Léttlestrarbækur úr íslenskum veruleika

Það er alltaf gleðilegt þegar nýja léttlestrarbækur koma út, ekki síst þegar þær endurspegla veruleika íslenskra barna. Í nýrri seríu léttlestrabóka frá Bókabeitunni, Bekkurinn minn, er þetta einmitt raunin.

Yrsa Þöll Gylfadóttir sér um textavinnuna í bókunum og Iðunn Arna er myndhöfundurinn. Nú þegar hafa komið út tvær bækur úr bekknum, um Nadiru sem er nýflutt til Íslands frá Írak og um Bjarna Frey sem finnst allt svolítið ósanngjarnt.

Bækurnar enduspegla á raunsæjan hátt íslenskan veruleika. Til dæmis forvitni bekkjarfélaga Nadiru þegar hún kemur í bekkinn. Það er gaman að fá framandi nemanda í bekkinn og fá að fræðast um uppruna hans og kenna honum íslensku. Svo er alltaf gaman að geta kennt einhver kjánaorð, eins og prumpusamloka! Bjarni Freyr er á dagvistinni eftir skóla og gengur frekar illa í samskiptum sínum við aðra nemendur. Það endar svo að lokum þannig að hann og félagi hans ákveða að labba sjálfir heim, með þeim afleiðingum að lögreglan er kölluð út til að aðstoða við leitina af þeim félögum.

Teikningar Iðunnar Örnu eru þægilegar fyrir unga lesendur, birtar í lit inni í bókunum. Iðunn Arna er nokkuð nýr myndhöfundur en hefur þegar myndlýst fjölda bóka, til dæmis bækurnar Hvuttasveinar og Brásól Brella eftir Ásrúnu Magnúsdóttur. Myndirnar hennar eru aðgengilegar og auka vel við skilning á textanum, sem er nauðsynlegt þegar um léttlestrarbók er að ræða. Kápa bókanna minnir mig þó óþægilega mikið á bækurnar um Jónsa og Binnu B. Bjarna, en það eru kannski viljandi hugrenningartengsl sem útgefandi hafur viljað skapa. Sjálf hefði ég viljað sjá aðra og frumlegri kápu á bókunum.

Yrsa Þöll skrifar bækurnar á aðgengilegu og einföldu tungumáli fyrir unga lesendur, en gefur ekkert eftir í sögunni. Bækurnar hafa söguþráð sem er áhugaverður og jafnvel spennandi. Og íslenskir krakkar geta auðveldlega sett sig í spor aðalsöguhetjanna. Ég fagna þessari útgáfu!

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....