Þitt eigið tímaferðalag – Flakkað um mannkynssöguna

Mér hefur verið tíðrætt um Þínar eigin-bækur Ævars Þórs Benediktssonar. Hef nefnt þær í þó nokkrum færslum hér í Lestrarklefanum, enda er hann einn söluhæsti barnabókahöfundur á Íslandi í mörg ár. Nýjasta bókin hans Þitt eigið tímaferðalag hefur nú þegar setið á metsölulista bókabúðanna í margar vikur. Krakkar gjörsamlega kolfalla fyrir þessum bókum og í raun þarf lítið að kynna bækurnar fyrir fólki. Þær eru orðnar flestum vel kunnar, lesandi velur sína eigin leið í gegnum bókina.

Þitt eigið tímaferðalag er fimmta bókin í seríunni. Áður hafa komið út Þín eigin þjóðsagaÞín eigin goðsagaÞín eigin hrollvekja og Þitt eigið ævintýri. Ég og synirnir tökum reglulega rispur í bókunum í kvöldlestrinum. Maður getur alltaf valið nýja leið, þannig að það er alltaf eins og maður sé að byrja á nýrri bók. Gamansamur stíll Ævars spillir ekki fyrir og oftar en ekki höfum við setið í rúminu og velst um af hlátri. Stundum getum við ekki hætt að lesa því atburðarásin er of spennandi. Síðasta sumar tókum við ávallt eina Þín eigin-bók með okkur í útileguna eða sumarbústaðinn, af því það er svo þægilegt að geta lesið sömu bókina aftur og aftur og aftur með mismunandi endi í hvert sinn. Hver bók er eins og heilt bókasafn (ókei, kannski smá ýkjur en það má stundum).

Nýjustu bókinni var tekið með mikilli gleði á heimilinu okkar. Bókin var gripin af eldhúsborðinu (sem virðist af einhverri ástæðu vera upphafsstaður allra bóka á heimilinu) og svo sá ég hana ekki aftur fyrr en kom að háttatíma. Þá sat elsti strákurinn hlæjandi í alsæluástandi, því honum hafði tekist að festast í endalausri tímalykkju og fannst það svo geggjað fyndið. Í gegnum bókna komast krakkarnir svo í snertingu við alls konar atburði úr mannkynssögunni; hringleikahús í Róm, múmíur í Egyptalandi og risaeðlur á forsögulegum tíma. Ævar kom og las upp í skóla strákanna um daginn, þeim fannst það hrikalega gaman. Þar kvisaðist út sá orðrómur að það myndi líklega koma önnur Þín eigin-bók. Við bíðum spennt.

Áður en ég kynntist Þín eigin-seríu Ævars hafði ég ekki hugmynd um að þetta bókaform væri til, en til allrar hamingju hafði ég einhvern mér vitrari (eiginmanninn) sem fræddi mig um að svona bókaform hefði verið vinsælt á níunda áratugnum. Mér fannst það áhugavert, því einhvern veginn hafði þetta alveg farið fram hjá mér. Þín eigin-serían ætti að vera skyldueign inni á öllum heimilum, hvort sem þar eru börn eða ekki. Við erum næstum búin að fullkomna safnið á þessu heimili, vantar bara Þína eigin hrollvekju.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...