Rithornið: Móðuárst

Móðurást

eftir Tinnu Björgu Kristinsdóttur

Hún lokar augunum og lætur fingurgómana snerta vatnið um leið og hún gengur rólega út í. Kalt haustloftið fyllir lungun og hverja einustu frumu líkamans ferskleika. Að ganga í volgu vatninu veitir henni notalega tilfinningu. Tábergið spyrnist lauflétt í botninn og hún lætur líkamann fljóta mjúklega afturábak. Með opinn faðminn dvelur hún friðsæl í vatninu líkt og vatnalilja að morgni sem opnar sig undir áhrifum sólarinnar. Blár himininn með skýjahnoðrum á dreifð veitir hugarró og henni líður líkt og hún sé komin aftur í tímann. Komin í öryggi barnavagnsins undir vökulu auga móður hennar. Áhyggjulaus tilvera og tilfinningaleg næring í formi skilyrðislausrar móðurástar uppfyllir grunnþarfir hennar. Minningarnar streyma. Hún fyllist þakklæti í garð móður sinnar og hin ýmsu púsl fortíðar koma heim og saman. Það verður sífellt auðveldara að setja sig í hennar spor eftir að hún sjálf varð móðir. Augun lokast uns vatnið flýtur yfir þau. Aðeins nef og munnur standa upp úr og slökunin nær hámarki. Laust hárið liðast í vatninu og bylgjulaga hreyfingin togar mjúklega í hársvörðinn svo úr verður notalegt höfuðnudd. Mikið er þetta dásamlegt hugsar hún og kippir sér lítið upp við aðra sundlaugargesti.
Tinna fær útrás fyrir sköpunarkraft sinn í gegnum ritlist. Sögur hennar eru litaðar af fagurleika og friðsæld með það að markmiði að veita lesandanum ánægjulega lestrarupplifun. Áhuginn á ritlist felst þó ekki eingöngu í að setja dreymandi hugarheim niður á blað, því auk þess að skrifa sögur gefur hún réttlætiskenndinni gaum í greinarskrifum um málefni sem eru henni hugleikin og ber þar helst að nefna réttindi barna og mikilvægi þess að standa vörð um þau.  

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...