Fjórða Létt að lesa bókin í ritröðinni Bekkurinn minn er komin út hjá Bókabeitunni. Hún ber nafnið Hjólahetjan og er sem fyrr skrifuð af Yrsu Þöll Gylfadóttur og myndskreytt af Iðunni Örnu. Fyrri bækur ritraðarinnar eru Prumpusamloka, Geggjað ósanngjarnt og Lús! en finna má umfjöllun um þær allar hér á vefnum.

Hjólamisskilningur

Þessi fjórða bók ritraðarinnar Bekkurinn minn fjallar um Jón Ingva sem finna má finna á bekkjarmyndinni í byrjun bókarinnar. Jón Ingvi þarf að fara með pabba sínum í vinnuna þar sem mamma hans er fjarverandi í vinnuferð og hjóla þeir saman þangað. Þegar kemur að því að halda svo heim á leið vill ekki betur til en svo að lásinn á hjóli Jóns Ingva er bilaður og til að losa hjólið þarf að klippa á lásinn. Við það verður til misskilningur á milli Jóns Ingva og pabba hans og svo hjólahetjunnar um það hver á í raun hjólið, sem er svo sannarlega Jóns Ingva. Sagan er skemmtilega skrifuð ásamt því að vera einstaklega vel myndskreytt. Söguþráðurinn er áhugaverður og persónurnar einnig. Hjólahetjan er einstaklega skemmtilegur karakter og er hann augljós tilvísun í þrotlausa vinnu Bjartmars Leóssonar sem flestir þekkja sem hjólahvíslarann. 

Samfélagslegt pot

Það voru þó tvö atriði sem gripu mig sérstaklega við lesturinn sem ég verð að nefna. Þetta eru atriði sem pota smá í samfélagið okkar og okkar fyrirfram mótuðu hugmyndir eða samskipti. Fyrra atriðið var atvinnugrein móður Jóns Ingva en hún er fjarverandi í sögunni því hún er erlendis á tölvuleikjamessu þar sem hún vinnur við að búa til tölvuleiki. Það er að mínu mati frábært og sérstakt að þetta skuli vera atvinnugrein hennar í sögunni einfaldlega vegna þess að ég hef lesið margar barnabækur síðustu 20 árin með dætrum mínum og ég bara man ekki eftir sögu þar sem móðurinni er bæði gefið starf í karllægri atvinnugrein né að hún sé fjarverandi vegna vinnu og það er á föðurnum að sinna barninu. Mér finnst þessi punktur geggjaður. Þetta hljómar kannski sem smámál, en það er það alls ekki og það segir mikið að ég tók sérstaklega eftir þessu? 

Seinna atriðið var misskilningurinn á milli Jóns Ingva og pabba hans og hjólahetjunnar en í ljós kemur að einhver taldi þá feðga vera að stela hjóli Jóns. Vísað er í samskipti á samfélagsmiðlum í samtali pabba Jóns og hjólahetjunnar um þennan misskilning og þar sannast hið forkveðna að ekki er allt sem sýnist. Þar má kannski finna smá ábendingu um að við eigum ekki að vera fljót að dæma aðra og að stundum er betra að ræða við fólk heldur en að henda inn innleggi á samfélagsmiðla án umhugsunar.

Þessi fjórða bók í Bekkurinn minn ritröðinni stenst allar væntingar líkt og fyrri bækur. Bækurnar hafa verið gífurlega vinsælar milli barna á yngsta stigi grunnskólanna og keppst er um að lesa þær og beðið með óþreyju eftir næstu bók. Hjólahetjan býr yfir áhugaverðri sögu og myndskreytingarnar gefa ekkert eftir líkt og áður hefur komið fram. Sjálf framsetningin á bókinni, þ.e. leturstærð og blaðsíðnafjöldi, er eins og best verður á kosið fyrir léttlestrarbók líkt og þær fyrri. Einnig er vert að nefna að Bókabeitan hefur gefið fyrstu og aðra bókina í Bekkurinn minn seríunni út sem Lauflétt að lesa bækur en þær bækur eru sérstaklega fyrir þau börn sem eru að stíga sín allra fyrstu skref í lestri. Í þeirri útgáfu heita bækurnar eftir aðalpersónum bókanna Bjarna Frey og Nadiru.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...