Nú þegar nýtt ár hefur gengið í garð er tilvalið að lesa brakandi ferskar smásögur og örsögur sem voru smíðaðar síðasta haust á ritlistarnámskeiðinu Sögur til næsta bæjar. Í Háskóla Íslands er nefnilega hægt að taka ritlist sem aukafag á B.A. stigi. Þar geta háskólanemar kannað víðáttumiklar lendur ritlistarinnar í fjölbreyttum smiðjum þar sem allskyns form eru kennd, líkt og ljóðlist, handritaskrif, þýðingar og sagnagerð.
Fyrir einu og hálfu ári birtum við einmitt fjölda texta eftir upprennandi skáld og ákváðum að endurtaka leikinn þar sem nýir pennar hafa þjálfar höfundarrödd sína síðustu mánuði og eru tilbúin til að deila afrakstrinum með lesendum Lestrarklefans. Sögurnar munu birtast, fjórar í senn næstu vikur, alltaf á mánudögum. Hver höfundur á eina sögu og eru þær ótengdar fyrir utan það að hafa verið skapaðar núna síðasta haust.
Ég vona að þið njótið lestursins en fyrsti sagnaskammturinn er nú kominn inn á síðuna undir yfirskriftinni Sögur til næsta bæjar.
Skáldakveðjur,
Rebekka Sif Stefánsdóttir
Stundakennari við Háskóla Íslands og ritstjóri Lestrarklefans

