Andardráttur þinn á húð minni
Eftir Atlas Hróa Hafdísarson
Loftið innan í bílnum er kæfandi, þung blanda af sígarettum, svita, áfengi og sleipiefni. Viktor finnur svitaperlurnar leka niður bakið á sér, finnur hvernig blautt hárið klessist við ennið. Hann teygir sig aftur, ætlar að toga þykka hettupeysuna af sér, en Mikael grípur um úlnliðinn á honum, ýtir hendinni niður á bílsætið og heldur henni þar. Takið er svo fast að Viktor kveinkar sér. Það hljóta að koma marblettir á föla húðina, í laginu eins og fingur.
Stellingin sem hann hefur sett Viktor í er langt frá því að vera þægileg, vinstri fóturinn kraminn á milli hans og bílsætisins á meðan sá hægri rembist við að reyna að halda honum uppi, bakið sveigt niður á meðan Mikael heldur um mjaðmirnar. Viktor langar að færa sig, að snúa sér við svo hann geti lagst niður á sætið í staðinn og horft upp á Mikael, en hann veit nú þegar hvað svarið verður ef hann spyr. Hann getur allavega ekki fundið áfengislyktina af andardrætti Mikaels á meðan hann snýr frá honum. Hann getur logið að sjálfum sér að Mikael sé edrú, að hann vilji hann án þess að þurfa að hella sig fullan fyrst.
Mikael beygir sig fram, breiðir úr sér yfir bak Viktors. Andardrátturinn er hlýr þegar hann strýkur vörunum upp við hnakka Viktors, kyssir sér leið frá hálsmálinu á hettupeysunni og að mjúku hárinu. Áfengislyktin verður sterkari en Viktor leiðir hana hjá sér, teygir frekar úr hálsinum og andvarpar þegar Mikael kyssir fyrir neðan kjálkann á honum. Hann finnur hvernig takturinn sem Mikael hefur haldið hingað til verður hraðari, hreyfingarnar ónákvæmari, stunurnar upp við hálsinn á Viktori háværari. Mikael færir höndina af úlnlið Viktors og vefur henni utan um hann, togar hann upp að bringunni á sér, grefur andlitið í hálsinum á honum.
„Ég elska þig,” hvíslar Viktor. Mikael faðmar hann fastar, bítur í viðkvæma húðina á hálsinum á honum og fær það með lágri stunu. Hann heldur utan um Viktor eins og hann sé hræddur um að hann muni fara frá honum. Viktor tekur höndina af bílsætinu og strýkur henni eftir berum handlegg Mikaels, í gegnum svitann sem hefur safnast saman á heitri húðinni.
Mikael færir höndina frá mitti hans og upp að kjálkanum, snýr andliti Viktors í áttina að sér. Hann fær sting í hálsinn við hreyfinguna en sársaukinn hverfur þegar Mikael kyssir hann á varirnar. Hann bragðast eins og áfengi og sígarettur. Viktor gæti kysst hann að eilífu, týnt sér í vörum hans, lyktinni af honum, þungum hjartslættinum sem hann finnur upp við bakið á sér.
Mikael kyssir hann einu sinni á kinnina áður en hann færir sig burt, girðir upp um sig buxurnar og stígur út úr bílnum, skilur Viktor eftir einan í aftursætinu. Hann saknar strax hlýjunnar sem barst frá líkama Mikaels.
***
Þeir höfðu verið að hittast í tvo mánuði þegar Viktor sagði vinum sínum frá Mikael. Venjulega sagði Viktor vinum sínum allt, hann treysti þeim fyrir lífi sínu, en hann hafði lofað Mikael að segja engum frá hittingum þeirra. Mikael var bara ekki tilbúinn í að opinbera sambandið. En Viktor hafði ekkert val þegar hann kom heim eitt kvöldið og Hugó sá sogblettina sem þöktu hálsinn.
Hugó hafði hringt í Fannar um leið og beðið hann að „vinsamlegast drullaðu þér hingað með eins mikið áfengi og þú getur, það var vampíra sem réðst á Viktor og við þurfum að fá allt teið.” Það liðu ekki tuttugu mínútur áður en Fannar ruddist inn um dyrnar, móður og másandi með hvítvínsflösku í hendinni og krafðist þess að fá að vita um allt sem gerðist.
Þeir voru skilningsríkir í fyrstu. Þeir skildu að Mikael vildi ekki hitta þá strax, enda voru þeir bara nýbyrjaðir að hittast. Eftir þrjá mánuði og óteljandi misheppnuð plön var allur skilningur horfinn.
„Þetta er svo mikið rautt flagg að það er ekki einu sinni fyndið,” segir Hugó þar sem hann situr og starir á auða sætið við hliðina á Viktori.
„Án djóks. Ég meina kom on, það getur ekki verið að það sé svona mikið að gera á einhverri skrifstofu.” Viktor heyrir varla svar Fannars í gegnum suðið í eyrunum. Höndin sem heldur um símann skelfur á meðan hann starir niður á brotinn skjáinn.
Mikael ❤️:
sry, sos i vinnunni, heyri i þer seinna
Ég:
minnsta mál baby, gangi þér vel ❤️
elska þig 😘❤️
Séð 19:38
„Viktor?” Rödd Hugós brýst í gegnum suðið og Viktor lítur upp, mætir áhyggjufullum augum vina sinna, finnur fyrir þungum bassanum í tónlistinni yfirgnæfa hraðan hjartsláttinn.
„Ha?” Svarið hans er varla meira en lágt tíst en hann virðist ekki geta komið neinu öðru framhjá kekkinum sem hefur tekið sér bólfestu í hálsi hans. Fannar teygir fram höndina og tekur símann varlega úr titrandi hendi Viktors.
„Er allt í lagi?” Viktor kinkar kolli, kyngir einu sinni áður en hann opnar munninn aftur.
„Já, já, ég er góður.” Hann hlær, reynir að losa um spennuna sem hefur myndast á milli þeirra.
„Ég skil ekki af hverju hann getur ekki bara beilað á vinnuna,” segir Hugó á milli sopa. Augnaráð hans sker Viktor inn að beini, flettir húðinni af honum og horfir beint inn í hjartað. Viktor yppir öxlum, klórar sér aftan á hálsinum og lítur burt.
„Hann er að gera sitt besta.” Viktor er ekki viss hvort hann sé að reyna að sannfæra þá eða sjálfan sig.
***
Viktor bankar létt á skrifstofuhurðina. Mikael lítur ekki upp frá tölvunni þegar hann spyr Viktor hvað hann vanti.
„Ég vildi bara tékka á þér. Þú hefur ekkert komið fram í smá tíma, ég var bara að pæla hvort þú vildir ekki taka pásu?” Viktor hallar sér upp að bakinu á skrifstofustólnum, vefur handleggjunum yfir axlir Mikaels og kyssir á honum kinnina.
„Ég þarf að klára þessa skýrslu, hún þarf að vera tilbúin fyrir kynninguna,” svarar Mikael stuttaralega og heldur áfram að pikka á lyklaborðið. Viktor hallar sér nær, rennir hendi niður eftir handlegg Mikaels.
„Hún er ekki fyrr en eftir viku og þú ert búinn að sitja hérna í marga klukkutíma,” reynir Viktor áfram, greiðir hinni hendinni í gegnum gelað hár Mikaels, klórar honum í hársverðinum.
„Ég hef ekki tíma fyrir það, ókei? Ég þarf að klára þetta.”
„En þú átt eftir að geta einbeitt þér miklu betur ef þú stendur aðeins upp, færð smá frískt loft. Við getum kannski farið út í göngutúr eða-” rödd Viktors brestur þegar Mikael grípur fast utan um úlnliðinn á honum og hrindir honum frá sér svo hann þarf að styðja sig við skrifborðið til að detta ekki aftur fyrir sig. Verkurinn fer upp handlegg Viktors eins og rafstraumur.
„Ég sagði þér að ég þarf að klára þetta.” Rödd Mikaels er flöt og augun köld þegar hann horfir á Viktor þar sem hann stendur og heldur um úlnliðinn á sér. Viktor snýst á hæl og fer út úr skrifstofunni án þess að segja orð, lokar hurðinni varlega á eftir sér. Hann er nánast í leiðslu þegar hann gengur inn í stofuna og sekkur ofan í sófann, vefur handleggjunum utan um hnén á sér og leyfir tárunum að streyma.
Sólin er sest þegar Mikael kemur loksins fram. Viktor hefur ekki hreyft sig síðan hann settist niður, en hann lítur upp þegar hann finnur hönd Mikaels strjúka eftir kjálkanum á sér, fingur hans kaldir upp við heita húð Viktors þar sem þeir renna eftir þornuðum tárum. Með hinni hendinni tekur hann laust um úlnliðinn á Viktori, kyssir húðina sem hann hafði áður kramið undir fingrum sér.
„Fyrirgefðu. Þú veist hvernig ég verð þegar það er mikið að gera,” hvíslar hann upp við húðina á Viktori. Viktor kinkar kolli, finnur hvernig gæsahúðin dreifist um líkamann þegar varir Mikaels leita hærra, strjúkast upp við viðkvæma húð og skilja eftir sig blautan slóða.
„Ég þarfnast þín. Meira en súrefnis.” Viktor finnur fyrir orðum Mikaels upp við hálsinn á sér, finnur hvernig þau klóra sér leið inn í hjartað. Hann streitist ekki á móti þegar hendur Mikaels leita undir fötin hans, þegar Mikael ýtir honum varlega þannig hann liggur á bakinu í sófanum. Hann leyfir sér að hverfa ofan í snertingar Mikaels, leyfir nautninni að breiða sig yfir verkinn í úlnliðnum.
***
Mikael ❤️:
þetta er ekki að virka lengur. kem með dotið þitt a morgun.
Séð 23:47
Viktor situr á rúminu sínu þegar Hugó kemur heim með Fannar í eftirdragi. Hlátur þeirra bergmálar um íbúðina, brotinn upp með blautum kossahljóðum og lágværum ástarjátningum. Viktor hefur það ekki í sér að vera hissa, eflaust hefði hann tekið eftir breytingunni í sambandi vina sinna ef hann hefði horft á eitthvað annað en Mikael.
„Viktor? Ég hélt þú ætlaðir heim til Mikaels?” Þeir standa í dyragættinni, hárið úfið og kinnarnar rjóðar. Brosin hverfa af andlitum þeirra þegar Viktor lítur upp. Fannar er við hlið hans á augabragði, dregur hann þétt upp að sér þangað til Viktor situr í fanginu á honum og sterkir handleggir Fannars umlykja hann. Hugó tekur símann upp af náttborðinu og bölvar í hljóði á meðan hann les skilaboðin.
Það er þá fyrst sem Viktor brotnar niður. Hann hafði setið á rúminu sínu í marga klukkutíma án þess að hreyfa sig, en núna getur hann ekki stöðvað ekkasogin sem brjóta sér leið úr hálsinum. Fannar heldur þéttar utan um hann og Hugó vefur sér utan um hina hlið hans, hvíslar huggandi orð sem Viktor heyrir ekki fyrir brothljóðunum í hjartanu.
Þegar Mikael kemur morgunin eftir er það Fannar sem fer til dyra á meðan Viktor sefur í öruggum faðmi Hugós. Eftir nánast árslangt samband er þetta í fyrsta skipti sem þeir hittast, og Mikael stígur aðeins til baka þegar hann sér að það er ekki Viktor sem opnar hurðina.
„Er Viktor heima?” spyr hann eftir smá hik. Fannar kinkar kolli, krossleggur hendurnar og starir niður á Mikael sem tekur annað skref til baka og grípur fastar um krumpaðan Bónus-pokann í hendinni. „Gæti ég fengið að tala við hann?”
„Nei.” Mikael hnyklar brýnnar og reynir að líta inn í íbúðina yfir öxl Fannars, en hann færir sig fyrir og hallar hurðinni.
„Ég þarf að tala við hann,” heldur Mikael áfram. Fannar hlær kaldranalega, hristir hausinn.
„Hann er upptekinn, en ég skal taka þetta fyrir þig.” Áður en Mikael nær að svara grípur Fannar um Bónus-pokann og hrifsar hann til sín. Mikael stendur enn frosinn þegar Fannar skellir hurðinni í andlitið á honum.
***
Þeir ákveða að halda brennu nokkrum mánuðum seinna, þegar sorgin hefur umbreyst í reiði og tilhugsunin um að eiga eitthvað sem Mikael gaf honum fær Viktor til að vilja æla. Hugó tæmir stálruslafötuna sem hann hafði geymt í herberginu sínu og þegar þeir koma henni fyrir í fjörunni fyllir hann hana af eldsneyti. Viktor stendur með lítinn kassa fullan af hlutum og fylgist með vinum sínum kveikja eldinn.
Þegar Fannar gefur honum merki byrjar hann að tína upp úr kassanum: bíómiða frá fyrsta stefnumótinu þeirra, þurrkaða rós sem Mikael gaf honum, Polaroid-mynd af þeim liggjandi í hrúgu í rúmi Mikaels. Hvern á fætur öðrum leyfir Viktor þeim að falla í eldinn, lokar augunum þegar lyktin af reyk fyllir vitin. Fannar og Hugó halda utan um hann allan tímann, bölva með honum þegar hann segir þeim sögur af Mikael.
Þegar þeir snúa aftur í íbúðina er Viktor aðeins léttari, með tóman kassann í fanginu. Vinir hans bjóða honum góða nótt og hann slekkur ljósin, sekkur ofan í rúmið sitt.
Um leið og augun lokast finnur hann lyktina af áfengi og sígarettum, sleipiefni og svita, finnur heitan andardrátt upp við eyrað á sér.
„Ég þarfnast þín. Meira en súrefnis.”


