Þögnin undir rúminu
Eftir Stefaníu Silfá Sigurðardóttur
Stundum hélt stúlkan að húsið andaði. Það var eins og það drægi andann hægt inn, í takt við vindinn sem strauk gluggana að utan. Þegar hún lá í rúminu sínu á kvöldin hlustaði hún á húsið anda, inn og út, og hún andaði eins svo þau væru saman í því, hún og húsið.
Í herberginu hennar var lítið borð og stóll sem rispaði gólfið þegar hún færði hann til. Á borðinu var bók með rifinni kápu sem hún hafði lesið aftur og aftur. Bókin fjallaði um systur sem fóru saman út í skóg að finna frið. Stúlkan var ekki alveg viss um hvað friður væri en það hljómaði eins og eitthvað sem hún þyrfti á að halda.
Á morgnana vaknaði hún oft áður en vekjaraklukkan hringdi. Þá lá hún og horfði á rykagnirnar í ljósgeislanum sem skein á milli gardínanna. Þær dönsuðu mjög hægt eins og þær vissu að það mátti ekki hafa hávaða, sem stúlkan hafði líka lært.
Mamma var stundum í eldhúsinu þegar hún kom niður. Stúlkan talaði sjaldan en þegar hún gerði það var rödd hennar veik.
„Svafstu vel?“ spurði mamma.
Stúlkan kinkaði bara kolli.
„Það er kalt í dag,“ sagði mamma og fékk sér sopa af kaffinu sínu.
Það var alltaf kalt samkvæmt mömmu.
Pabbi var oftast ekki kominn fram þegar stúlkan fór í skólann en stundum sat hann í eldhúsinu og las blaðið. Þá reyndi stúlkan að labba hægt og rólega í kringum hann. Þegar hann leit á hana þá fannst henni eins og hún hefði gert eitthvað rangt.
Í skólanum sat hún aftast. Kennarinn var góður við hana og spurði hana aldrei að neinu. Þegar einhver spyr þá horfa allir. Stúlkan kunni ekki að eignast vini. Hún hafði reynt, einu sinni í frímínútum, og bauð stelpu að koma og róla en stelpan þóttist ekki heyra í henni og labbaði í burtu. Kannski var það ástæða þess að hún brosti ekki. Mamma sagði að hún væri með fallegt bros og að hún ætti að nota það oftar.
Á heimleiðinni taldi stúlkan skrefin. Eitt þúsund, þrjúhundrað og fjögur, þá var hún komin að brúnni sem ég datt af. Tvöþúsund tuttugu og eitt, þá sá hún húsið okkar. Stundum óskaði hún þess að eiga heima annars staðar, kannski í gula húsinu sem stóð uppi á hæðinni. Hún hafði ímyndað sér að þar byggi fjölskylda sem höfðu kozy og horfðu saman á mynd á kvöldin.
Á kvöldin hugsaði hún út í hvort það hefði verið gaman heima áður fyrr, þegar ég var á lífi, en hún mundi það ekki því hún var svo lítil. Hún hafði séð mynd á borðinu af okkur öllum. Mamma var í bláum kjól með krullað hár sitt og stúlkan í fanginu. Ég stóð við hlið hennar og pabbi fyrir aftan okkur. Stúlkan tók upp myndina og horfði á hana. Svo heyrði hún útidyrnar skellast og lagði myndina strax niður.
Þegar mamma og pabbi rifust reyndi stúlkan að telja: Einn… tveir… þrír… Hún vissi að ef hún kæmist upp í hundrað þá væru þau líklegast búin. En það var ekki alltaf þannig. Þá skreið hún undir rúmið sitt með hendur yfir eyrunum. Þögnin þar var þykk og hélt stúlkan að þar gæti enginn náð í hana.
Einu sinni í skólanum kom kennarinn til hennar eftir tíma.
„Hvernig líður þér?“ spurði hann.
„Bara vel,“ sagði stúlkan. Henni fannst auðveldara að segja það bara.
Kennarinn andvarpaði:
„Ef eitthvað er að þá máttu alltaf koma og tala við mig.“
Stúlkan kinkaði kolli en vissi að orð gátu ekki breytt neinu. Þau voru bara eins og rykagnirnar í loftinu – svifu um í smá stund og hurfu svo.
Eitt kvöldið heyrði hún pabba öskra á mömmu inni í eldhúsi. Stúlkan vildi fara til mömmu en fæturnir hreyfðust ekki. Hún stóð efst í stiganum og hlustaði. Það var eins og rödd pabba kæmi úr öðrum heimi. Svo heyrði hún högg. Stúlkan hljóp í herbergið sitt og skellti hurðinni á eftir sér.
Næturnar voru langar. Hún vaknaði oft og hlustaði á þögnina. Það var ekki lengur eins og húsið andaði, heldur eins og það héldi niðri í sér andanum.
Um daginn fann stúlkan fjöður úti í garði. Hún hélt að það væri merki um eitthvað gott og setti hana í vasann. Hún hélt í hana allan daginn. Þegar hún kom heim var fjöðurin horfin. Kannski hafði hún runnið úr vasanum eða kannski hafði vindurinn tekið hana.
Það var eitthvað við vindinn sem hún skildi ekki. Hann gat bara komið og farið án þess að þurfa leyfi frá neinum.
Seinna um daginn sat hún við skrifborðið sitt og horfði út um gluggann. Mamma var sofnuð í sófanum og pabbi var ekki heima. Úti var logn og rigning sem gerði loftið ferskt og gott.
Hún hugsaði um systurnar í bókinni. Kannski myndi hún finna mig. Í myrkrinu, vatninu eða í fuglunum sem flugu hátt.
Hún fann blýant og skrifaði á blað: Ég ætla að finna hann.
Svo lagði hún blaðið á skrifborðið sitt.
Hún klæddi sig í grænu regnkápuna sína og læddist fram hjá mömmu svo hún myndi ekki vakna.
Þegar hún gekk út lokaði hún dyrunum hægt á eftir sér. Rigningadroparnir féllu á kápuna og runnu niður. Það var dimmt úti en það stoppaði hana ekki.
Hún gekk meðfram götunni sem var orðin full af pollum. Í einum þeirra sá hún glitta í spegilmynd sína en hún hélt áfram að ganga. Vindurinn var orðinn sterkur og ýtti henni áfram.
Þegar hún kom að brúnni stoppaði hún.
Vatnið í ánni glampaði í myrkrinu, eins og stjörnurnar á himninum.
Hún lokaði augunum.
„Ég er að koma til þín,“ hvíslaði hún.
Og svo var allt hljótt.
Enginn vindur, engin rigning, ekki neitt
Bara ég og hún og þögnin undir rúminu.
Stefanía Silfá er 23 ára og er frá Bolungarvík. Hún er í B.A.-námi í blaðamennsku með ritlist sem aukagrein. Silfá fór í hússtjórnarskólann haustið 2021 og er með Sveinspróf í hársnyrtiiðn. Í ritlist lærði hún að vera skapandi og þurfti að klífa yfir þann vegg að sýna öðrum hvað hún skrifar.

