
Ég er eiginlega í smá ástarsorg. Þið þekkið þessa tilfinningu eflaust vel. Nei, ég er ekki ástarsorg út af einhverri tragedíu í mínu persónulega lífi heldur vegna þess að ég hef nú klárað að lesa Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi. Síðan síðasta sumar hef ég átt dásemdar stundir með Þóru í Hvammi, Önnu Friðriksdóttur, Línu, Borghildi, Jakobi, Lísibet og auðvitað uppáhalds narsisista sjarmanum mínum, Jóni frá Nautaflötum. Nei sko. Ég veit að þið sem lesið þennan pistil hafið eflaust upplifað það að lesa bók, lifa ykkur inn í söguna og líða eins og perónurnar séu vinir ykkar EN ég get allavega sagt að fyrir mína parta hef ég aldrei, hvorki fyrr né síðar átt jafn erfitt með að kveðja bókaheim líkt og nú.
Ég ELSKA þennan heim Guðrúnar. Ég hafði oft heyrt talað um snilli höfundarins; hvernig hún glæðir sögupersónur sínar lífi og hvað samtölin eru einlæg og persónuleg og bla, bla, bla og persónulega var ég ekki aaaaalveg að kaupa að þetta væri svona æðislegt. Þess vegna ákvað ég að prófa að lesa fyrsta bindið, síðan annað bindið og svo þriðja, fjórða og loks fimmta og GUÐ MINN GÓÐUR ÉG VAR ORÐIN GJÖRSAMLEGA ,,HÚKKT!‘‘. Ég var orðin eins og ein af konunum sem unnu einu sinni með mér á dvalarheimili aldraðra sem töluðu um persónurnar í Bold and the Beautiful eins og þau væru persónulegir vinir þeirra. ,,Sáuð þið hvað Brooke gerði við Richard í gær stelpur! Nei sko ég meinaða!‘‘ og svo framvegis.
Ég var alltaf að ræða um Dalalíf og persónurnar og átti það jafnvel til að hnussa upphátt á fundum þegar ég mundi allt í einu eftir enn einum skandalnum hjá Jóni mínum blessuðum frá Nautaflötum.
En ókei. Fyrir þau sem ekki þekkja til þá er Dalalíf almennt álitið eitt af stólpum íslenskrar bókmenntamenningar enda er í raun ótrúlegt að hugsa til þess að nokkur manneskja geti gefið frá sér slíkt bókmenntaverk. Í Dalalíf er fjallað um daglegt líf í Hrútadal. Lesandi fær innsýn í íslenskt sveitalíf í byrjun 20. aldar þar sem ýmis verk þarf að vinna og raunveruleikinn getur verið ljúfur en líka sár, svo afskaplega og hræðilega sár. Guðrúnu tekst að fá mann til að hugsa á gagnrýninn hátt um persónur sínar og jafnvel ögrar hún, að mínu mati, stöðu sumra þeirra, sérstaklega hjúa, í þessu samfélagi sem var. Við finnum fyrir valdamisræminu og hversu stutt á veg kvenréttindabaráttan var komin þegar þetta var skrifað og það verður því líka að lesa bækurnar með það í huga. Þetta er skrifað á þeim tíma þar sem eitthvað þótti eðlilegt þá en í dag væri algjör fásinna og fengi ekki að líðast. Hins vegar eru þessar bækur einnig mikilvæg heimild og menningarverðmæti um lífið í torfbænum og hvað formæður- og feður okkar þurftu að gera til að lifa af. Í gegnum bindin fimm fylgjumst við með persónunum vaxa, dafna og þroskast, lifa og deyja og maður bindst þeim tilfinningalegum böndum.
Að lesa Dalalíf þýðir að maður grætur, hlær, hnussar, kinkar kolli og verður móðgaður með reglulegu millibili. Allar tilfinningarnar! Ástæðan er að mínu mati hin fyrrnefnda stórkostlega persónusköpun sem þar birtist. Mér líður eins og ég hafi fengið tækifæri til að vera fluga á vegg eða jafnvel bara fullgild persóna í lífi fólksins í Hrútadal. Þau eru í mínum huga raunverulegt fólk sem var í alvörunni til þó innst inni viti ég að öll bókin sé skáldskapur. Við nefnilega þekkjum í rauninni allar þessar persónur því persónueinkenni þeirra er að finna hjá mörgum þeim einstaklingum sem við kynnumst í gegnum lífið. Allir þekkja einn Jón frá Nautaflötum eða Þóru í Hvammi og allir þekkja a.m.k. eina Ketilríði.

Svo imponeruð er ég af þessu öllu saman að ég gat ekki hætt að hugsa um hvers vegna RÚV hefur ekki ennþá tekið upp á því að gera sjónvarpsseríu upp úr bókunum. Dalalíf gæti verið okkar Matador! Við gætum sameinast, öll þjóðin, yfir sjónvarpinu á hverjum sunnudegi kl 20 og fylgst með lífinu í Hrútadal. Ég á það alveg til að fá hluti á heilann svo ég endaði með því að senda póst á útvarpsstjóra, Stefán Einarsson, og bað hann um að skoða þetta mál. Hann svaraði mér og sagðist svo sannarlega ætla að gera það MÉR TIL MIKILLAR GLEÐI.
Til að auðvelda þeim vinnuna legg ég til að Hallgrímur Helgason skrifi handritið (má ég líka vera með í því?) og að hlutverkin skipi:-
Þóra í Hvammi – Katrín Halldóra (augljóslega)
Sigurður í Hvammi – Hjörtur Jóhann (augljóslega)
Anna Friðriksdóttir- Elín Hall (Líka augljóslega)
Lína (Sigurlína) – Ebba Katrín (Augljóslega augljóslega)
Borghildur – Sigrún Edda Björnsdóttir (Augljóslega)
Ketilríður – Steinunn Ólína / Guðrún Gísladóttir (Báðar augljóslega)
Jakob Hreppsstjóri – Valur Freyr Einarsson (Gæti líka verið Pálmi Gestsson en kannski of gamall?)
Lísibet – Margrét Vilhljámsdóttir (persónulegt uppáhald síðan í Mávahlátri og já augljóslega)
Þórður – Kjartan Darri (augljóslega)
Jón á Nautaflötum – Björn Stefánsson (Gæinn í Mínus) eða einhver sem er myndarlegur en með frekar narsisískt augnaráð en samt líka blíður á köflum… æji þið þekkið týpuna.
Svo vil ég hafa Villa Neto þarna líka, augljóslega, sem einhvern sveitapilt. Kannski bara sem Dodda. Hann yrði fínn Doddi. Annars má Villi Neto líka bara leika öll hlutverkin að mínu mati. Hann er svo skemmtilegur.
Allavega. Þetta er bara strangheiðarleg uppástunga (lesist sem ófrávíkjanlegur listi) frá konu sem fær ekki nóg af Dalalífi og hefur eitt ófáum klukkustundum að ,,casta‘‘ í þessi hlutverk í huganum. Annars er ég alvarlega að íhuga að byrja bara aftur að lesa þær 2000 blaðsíður rúmlega sem þetta þrekvirki er. Og til ykkar sem eru í bókalægð eða einfaldlega búin að fá nóg af jólabókunum þá hvet ég ykkur til að ferðast í Hrútadal og detta beint í kaffibollaskraf á baðstofunni hjá Þóru minni, Önnu og Jóni á Nautaflötum nú eða að kíkja á kramið í kaupstaðnum.
En já ég kveð að sinni með minn árlega Lestrarklefapistil
Dalalífskveðja,
Erna Agnes