Fuckboy Hamlet Wants Your Pussy

10. nóvember 2025

Hamlet nútímans hefur stigið á svið. Prins Danaveldis er, eins og alltaf, að syrgja sviplegt andlát föður síns og kann illa að meta að móðir hans hafi gengið að eiga föðurbróður sinn svona stuttu eftir fráfallið. En þessi Hamlet er með nettengingu, hann slettir á ensku og hann kann á YouTube. Hann veit allt um samsæriskenningar og Charlie Kirk og vaxandi andúð á innflytjendum, hann veit að ástandið í Palestínu er eldfimt. Og hann veit að Claudius frændi varð föður hans að bana.

Í upphafi sýningar bjóða leikararnir áhorfendur velkomna, kynna sig og segja frá því hverja þeir leika. Stemningin verður þannig strax róleg og heimilisleg, og Shakespeare-verkið sem oft reynist áhorfendum aðeins torfært er strax fært nær okkur.

Texti og túlkun

Það sem er einna snilldarlegast við verkið, og þó er af mörgu að taka, er textinn. Það er ekki valin einhver ein leið, ein þýðing, heldur er blandað saman gamla góða Helga Hálfdánar, Þórarni Eldjárn og svo nútímamáli, slangri og ensku. Kolfinna Nikulásdóttir, leikstjóri verksins, skrifar leikgerðina sjálf með hjálp aðalleikarans, Sigurbjarts Atlasonar, og sýnir aftur að hún hefur mikið og gott vald á tungumálinu og er ekki hrædd við að fara ótroðnar slóðir og bjóða nútímann velkominn, hræra honum saman við fortíðina, ögra staðalímyndum og venjum og bjóða upp á eitthvað nýtt í íslensku leikhúsi.

 
Sviðið sem verkfæri

Sviðið er magnað verkfæri í höndum leikstjóra og leikhóps, en það er nýtt til hins ítrasta. Oft er Shakespeare settur upp á stóru sviði með mikilli umgjörð og stundum langar mann að sjá stórverk á stóru sviði, en mér hafði ekki dottið í hug að hægt væri að gera verkið risastórt með því að þjappa því saman á minna svið, með því að einfalda persónugalleríið og loka áhorfendur inni með leikhópnum sem flæðir um allt rýmið á skemmtilegan og hugmyndaríkan hátt. Þá finnst áhorfanda aldrei eins og þessi nýting á rýminu sé gimmick, því þetta er gert það vel að það rennur óhindrað og verður aldrei þvingað.

Brjálsemi nútímans

‘Fuckboy’ á Youtube sem gengur of langt í að ganga of langt, kennir brjálsemi um og er að búa hana til eða kannski ekki, hver veit. Hann kemur illa fram við konuna sem hann segist elska, en elskar hana svo ósköp heitt um leið og hún fellur frá. Ég tel að ef raunverulegur prins á þrítugsaldri myndi missa vitið myndi hann einmitt gera það svona.

Ófelía

Aumingja Ófelía er oft á tíðum svo litlaus karakter að það mætti allt eins sleppa henni úr verkinu og hafa hana bara sem hugmynd, draumsýn í sjúkum huga Hamlets, en í þessari uppsetningu er því alls ekki svo farið. Ófelía er mannleg og breysk, hún er ástfangin og óhamingjusöm, hún er örvingluð og týnd. Hamlet hennar sem var svo góður og sætur við hana verður allt í einu algjör rugludallur sem kemur illa fram, og svo myrðir hann pabba hennar. Það er ósköp mikið á eina konu lagt og sorg hennar fær mikið og gott rými í sýningunni og leikur Berglind Alda Ástþórsdóttir sorgina af svo mikilli snilld að seint verður leikið eftir. 

Persónur og leikendur

Og fyrst við erum farin að tala um leikinn þá eiga allir leikarar mikið lof skilið. Hilmir Snær og Sólveig Arnarsdóttir leika konungshjónin frábærlega, raddir þeirra eru sterkar og bera með sér tilfinningarnar sem þarf í hverri senu. Vilhelm Neto sýnir á sér nýjar hliðar í alvarlegu hlutverki og leikur það af svo stakri snilld að hann stendur upp úr. Hann er virkilega sannfærandi, sterkur og með góða raddbeitingu, og nýtir sviðið vel. Sigurbjartur Atlason stendur sig með glæsibrag í hlutverki Hamlets, hann fer vel með margbrotinn textann og skiptir á milli húmors, sorgar, slangurs og klassíkur á sannfærandi og leikandi hátt. Svo er klippingin hans líka frábær, en það er kannski ekki aðalatriðið.

 

Tónlist, búningar og lýsing

Tónlist verksins er mjög skemmtileg og lifandi. Persónur flytja lög úr hinum ýmsu áttum á fallegan og sterkan hátt. Það að blanda tónlist svona inn í verkið er gert mjög vel og hvorki ofnotað né haft í of litlum mæli. Það nær að brjóta upp tempóið og núllstillir salinn og leyfir áhorfendum að átta sig aðeins og fá kúnstpásu áður en hröð og þétt framvindan heldur áfram. Draugur konungs er sérstaklega flottur og allir þeir leikhústöfrar sem nýttir eru til að glæða hann lífi. Sömuleiðis má segja um drengjaherinn/kórinn/danshópinn sem er áhrifamikil og flott viðbót sem stækkar verkið og kemur með stríðandi umheiminn nær persónunum. Rammi verksins, samfélag sem er á barmi stríðsátaka, er fangað á nútímalegan hátt með áhrifum frá samfélagsmiðlum, samsæriskenningum, upplýsingaóreiðu og óhugnaði, og tel ég persónulega að lokasena verksins sýni að samfélagið sé hrunið í þann mund sem allar aðalpersónurnar okkar falla í valinn. Þannig er samfélagið spegill stofudramans og öfugt. Deyr fé, deyja frændur, deyr Danmörk í heild sinni.

 

Lokaorð

Þetta er menntaskólasýningin í ár. Án djóks. Ef það er áhugi fyrir að láta unglinga lesa Shakespeare,  kunna að meta leikhúsið sem lifandi listform og skemmta sér vel eina kvöldstund þá er þetta hundrað prósent verkið sem ætti að senda menntaskólanemendur á í hrúgum. 

 

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...