Sögur til næsta bæjar: Upp upp þín sál

27. janúar 2026

Upp upp þín sál

Eftir Guðrúnu Ágústu Gunnarsdóttur

„Hvert helduru að við förum þegar við deyjum?“

Spurning Ífu liggur í loftinu, ekkert svar berst nema brakið í þunnri loftdýnunni. Karlotta teygir sig í poppskálina og grípur þétt um poppið svo það molnar í litlum lófanum. Hún treður því svo harkalega upp í sig að lakið fær einnig sinn skammt, tyggur hart poppkornið hugsandi og kyngir.

            „Mamma mín segir að maður fari til himnaríkis þegar maður deyr,“ svarar hún loks. Ífa lítur efins á hana um leið og hún fær sér sopa af ísköldu kóki.

            „En bara ef maður er þægur,“ ítrekar Karlotta.

 

Þögn.

 

„Við trúum ekki á Guð heima hjá mér,“ muldrar Ífa og lýtur höfði.

            „Í alvörunni?“ Karlotta stendur svo hratt upp frá hálfuppblásinni dýnunni að hún þarf að teygja hendurnar út til að ná jafnvægi.

„Hvað trúiði þá á? Bara ekki neitt?“ hrópar hún upp yfir sig og hnyklar brýnnar, dæmandi á svipinn. Það er líkt og hún grípi sjálfa sig glóðvolga með látunum í sér og gengur hægt í hinn hluta risavaxins barnaherbergisins til að halla hurðinni. Hún læðist til bekkjarsystur sinnar og hvíslar.

            „Þú verður að passa að segja mömmu ekki að þið séuð svona trúleysingjar.“ Spurnarsvipur færist yfir andlit Ífu. Karlotta gengur aftur að henni og kemur sér fyrir á dýnunni, færir sig enn nær henni svo enginn heyri. „Þá mættiru ekki gista heima hjá okkur lengur.“

            „Skiptir það einhverju máli?“ spyr Ífa hlæjandi. „Ég hélt að það mætti bara hver sem er trú—,“

            „Já, það skiptir máli!“ grípur Karlotta aftur fram í fyrir henni, örlítið of hátt. Hún lítur snöggt á dyrnar og hvíslar. „Já, þá máttu ekki fara til himnaríkis. Þá hefurðu engan stað til að fara til þegar þú deyrð.“

            „Bara af því ég trúi ekki á Guð þýðir ekki að ég fari ekki neitt.“

            „Ókei, hvert ferðu þá?“ spyr Karlotta ögrandi og krossleggur hendurnar.

„Ég veit ekki. Kannski bara…“ Ífa hugsar sig lengi um og flýr augnaráð vinkonu sinnar.

„Það eru alveg til fleiri trúarbrögð, kannski vilja einhver þeirra taka við mér þó að ég trúi ekki á þau núna,“ bætir hún við.

            „Nei, þau vilja það ekki. Pabbi er búinn að segja mér allt um þau, ekki treysta þeim. Þú ert ekki að fara neitt nema ofan í moldina.“ Ífa verður hálfskelkuð við tilhugsunina.

Ætli hún hafi engan stað til að fara? Eða enn verra, að hún hafi bara stað ofan í jörðinni. Sálin föst í líkamanum þegar hún er grafin, hún ein í samblöndu við moldina. Skordýrin rífa hana hægt og rólega í sig. Líkaminn hverfur en ekki hún.

            „Hvernig veistu það samt? Þú veist ekkert að himnaríki sé til,“ fullyrðir Ífa efins.

            „Jú. Mamma og pabbi segja það.“ Karlotta skoðar neglurnar sínar, plokkar og rífur í naglaböndin. „Við vitum líka að Jesús fór til himnaríkis, þá hljótum við að fara þangað líka.“

 

Þögn.

 

Grimmdarlegt glott læðist yfir andlit Karlottu.

            „Ég get sannað það.“ Ífa lítur upp til vinkonu sinnar, í dimmblá augu hennar.

            „Nei… hvernig ætlaru að sanna það?“

            „Þetta er ekki flókið. Við sendum þig til himnaríkis.“

 

Þögn.

 

„En hvernig—? Af hverju mig? Af hverju sendum við ekki þig?“

            Karlotta hnussar. „Þú þarft sönnun, ekki ég. Ég trúi nú þegar. Hvernig förum við nú að þessu samt?“ spyr Karlotta með sér. „Sko,“ byrjar hún. „Mamma talar alltaf um svefninn langa. Þannig ætli þú þurfir ekki bara að sofa rosalega lengi?“ hrópar hún upp yfir sig, eins og hún hafi orðið fyrir hugljómun. „Hvað sefurðu oftast lengi?“ Ífa hugsar sig um.

            „Kannski… átta klukkutíma?“

            „Nei. Nei, það gengur ekki.“ Karlotta brýtur heilann. „Heyrðu! Pabbi notar oft pillur til þess að svæfa gesti, við gefum þér bara þannig!“ hrópar Karlotta, full eldmóðs. Hún stekkur upp og rýkur út úr herberginu, með Ífu skelkaða í eftirdragi.

            „Er það samt ekkert hættulægt?“ kallar hún, enn hálfhvíslandi, þegar hún gengur á eftir Karlottu upp marmaratröppurnar. Hún finnur kulda þeirra undir berum iljunum.

            „Neinei, pabbi notar þetta rosalega oft. Allt fólkið sem hann gefur þetta virðist bara frekar hraust eftir þetta.“ Hún staldrar við og horfir á Ífu. „Stundum hálfhaltrandi svo sem en þau eru örugglega bara stirð eftir svefninn,“ segir hún, brosir breitt svo glittir í frekjuskarðið og gengur aftur af stað.

Þegar þær ganga inn um bogadregna dyragættina inn í borðstofu líður Ífu líkt og hún skreppi saman. Þetta er ekki borðstofan sem Ífa hefur séð áður, lítil og hugguleg, með bláum, bólstruðum sófum og risastórum flatskjá, heldur blasir við henni stór salur. Hún sér glitrandi ljósakrónu hangandi yfir þeim í hárri hvelfingunni, múrsteinsarinn, drungalega, rauða veggi en augu Ífu staðnæmast þó á veggnum andspænis þeim. Hundruð krossa. Stórir, smáir, úr stáli, úr viði. Af hverju hefur hún ekki séð þetta áður? Hefur hún aldrei komið inn í þetta rými? Hún hélt nú að hún hefði skoðað allt húsið hennar Karlottu, en greinilega ekki.

„Æi, ertu viss um þetta? Kannski mega bara fullorðnir taka þessar pillur,“ segir Ífa svo rödd hennar ómar í hvelfingunni. Karlotta stansar svo snögglega að Ífa gengur næstum á hana. Hún snýr sér við og mætir augnaráði bekkjarsystur sinnar, augu hennar alveg tilfinningasnauð.

„Treystiru mér ekki?“ Ífu bregður við spurningunni.

„Jú, auðvitað treysti ég þér!“ svarar hún, líkt og undir meðvirknisálögum.

„Ef það lætur þér líða betur þá hef ég sjálf tekið þessar pillur nokkrum sinnum,“ segir Karlotta og heldur áfram að ganga, slítur spennuþrungið augnsambandið. „Þetta er allt í lagi, maður man ekki neitt. Er eiginlega bara pínu dofinn.“

 

Þögn.

 

Þær laumast inn svefnherbergisgang foreldra Karlottu og inn í skjannahvítt baðherbergi. Ífa fær ofbirtu í augun og við henni tekur óþægileg hreinsiefnalykt. Hún fær illt í höfuðið. Karlotta teygir sig upp í skápinn fyrir ofan vaskinn. Hún þarf að standa á tám til að ná upp. Hjarirnar syngja þegar hún opnar skápinn.

„Hvað helduru að ég þurfi að taka margar?“

„Þú þarft auðvitað að sofa mjög lengi þannig það er öruggara að taka fleiri en færri. Til að vera alveg hundrað prósent örugg um að þú sjáir himnaríki.“ Hún tekur út hvíta plastkörfu, fulla af lyfjaglösum og gramsar svo hristist í pillusafninu.

„Hérna!“ Karlotta lyftir upp hvítu lyfjaglasi með dökkbláu letri.

„Róhíp— róhípnol. Jú, þetta er það!“ Hún tekur þétt um glasið og opnar.

„Ég—, kannski þarf ég enga sönnun!“ Hún hvíslar. „Ég veit ekki alveg með þetta.“

„Jú! Þú verður að sjá þetta. Ég vil að þú sjáir þetta,“ svarar Karlotta og hún hvolfir pillunum úr lyfjaglasinu í lófa Ífu svo þær verða að stóru lyfjafjalli.

„Annars færðu kannski aldrei að sjá himnaríki, fyrst þú ert svona trúleysingi.“ Karlotta hvíslar síðasta orðið, líkt og það sé eitthvað óorð. Hún teygir sig í glerglasið inni í hvítum skápnum, hvolfir tannburstum foreldra sinna úr því og skrúfar frá krananum. Sullhljóðið í glasinu ómar í skerandi þögninni. Karlotta skrúfar fyrir og réttir Ífu glasið.

 

Þögn.

 

„Komasvo!“

Ífa andvarpar með uppgjafartón.

„Allt í lagi,“ svarar Ífa og treður lyfjafjallinu harkalega upp í sig. Nokkrar pillur, sem villast á leið sinni, skella á hvítum flísunum áður en Ífa byrjar loks að gleypa.

Guðrún Ágústa stundar nám í bókmenntafræði og ritlist við Háskóla Íslands. Hún er listakona með víðtæka reynslu og er meðal annars lærð söngkona sem hefur komið fram í fjölmörgum sviðsverkum og tónleikum. Guðrún er meðstofnandi leikfélagsins Fuglabjargs sem sýndi frumsamda verkið Hjartað, hausinn og helvítið árið 2025 en hennar fyrsta verk, sem hún bæði samdi og leikstýrði, var söngleikurinn Pálmar árið 2021. Jafnframt er hún meðal stofnenda hinnar árlegu listahátíðar Rökkvan í Garðabæ sem leggur áherslu á grasrótina og ungt listafólk.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í janúar 2026. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst