Sjálfsskoðun og viskídrykkja á írskri eyju

Kvöld eitt á eyju, þriðja bók rithöfundarins Josie Silver og kom út núna fyrir sumarið hjá Forlaginu í íslenskri þýðingu Herdísar Hübner. Ég var snögg að grípa hana með mér úr bókabúðinni. Fyrri bækur Josie ;Dag einn í desember (2018) og Tvö líf Lydiu Bird (2020); hef ég að sjálfsögðu einnig lesið. Sú fyrrnefnda er með betri kósý-rómansbókum sem ég hef lesið undanfarin ár svo ég var spennt þegar Tvö líf Lydiu Bird kom út en hún stóðst þó ekki alveg mínar væntingar. Væntingunum var því stillt í hóf þegar ég hóf lesturinn á nýju bókinni, en ég var virkilega forvitin að sjá hvernig Kvöld eitt á eyju væri.

Tvíbókunarvandræði

Bókin fjallar um Cleo Wilder og Mack Sullivan. Cleo er höfundur umtalaðra pistla sem birtast á vinsælli breskri lífsstílssíðu. Pistlar hennar hafa hingað til snúist um leit hennar að ástinni eða leit hennar að flamingóanum sínum. Nú stendur Cleo þó á tímamótum í lífinu. Þrítugsafmælið nálgast óðfluga og enn hefur hinn eini sanni ekki birst. Ritstjóri hennar fær þá hugmynd að í tilefni tímamótanna skuli Cleo ferðast til afskekktrar írskrar eyju og eyða tíma með sjálfri sér og að lokum giftast sjálfri sér. Cleo lætur til leiðast og fer til Hjálpræðiseyjar þar sem hún ætlar að njótanokkurra vikna ein með sjálfri sér í einmanalegum skála á afskekktri eyju og íhuga líf sitt og framtíð. En! Gististaðurinn er tvíbókaður! Í ljós kemur að geðstirði ljósmyndarinn, Mack Sullivan, sem stendur auðvitað líka á tímamótum í sínu lífi, hefur bókað skálann á sama tíma og Cleo. Skálinn er eini lausi gististaðurinn á eynni og þá er spurningin, hvort þeirra gefur eftir og fer? Eða eru þau bæði það þrjósk að þau þurfa frekar að finna út hvort þeirra gistir á sófanum? 

Ilmur af hafi og klisjum

Sögusviðið er þokkalega uppsett í bókinni. Ég fann lyktina af sjónum og heyrði glamur í glösunum og blaðrið í fólkinu þegar Cleo kíkti á litlu þorpskránna. Aukapersónurnar eru mismikilvægar og djúpar. Konurnar í þorpinu á eynni eru skemmtilegar, kannski smá steríótýpískar og kráareigandinn Raff er náttúrulega bara krútt. En hvað með Cleo og Mack? Þau eru bæði, að mínu mati, dálitlar klisjur. En les maður svona bækur ef maður er þolir ekki klisjur? Cleo er framakona í leit að tilfangi lífsins. Hefur ekki enn fundið ástina eftir mikla leit og nú er spurningin hvort hún þurfi þessa eilífu ást eða hvort hún sé sjálfri sér nóg. Mack stendur á tímamótum og er pirraði náunginn í byrjun sem hefur engan tíma fyrir kvennabras. Þetta eru kunnuglegar tuggur; aðalsöguhetjurnar þola ekki hvort annað í byrjun. En kannski lagast það og þau lifa hamingjusöm saman til æviloka? Hver veit!? 

En þó sagan detti í formúluna sem við könnumst öll við, þá brýst hún líka gegn þeim af og til. Endirinn er skemmtilegur, hann er ánægjulegur en kemur jafnframt á óvart. Hann leiddi hugann burt frá því sem maður annars bjóst við. Það helsta sem truflaði mig við söguna er þessi sjálfsskoðun Cleo og “væmnin” sem henni fylgir. Ég er með smá ofnæmi fyrir “ég er í leit að sjálfri mér” væmni sem er reyndar magnað miðað við hvað ég les mikið af ástarsögum! Heilt yfir fannst mér sagan góð, klárlega betri en Tvö líf Lydiu Bird. En eru klisjur í bókinni? Já, auðvitað! Hún er þó ekki gegnumsýrð af þeim og hún er hugljúf og lestursins virði. Þetta er ekta bók til að taka með sér í ferðalagið í sumar eða eiga í kósýlestur á pallinum.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...