Þriðja bók ungstirnisins Emblu Bachmann er komin út! Í þetta skiptið skrifar hún fyrir aðeins yngri markhóp en í bókunum Stelpur stranglega bannaðar (2023) og Kærókeppnin (2024) . Paradísareyjan fjallar um vinina Freyju og Hallgrím sem eyða alltaf sumrinu á eyjunni þar sem Hallgrímur býr með foreldrum sínum. Freyja og pabbar hennar taka ferjuna yfir og búast við sumri fullu af skemmtilegheitum en fljótt kemur í ljós að eitthvað furðulegt er í gangi. Það er nýbúið að kjósa nýjan bæjarstjóra en hann virðist ekki vera traustsins verður, sem er svolítið kaldhæðnislegt þar sem hann heitir einmitt Trausti.
Freyja og Hallgrímur taka auðvitað málin í sínar hendur og gerast spæjarar. Freyja er frökk og málglöð en Hallgrímur er svolítið kassalaga og passar að skrá allar vendingar á rannsókninni í minnisbókina sína. Þau eru semsagt frábært teymi. Vinnuvélar birtast og rífa upp jörðina tvist og bast um eyjuna, byggingarsvæðunum fjölgar og fullt af ókunnu fólki dúkka upp á eyjunni sem eru ekki einu sinni að koma þangað til að fara á Eyjuhátíðina.
Peningasjúkur kapítalisti
Bókin hentar krökkum sem eru hrifin af hversdagslegri ævintýrum sem gætu mögulega gerst í alvörunni þar sem engar hræðilegar ófreskjur eiga þátt í sögunni. Trausti er þó frekar óhuggulegur náungi, minnir mögulega á ákveðinn mann hinu megin við Atlantshafið sem heldur að hann sé einræðisherra. Hann er blanda af peningasjúkum kapítalista og smeðjulegum sölumanni sem sér eyjuna bara sem svæði til að græða á. Svo er náttúruógnin töluverð, eldfjall lúrir á eyjunni sem hótar nú að fara að gjósa en Trausti hunsar allar viðvaranir jarðfræðinga.
Bergrún Íris Sævarsdóttir myndlýsir bókinni og er textinn reglulega brotinn upp með fallegum svarthvítum myndum sem undirstrika og bæta við frásögnina. Sérstaklega fannst mér myndirnar af fullorðna fólkinu sem er neytt til að vinna í tívolíinu skemmtilegar, fúli svipurinn í mótsögn við krúttlegu bangsana og kandíflossið.
Persónur sem börn tengja við
Paradísareyjan er uppfull af ráðgátum og furðulegum uppákomum, snjöllum börnum sem bjarga deginum og ævintýralegu andrúmslofti. Hér gæti Embla jafnvel skrifað sjálfstætt framhald þar sem Freyja og Hallgrímur leysa aðra ráðgátu á öðrum stað? Þetta eru klárlega persónur sem börn munu langa til að fylgjast með í gegnum fleiri bækur. Það er þó skemmtilegur rammi settur á frásgögnina en á fyrstu blaðsíðu hittum við Hallgrím sem gamlan mann 50 árum eftir atburði bókarinnar þar sem hann byrjar að rifja upp ævintýrið á Paradísareyju.






