Augnablikin sem urðu að minni þjóðar

15. desember 2025

Kápumynd af bókinni Spegill þjóðar

Það er eitthvað sérstakt við fréttaljósmyndir sem lifa lengur en sjálft dagblaðið eða fréttatíminn. Þær birtast aftur og aftur í blöðum, bókum, á fréttavefsíðum og eru svo orðnar að eins konar sameiginlegu minni okkar um ákveðna atburði. Það eru slíkar myndir sem prýða bókina Spegill þjóðar : fréttamyndir í fimmtíu ár og sagan á bak við þær eftir Gunnar V. Andrésson og Sigmund Erni Rúnarsson. Það kemur því ekki á óvart að bókin sé tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns efnis.

Fréttamyndir og saga þjóðar

Gunnar V. Andrésson er einn af áhrifamestu fréttaljósmyndurum landsins og spannar ferill hans um hálfa öld. Margar af hans myndum eru orðnar táknmyndir í sögu þjóðarinnar. Myndir sem við grípum ósjálfrátt til þegar minnst er tiltekins atburðar eða tímabils. Í bókina hefur Gunnar valið á annað hundrað ljósmynda úr safni sínu og Sigmundur Ernir hefur tekið saman sögur Gunnars um þær og sett í lifandi, skýran texta.

Bókin sjálf er vegleg og fallega hönnuð og pappírinn þannig að myndirnar fá að njóta sín. Uppsetning hennar er svo einföld og áhrifarík. Ein opna með einni mynd og einni sögu. Myndunum er raðað í tímaröð og fylgja ferli Gunnars frá hans fyrstu skrefum sem ungs ljósmyndara yfir í reyndan og snjallan ljósmyndara sem hefur fylgst með ýmsum viðburðum þjóðarinnar í gegnum árin. Þessi tímalína sem nær yfir fimmtíu ár gerir bókina að nokkurskonar myndrænni sögu þjóðar þar sem pólitík, mótmæli, gleði, sorg og hversdagslegt mannlíf mætist. Það sem gerir bókina svo sérstaklega skemmtilega er hvernig texti Sigmundar gefur enn meiri innsýn inn í sjálfar myndirnar. Gunnar segir frá aðdraganda myndanna sem einkennist oft af tilviljunum, heppni, úthaldi eða jafnvel hreinum mistökum. Sigmundur grípur það og sníðir texta sem dýpkar samhengið og setur myndirnar inn í stærra, sögulegt landslag. Hver ljósmynd fær þannig aukna dýpt. Hún er ekki lengur bara stök mynd af einhverju viðfangsefni heldur hluti af frásögn um sögu fjölmiðla og samfélagið sjálft.

 

Nostalgía fyrir suma, uppgötvun fyrir aðra

Þau sem muna tímana sem sýndir eru í bókinni upplifa mögulega ákveðna nostalgíu við lesturinn. Kannast kannski við atburðina sem myndirnar fanga og rifja þá upp. Þau sem svo eru yngri og hafa ekki lifað alla þessa áratugi sem myndir Gunnars spanna, kynnast sögunni í gegnum þær. Bókin er frábær leið til að kynnast sögunni á myndrænan hátt. Textinn fyllir inn í eyðurnar og útskýrir hvers vegna augnablikið sem myndirnar fanga varð svona mikilvægt en myndin sjálf heldur sína kraftmikla augnabliki. Upplifunin við lesturinn er svolítið eins og að setjast með Gunnari og Sigmundi yfir kaffibolla við eldhúsborð þar sem dregnar eru fram myndir og sagðar sögur, stundum er hlegið og stundum er alvara – og þú situr með, skoðar og hlustar. Það er styrkur bókarinnar, hún er fagleg en jafnframt persónuleg svo að lesandinn hrífst með.

Spegill þjóðar er bæði listaverk og heimild. Hún minnir okkur á hvað fréttaljósmyndun skiptir miklu máli fyrir sögu okkar, hún skiptir máli á þann hátt að hún skráir söguna þegar hún gerist og hefur þannig áhrif á það hvernig við skiljum fortíðina. Spegill þjóðar er bók sem á heima hjá öllum þeim sem hafa áhuga á því hvernig sagan okkar lítur út þegar hún er fryst í sekúndubroti. Hún geymir sameiginlega sögu okkar og megum við alveg vera Gunnari þakklát fyrir að hafa haldið á myndavélinni alla þessa áratugi og nú deilt myndunum með okkur á svona veglegan hátt.

Lestu þetta næst

Gæsahúð í óperunni

Gæsahúð í óperunni

  Stuttu eftir að ég kvaddi rauðglóandi París í Borgarleikhúsinu er ég aftur komin til...