Geimvera lendir á jörðinni og hún er svöng. Hún borðar mannfólk, en fyrst táldregur hún það, sefur hjá því og notar svo líkama þeirra til að forma gervi svo hún falli í fjöldann hér á jörðinni. Allt eðlilegt hér. Í bókinni Walking Practice spinnur kóreski höfundurinn Dolki Min áhugaverða og hryllilega sögu sem má lesa sem allegóríu um að passa inn í samfélag sem manni er ókennilegt eða bara sem hreina og klára geimverusögu. Það sem eykur á óhugnaðinn er að Dolki Min skrifar undir dulnefni og kemur aðeins fram grímuklætt. Er Dolki Min kannski sjálft geimvera? Kannski.
Victorian Psycho – Virginia Feito
Ef þú ert í stuði fyrir snarklikkaða frásögn sem er samt vel skrifuð og skemmtileg og vinnur með hryllingsminni þá er þessi bók einmitt fyrir þig. Winifred Notty hefur ráðið sig sem kennslukonu hjá Pounds fjölskyldunni. Hennar verkefni verður að sjá um börnin tvö, passa að þau læri það sem læra þarf og halda þeim uppteknum og fjarri foreldrum sínum. En Winifred er ekki öll þar sem hún er séð, hún er ekki ung og saklaus kennslukona heldur kona með myrka fortíð sem er komin á heimilið til að valda usla.
She’s Always Hungry – Eliza Clark
Hryllingssmásögur hinnar bresku Elizu Clark eru bæði léttar og hryllilegar og ótrúelga nútímalegar. Það er flakkað á milli staða, sjónarhorna og persóna á skemmtilegan hátt og blandan af nútíma og framtíðarsögum við þær sem eru algerlega tímalausar eða geras tí fjarlægri fortíð er vel heppnuð. Uppáhalds sagan mín í bókinni er titilsaga hennar „She’s Always Hungry“ sem fjallar um ungann sjómann sem býr í mæðraveldissamfélagi þar sem hann hlýðir reglunum í einu og öllu þar til hann veiðir ofsalega fallegan fisk. Með honum og fiskinum takast ástir, og í ljós kemur að fiskurinn er kannski eitthvað meira, og máttugra, en venjulegur þorskur.
Mannát
The Troup
Hópur skáta leggur af stað í útilegu, en hvað eiga þeir að gera þegar grindhoraður maður birtist við varðeldinn hjá þeim og segist vera svangur. Mjög svangur. Svo svangur að hann gæti borðað hvað sem er. Dularfullur vírus veldur óstöðvandi hugnri og skátadrengirnir þurfa að hafa sig alla við til að komast af.
Bones and All
Hvað ef þú værir mannæta? Ekki af því þig langaði sérstaklega til þess heldur bara vegna þess að af og til fyllistu svo óslökkvandi hungri. Svo djúpu hungri að þú borðar næsta mann upp til agna. Étur hvert einasta hár á höfði hans, öll beinin, innyflin, húðina, allt nema fötin. Maren er akkúrat svona mannæta, og þegar hún er 16 ára fer mamma hennar frá henni því hún getur ekki lengur hilmt yfir með morðum dóttur sinnar. Hvað á hin unga og svanga Maren að gera, alein og yfirgefin í hörðum heimi?
The Hunger – Alma Katsu
Þið hafið heyrt um Donner leiðangurinn, ekki satt? Um stóran hóp fólks sem hélt yfir Norður-ameríku þvera til að finna betra líf í Kaliforníu. Þau lögðu bara aðeins of seint af stað. Svo seint að þau festust á frosnu hálendinu þar sem lítið var um mat, aðbúnaður var enginn og fljótlega fór fólk að hætta að treysta hvort öðru. Fljótlega fóru byrðir að þverra. Fljótlega var ekkert að gera nema að éta eða vera étinn.






