Tilbrigði við sannleika

6. nóvember 2025

Staðreyndirnar er þriðja skáldsaga Hauks Más Helgasonar, sem er menntaður heimspekingur og hefur sent frá sér ljóð og fræðigreinar auk skáldsagna. Sögulega skáldsaga hans Tukthúsið hlaut mikið lof þegar hún kom úr árið 2022 og nú fylgir hann henni eftir með skáldaðri sögu sem þó er byggð á raunverulegum atburðum, eða því sem næst er komist að séu raunverulegir atburðir. Eða hvað?

 

 Eftirköst slaufunar

Lesandinn fylgir eftir embættismanninum Steini sem er á svolitlum krossgötum í lífinu. Hann skandalíseraði í fyrra starfi, lenti í sambandsslitum og svolítilli slaufun. En flokkurinn sem hann er meðlimur í er honum auðvitað hliðhollur og kann að meta menn eins og Stein. Menn sem fylgja flokkslínunni og vita hvar kröftum þeirra er best varið.  Og í þakkarskyni fyrir vel unnin verk, og auðvitað fyrir að taka allan skellinn fyrir skandalinn, fær hann nú annað tækifæri. Nýja vinnu. Nýtt upphaf. Í nýju ráðuneyti.

 

Ráðuneyti sannleikans

Til stendur að stofna nýtt ráðuneyti og helsta verkefni þess er að skrá staðreyndirnar. Hvaða staðreyndir? Jú, allar. Á tímum falsfrétta og óreiðu í upplýsingaflæði hefur ríkisstjórnin ákveðið að byggja upp vél sem kann allar staðreyndir og hægt er að spyrja þegar deilumál koma upp. Þessi sannleiksvél hljómar fjarstæðukennd á sama tíma og hún hljómar eins og eitthvað sem ríkisstjórnum heimsins gæti dottið í hug að nýta sér. Steinn er settur í yfirumsjón þróunarinnar ásamt gömlum anarkista sem þarf nú að fá salt í grautinn, og ferlið hoppar í gang.

En vinnsla vélarinnar ekki gallalaus. Steinn og félagar mata vélina á endalausum gögnum, greinum fræðimanna og frumheimildum úr Íslandssögunni og kenna henni að koma sannleikanum á framfæri. En það er einn ofsalega stór galli sem gleymdist að spá í þegar þessu verkefni var hrundið af stað og það er hvort stjórnvöld vilji endilega að almenningur viti sannleika allra mála eins og hann var í raun. 

 Nasistinn í vélinni

Þegar svar vélarinnar við hversu umfangsmikill uppgangur nasisma var á Íslandi í undanfara heimsstyrjaldarinnar síðari renna tvær grímur fyrst á þjóðina og svo á ráðuneytið. Veit vélin ekki að sumar staðreyndir eru ekki staðreyndir sem maður segir frá? Veit hún ekki hvaða sannleika ber að bæla og hverjum skal hampa öðrum ofar? Er vélin ekki alvöru Íslendingur? Og hversu langt út fyrir flokkslínuna má hinn hallvalti Steinn rúlla áður en honum verður endanlega settur stóllinn fyrir dyrnar?

Þessi bók er algjör snilld. Það er svolítið eins og höfundur hafi fundið einu leiðina til að sýna Íslendingum fram á hversu hliðholl við vorum nasistum án þess að vera tekinn af lífi á Ingólfstorgi, og það er að fela sannleikann í skáldsögu, í uppdiktaðri gervigreind sem getur ekki logið. Líkindi útlendingastefnu Íslands í helförinni og nú í dag, hversu skammarlegt það er hve oft Ísland neitaði gyðingum um hæli, hversu langt við gengum þá, eins og nú, í „Ísland fyrir Íslendinga“ birtist hér í köldum en um leið spaugilegum tón sagnfræðingsins, úr munni barns sem segir staðreyndirnar eins og þær eru. Ádeila á flokkakerfi, stjórnmálin, ríkistjórn og nefndir, fjölmiðla og frændsemisgreiða, skandala og slaufun er skemmtilega skrifuð og lifandi í þessari frumlegu og framsæknu skáldsögu.

Lestu þetta næst

Gæsahúð í óperunni

Gæsahúð í óperunni

  Stuttu eftir að ég kvaddi rauðglóandi París í Borgarleikhúsinu er ég aftur komin til...