Hröð og skemmtileg rússíbanareið

25. nóvember 2025

Ævar Þór, stundum kallaður Vísindamaður, er rithöfundur sem kann svo sannarlega að ná til barna og unglinga. Í þetta skiptið heillaði hann heila dómnefnd upp úr skónum og hlaut fyrir vikið Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. Það kom í ljós fyrir heilu ári, en þar sem Ævar var þá þegar með fjölda bóka á útgáfulistanum ákvað hann að fresta útgáfunni um ár.

Bókin sem um ræðir heitir Skólastjórinn og fjallar um 12 ára óþekktarorm, Salvar Þór. Merkilegt nokk er þessi Salvar til í alvörunni en þegar Ævar var sjálfur í menntaskóla tók vinur hans upp á því að sækja um stöðu skólameistara í MA og fær hann þaðan innblásturinn

Litríkt persónugallerí

Þegar maður hefur lestur þessarar bókar gerir maður samning við höfundinn að þetta sé auðvitað fullkomlega mögulegt, að tólf ára barn geti sótt um stöðu skólastjóra og fengið starfið þar sem enginn annar sótti um og gleymt hafði verið að setja inn aldurstakmark. Salvar reddar sér allskyns gráðum á netinu og fær því auðvitað djobbið.

Fullorðna fólkið er skiljanlega sjokkerað og veit vart í hvorn fótinn það á að stíga. Samt sem áður fær Salvar lyklana af skólanum, skólaritarann Lenu sér til aðstoðar og eigin skrifstofu. Besta vinkona hans er Guðrún, uppátækjasöm stúlka sem stendur með Salvari í einu og öllu. Við fáum að kynnast fleiri persónum, þar á meðal hræðilega íslenskukennaranum Dagnýju, óþolandi vinkonu mömmu hans, Stellu, Bergi ljósastaur og genginu hans, og fleiri litríkum karakterum (þar á meðal Bekkjargrísnum!).

 

Ekki bara grín og glens

Sem skólastjóri fær Salvar fullkomið vald til að gera skólann að leikvelli sínum. Pizza og kandífloss í hádegismat og algjört frelsi til að blunda í tíma. Það er þó ekki allt dans á rósum, því miður er starf skólastjóra ábyrgðarhlutverk og hann fær meðal annars eineltismál inn á borð til sín. Þetta er þroskasaga hans Salvars, en hann þarf að rísa upp gegn hópþrýstingi svölu unglinganna og standa með sjálfum sér. Hann lærir heilmikið og sýnir að hann er með stórt hjarta og vill öllum vel, þó að hann sé stríðinn og gangi stundum of langt. Vinátta hans og Guðrúnar er falleg, það kemur í ljós í seinni hluta bókar að hann hefur hjálpað henni við lærdóminn lengi þar sem hún er með lesblindu. Fjölskylda Salvars er einnig flókari en hún lítur út fyrir að vera í fyrstu, einstæð móðir og fjarverandi faðir sem vanrækir hann.

Stíll Ævars er snarpur og allt gerist svakalega hratt! Kaflarnir eru stuttir, stundum bara örfáar setningar þannig bókin er sniðin að börnum sem eiga það til að missa athyglina fljótt. Hann talar á mannamáli, er ekkert að flækja hlutina, og virðist ná talanda barna frekar vel.

 

Skólastjórinn fannst mér eins og hraður rússíbani, vitleysan tekur engan enda og börn eiga eftir að skemmta sér stórvel yfir lestrinum. Salvar er mjög viðkunnanleg persóna og manni þykir óskaplega vænt um hann við lok lesturs. Myndir Elínar Elísabetar eru stórskemmtilegar, hún nær svipbrigðum Salvars mjög vel (sjáiði kápuna!) og teikningar hennar af Dagnýju kennara voru einnig í uppáhaldi. Teikningarnar voru frábært uppbrot í textanum og komu mátulega oft fyrir. Frábær bók fyrir börn sem vilja sögur sem gerast á þeirra í tíma í þeirra umhverfi með dass af hamagangi og draumórum, ég meina hver hefur ekki dreymt um að geta stjórnað öllu í skólanum sínum?

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...