Hið fullkomna samband
Eftir Elísu Rún Svansdóttur
„Þessi græja er algjöör snilld! Að hafa aðgang að hugsunum kjellunnar er game changer, auðveldar líf mitt ekkert smá mikið, möst fyrir alla karlmenn!“
Þegar Sindri las þessi ummæli á netinu fylltist hann af miklum spenningi. Vinur hans mælti með því að ef hann væri orðinn þreyttur á konunni og öllu tuðinu í henni, ætti hann að prófa þessa græju. Í fyrstu var hann ekki alveg viss – þessi tækni var ennþá ný og ekki lögleg alls staðar; en hann var orðinn örvæntingafullur. Hann leit til hliðar á sofandi konu sína og hugsaði hversu miklu einfaldara líf þeirra yrði ef hann gæti lesið hugsanir hennar, hún sagði honum aldrei neitt og þegar hún gerði það botnaði hann ekkert í henni. Hann langaði ekki að rífast meira við hana, og tapa í hvert skipti. Hann las meira og þetta var í raun afskaplega einfalt: Eitt kvöldið fyrir svefninn þurfti hann að gefa konu sinni svefnlyf þegar hún sá ekki til. Þegar hún svo sofnar kallar hann á starfsmenn fyrirtækisins sem koma á staðinn með pínulitla flögu sem þeir sprauta gegnum annað eyrað á henni – beint upp í heila og voila! Þá hefur hann aðgang að öllu hennar innra sálarlífi og hugsunum. Hann lagði inn pöntun fyrir þjónustunni, þetta yrði gert næsta þriðjudagskvöld.
Þegar loks kom að deginum gat Sindri ekki hamið sig vegna spennings. Konan hans spurði hann í sífellu af hverju hann væri svona brosmildur og kátur, en hann svaraði henni aðeins með hvítum lygum. Hann ákvað að bjóða henni upp á hvítvínsglas, þrátt fyrir að það væri aðeins þriðjudagur. Hún þáði það og með því fór plan hans af stað. Hann muldi þrjár svefntöflur og leyfði þeim að leysast vel upp í víninu áður en hann færði henni glasið. Hún var lengur að sofna en hann átti von á, en tíminn stóð sem kyrr þar til hann gat loksins kallað á mennina frammi til að sprauta hana með flögunni.
Næstu daga kvartaði hún reglulega vegna dularfulls höfuðverks, en slíkan verk hafði hún sjaldan fengið á lífsleiðinni og það var hreinlega ekkert sem virkaði. Sindri varð yfirleitt pirraður þegar hún sagðist vera með höfuðverk; oftar en ekki var það þegar hann langaði í kynlíf eða að bjóða vinum sínum í heimsókn, en nú varð hann það ekki. Hann var búinn að tengja símann sinn við flöguna og sá það skýrt að hún var ekki að ljúga – höfuðverkurinn var alvöru og vegna flögunnar. Algjör snilld.
Með flögunni fylgdi app sem sýndi töflu með tilfinningum hennar og líðan; hugsunum hennar í skrifuðum orðum sem og hljóðupptökum, og hvar hún væri stödd á tíðarhringnum. Í fyrstu skoðaði hann appið einungis á kvöldin þegar hún var sofnuð. Hann var stressaður að hún myndi vilja sjá hvað hann væri að gera í símanum. En með tímanum sem leið fór hann að nota appið meira og meira. Hann fylgdist með tíðarhringnum til að vita hvenær hann þyrfti að nota smokk. Hana langaði að eignast barn sem fyrst og hélt hún að þau væru að reyna, en með þessari tækni gat hann alveg stjórnað því án þess að hún vissi nokkuð. Hann nennti ekki að hugsa um barneignir strax en mögulega eftir nokkra mánuði, hver veit?
***
„Þrír mánuðir eru liðnir síðan flagan var sett upp í heila konu minnar. Fyrsti mánuðurinn gekk eins og í sögu – ef ég skildi ekki hvað hún var að biðja mig um kíkti ég bara á appið og gat grafið mun dýpra en ég náði með samtölum okkar á milli. Ég stúderaði töfluna með tilfinningum hennar og vissi því nákvæmlega hvenær hún væri til í kynlíf og hvenær ekki. Auðvitað komu dagar þar sem hún fór mikið upp og niður og því var alls ekki hægt að treysta fullkomlega á appið en ég meina, það eru kostir og gallar við allar græjur. Hún var líka ánægðari með mig en áður; þegar ég fann að það var einhver pirringur í henni kíkti ég á appið og sá hvað var að angra hana. Oftar en ekki var það uppvaskið eða álíka dæmi sem tengdist heimilinu sem ég henti mér þá í – þó finnst mér enn heimskulegt af henni að vera pirruð út í mig þegar kemur að svona einföldum hlutum – hún er bara miklu betri í þessum heimilsstörfum en ég. Það er bara staðreynd.
Eftir tvo mánuði vildi hún setjast niður með mér í þeim tilgangi að ræða málin undir fjögur augu. Ég var ansi stressaður fyrir því, sagðist þó alveg vera til í það en að ég þyrfti að fara á klósettið en ég fór eingöngu inn á baðherbergi til að fá frið frá henni. Og til að lesa hugsanir hennar. Henni fannst við ekki eiga nógu góð samskipti, tölum aldrei saman lengur. Díses, þessar konur. Finnur hún ekki að við þurfum ekki að tala jafn mikið saman og áður? Ég geri hlutina sem hún vill að ég geri, gef henni speis þegar hún er á túr. Ég veit alveg hvernig henni líður og þetta er aðeins of dramatískt fyrir minn smekk.
Eftir spjallið okkar gerði ég mér grein fyrir því að eitthvað yrði að breytast. Ég fór á vefsíðu fyrirtækisins sem hannaði appið, og viti menn! Það eru fleiri en ég í álíka aðstæðum. Ég las næstum þrjátíu ummæli frá mönnum um allan heim sem mældu með því að fá sér nýjustu uppfærsluna; það kostaði dálítinn pening en þeir sögðu allir að það væri algerlega þess virði. Svo ég ákvað að prófa. Þetta var ósköp einfalt. Eitt kvöldið gerði ég nákvæmlega það sama og áður: Bauð konunni upp á hvítvín með svefntöflum og þegar hún var sofnuð komu sömu menn og áður og sprautuðu nýrri flögu – í þetta skiptið gegnum hitt eyra hennar.
Síðan þá höfum við aldrei verið hamingjusamari! Nú hef ég fullan aðgang að heila hennar og get hjálpað henni að velja rétt og hvað skal gera og segja, það auðveldar líf mitt mjög, og nú er einfaldlega ekkert meira tuð að trufla okkar samband!“
– Sindri Gunnarsson, 7. júlí 2035.
Elísa Rún er þriðja árs nemi í almennri bókmenntafræði og ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað og búið til sögur frá unga aldri. Hún hefur gaman af gróteskum hryllingssögum, femínískum bókmenntum og Agöthu Christie.


