Lesi þeir sem lesa vilja, mér og mínum að meinalausu

25. nóvember 2025

Þorir þú að lesa þessa?

Nú er altalað að ungmenni lesi ekki nóg. Hvort það er satt eða ekki læt ég liggja á milli hluta en fyrir þá sem hafa áhyggjur að þá er Gunnar Theodór Eggertsson með frábæra lausn. Í ár gefur hann út bókina Álfareiðin, en það er hrollvekja fyrir unglinga sem lætur engan ósnortinn eða, það sem mikilvægara er; óhræddan.

Eru þetta reiðir álfar eða álfar að ríða?

Ég er að spyrja fyrir vin. En burt séð frá því! Í Álfareiðinni kynnast lesendur hinni bráðgáfuðu og reglusömu Líneik sem er við það að hefja mikilvægasta verkefni menntaskólaferils síns – að gera hlaðvarpsþátt. Hún er ægilega spennt fyrir verkefninu, eða væri það ef það þyrfti ekki vera um álfa. Allir eru komnir með ógeð á álfum. Svo hjálpar heldur ekki að samverkamenn hennar í þessu verkefni eru Jónki, sem er jafn illa talandi á íslensku og hann er heimskur, og hin dularfulla Perla, sem enginn hefur enn náð að kynnast.

En Líneik ætlar ekki að láta þessi smávægilegu atriði stöðva sig þegar þau komast að því að lítt þekktur smábær á landsbyggðinni stæri sig af svokallaðri tröllakórónu – stóreflis grjóti sem er talið búa yfir alls kyns mætti og laðar túrista að víðsvegar frá. 

Þremenningarnir leggja af stað í ferð sem á að ganga klakklaust fyrir sig. En um leið og þau koma á áfangastað er eins og allt fari til fjandans. Slys, ókennilegir draumar, sýnir, rifrildi og rómantík, og svo eru þorpsbúar eitthvað svo voðalega dularfullir. Nú passa ég að segja ekki meira frá söguþræðinum þar sem spennan og vendingarnar eru það sem drífur söguna áfram.

Skemmtilegur, nútímalegur stíll

Vert er að nefna að stíllinn er knappur og skemmtilegur og höfundur fangar raddir ungmennanna sérlega vel. Þremenningarnir eru allir með sína sérstöku rödd og talstíl, og samskiptin þeirra á milli einstaklega vel heppnuð og skemmtileg aflestrar. Þá er þjóðsögum og álfasögum vafið saman við hreinan uppspuna sem og innblástur úr hrollvekjum okkar samtíma með góðum árangri. 

 

Ekki fyrir viðkvæma

En fyrir alla hina. Hvaða aldur ætti að lesa þessa bók? Ég myndi segja unglingastig og upp úr, ég tek ekki ábyrgð á yngri lesendum. En fullorðnir hafa svo sannarlega líka gaman af bókinni, ég las hana í einni beit og var sérlega ánægð með það að sjá svona kunnugleg og góð hryllingsminni nýtt á frumlegan hátt í íslenskri samtímasögu.

Boðskapur þessa dóms er sem sagt þessi: munið að til þess að unglingar lesi bækur á íslensku þá er mikilvægt að þau hafi aðgang að bókum á íslensku. Gefum endilega ungmennunum í okkar lífi Álfareiðina í jólagjöf og sjáum hvort þau sogast ekki inn í spennuna. Munið bara að hafa alls ekki húslestur um jólin upp úr henni, ég reyndi það heima hjá mér og þurfti snarlega að hætta við svo ellefu ára barnið myndi ekki hringja á barnavernd.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...