,,Ég gat ekki án þess verið að skrifa“

19. október 2025

Í kringum páskana ákvað ég að setjast niður og lesa bók sem móðir mín hafði nokkrum sinnum gaukað að mér. Kápan var græn og falleg en titillinn höfðaði ekki til mín. Það var í raun hann sem hafði ætíð fælt mig frá því að lesa bókina. En um þessa páskahátíð ákvað ég að láta tilleiðast og fékk Dalalíf lánaða til lestrar. Sem væri kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að bókin endaði síðan á að halda mér í heljargreipum frá fyrstu síðu. Ég kláraði þetta fyrsta bindi Dalalífs, Æskuleikir og ástir, á aðeins nokkrum dögum.

Ég bankaði strax á dyrnar hjá mömmu minni til að fá annað bindið, Alvara og sorgir, lánað. Sú bók var doðrantur, en ég var hvergi bangin. Ég varð að fá meira. Og hana kláraði ég líka á nokkrum dögum.

Því miður átti mamma bara þessar tvær bækur. En hún var tilbúin til að gefa mér þær. Húrra! Ég þurfti því að fara í næstu bókabúð til að kaupa þriðju bókina, Tæpar leiðir. Og þá komst ég að því að sú bók, þessi með fallegu fjólubláu kápunni, er uppseld á landinu! Ég endaði á að taka hana á bókasafninu en auglýsi eftir henni hér með til kaupa. Ég hámlas hana og fór svo og keypti fjórðu, Laun syndarinnar. Ég hámlas hana líka og nú er ég hálfnuð með fimmtu og síðustu bókina, Logn að kvöldi.

Einhvern tímann í miðjum lestri á þessari stórkostlegu seríu hugsaði ég með mér að skrifa pistil um bækurnar hér á Lestrarklefanum. En hún Erna Agnes gerði nákvæmlega það fyrr á árinu og sá pistill er eins og talaður úr mínu hjarta. Ég mæli eindregið með honum.

Hér er því ekki ætlunin að tíunda hvílík snilld þessi bókaflokkur er, enda gerir ofangreindur pistill Ernu Agnesar það af stakri prýði. Auk þess hefur mikið verið ritað og rætt um höfundinn, hana Guðrúnu frá Lundi,  af mér fróðara fólki. Ég mæli til dæmis með pistlum um Guðrúnu inni á skald.is. Markmiðið með þessum tiltekna pistli er því frekar að segja aðeins frá Guðrúnu og þeim áhrifum sem hún hefur haft á mig sem höfund. Saga hennar sem vinnandi móður sem skrifar í hjáverkum hefur veitt mér innblástur sem vinnandi móður sem skrifar í hjáverkum. Í ár eru einnig fimmtíu ár frá andláti Guðrúnar og því tilvalið að fjalla aðeins um þennan merka höfund.

Þúsund þátta sjónvarpsröð úr Dalalífi

Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það er við Dalalíf sem heillar mig svo. Ég vil meina að hún hafi komið til mín á réttum stað á réttum tíma. Sagan segir frá lífi á íslenskum sveitabæjum um aldamótin 1900 þar sem hvorki var rafmagn né rennandi vatn. Þegar ég las bækurnar fann ég sjálfa mig róast niður líkt og það hefði hægst á tímanum. Í söguheimi Dalalífs var það daglegur viðburður að láta sér leiðast. Til dægrastyttingar las fólk upphátt fyrir hvort annað, greip í spil, fékk sér kaffi, spilaði á hljóðfæri eða spjallaði. Bækurnar komu út á árunum 1946-1951 en eru skrifaðar á mjög aðgengilegu og skemmtilegu máli. Oft var ég í hláturskasti yfir orðanotkuninni og lærði auk þess helling af góðum og gildum orðum sem lítið eru notuð í dag.

Samtöl persónanna flæða áreynslulaust og eru svo skemmtileg að maður gleymir stað og stund. Eitt af því sem ég held líka að spili inn í töfrana er hinn alvitri sögumaður – lesendur fá að skyggnast inn í hugarheim margra vel skapaðra persóna, jafnvel innan sömu senunnar. Guðrúnu tekst vel að búa til marghliða persónur sem hvorki eru algóðar né alslæmar. Samtölin og persónusköpunin eru sterku hliðar Guðrúnar sem höfundar og þær spila listilega vel saman í Dalalífi. Hallgrímur Helgason fjallaði um Guðrúnu í eftirmála bókarinnar Afdalabarn, en þar sagði hann um Dalalíf:

Værum við norræn stórþjóð væri fyrir löngu búið að gera þúsund þátta röð í sjónvarpi upp úr Dalalífi Guðrúnar frá Lundi og selja til annara landa.

Auk þess segir hann um Guðrúnu:

Fáir höfundar hafa samtalstæknina svo sterkt á valdi sínu sem Guðrún. Henni er gefin sú fátíða list að birta okkur heila manneskju, heila ævi, í einni setningu sem sú persóna segir.

Persónur Dalalífs lifðu með Guðrúnu í áratugi

Guðrún var afkastamikill höfundur og mín bíða fjöldamargar bækur eftir hana sem ég hlakka til að lesa. Æskuleikir og ástir var fyrsta bók hennar og kom út árið 1946 en þá var Guðrún tæplega sextug. En það er ekki þar með sagt að hún hafi setið auðum höndum þangað til. Persónur Dalalífs höfðu lifað með Guðrúnu í áratugi, sumar þeirra jafnvel frá fermingu hennar. Það gafst einfaldlega ekki nægur tími til að sinna ritstörfunum. Hún skrifaði á milli heimilisverka, bústarfa og barnauppeldis og oft á hvert það pappírssnifsi sem fannst. En eins og Guðrún segir sjálf um persónurnar sínar:

…mér þykir eins vænt um margar þeirra, eins og ég hefði búið með þeim

Ég verð að viðurkenna að ég dáist að dugnaðinum og atorkunni í þessari konu sem kallaði greinilega ekki allt ömmu sína. Og þrátt fyrir að bækur hennar hafi verið með þeim mest lesnu á landinu í áratugi var oft litið niður á þær því þær þóttu ekki falla í flokk „fínni” bókmennta. En hún lét ekki deigan síga og hélt áfram, þrátt fyrir að vera meðvituð um að hún ætti ekki upp á pallborðið hjá ákveðnum hópi innan bókmenntaheimsins. Guðrún er einfaldlega fyrirmynd. Ævisaga hennar er nú í bígerð og ég hlakka mikið til að lesa um ævi þessarar mögnuðu konu.

Ég gat ekki án þess verið að skrifa

Ég hef velt fyrir mér hvernig Guðrúnu hefði farnast ef hún væri að reyna að hasla sér völl á ritvellinum í dag. Sífellt meiri kröfur eru gerðar til höfunda um að markaðssetja sjálfa sig og vera í raun allt í senn – introvertar sem skrifa fallegan, ljóðrænan, hrífandi og grípandi texta og síðan skemmtikraftar sem leika á alls oddi fyrir framan myndavélina. Það er ljóst á viðtölum við Guðrúnu að hún var ekki mikið fyrir sviðsljósið gefin og margt bendir til að hún hafi verið hlédrægur introvert, eins og blaðamaður segir í viðtali við Guðrúnu í Morgunblaðinu frá 1952:

Þegar ég kynntist henni fyrst fannst mér hún fremur þurr á manninn, en nú mundi ég segja, að hún væri með skemmtilegustu gáfukonum sem ég hef kynnzt

Ég er ekki viss um að Guðrún hefði gefist upp við þær kringumstæður sem höfundar búa í dag. Þvert á móti. Hún hefði örugglega látið sér fátt um finnast og haldið áfram að skrifa. Því til sönnunar enda ég á minni uppáhalds tilvitnun í Guðrúnu sem sýnir hvernig ástríðan fyrir skrifum dreif hana áfram.

…ég hafði alltaf haldið áfram að semja, án þess að hugsa um, hvort það yrði gefið út eða ekki. Ég gat ekki án þess verið að skrifa.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...