Fyrir nokkrum árum fór ég á upplestrarkvöld hjá ritlistarnemum í Háskóla Íslands. Allir lásu vel, áhugaverðar smásögur eða ljóð, en eitt skáld las sögu sem greip mig, sat í mér og gerir enn. Þegar ég frétti að skáldið hefði skrifað heilt safn smásagna varð ég því skiljanlega mjög spennt að lesa það. Breytt ástand eftir Berglindi Ósk er nett innbundin bók með fallegri kápu, sem er einföld og sérstök, grípur augað en lætur á sama tíma lítið fyrir sér fara. Sögurnar eru mislangar en allar í styttri kantinum, í gegn skín að Berglind hefur gott vald á smásagnaforminu. Hún hefur áður gefið út tvær ljóðabækur, Berorðað (2016) og Loddaralíðan (2021).
Í Breyttu ástandi vinnur Berglind með nokkur meginþemu en það má segja að þau séu sjúk sambönd, kynslóðartráma og fíknisjúkdómar.
Sjúk sambönd
„Ég saknaði þess að bera þyngd mína saman við hennar.“ Í sögunni Valentínusardagur kristallast sjúkt vinasamband unglingsstúlkna. Berglind lýsir af fimi og nákvæmni eitruðu vinasambandi sem hefst á grunnskólaárum og nær fram á fullorðinsár, þar sem báðar stúlkurnar eru ömurlegar hvor við aðra en þurfa þó hvor á annarri að halda. Ófáir eiga slík sambönd að baki, vinasambönd sem yfirgnæfa allt og eru ástarsamböndum yfirsterkari þrátt fyrir að vera platónsk. Lesandi fær á tilfinninguna að sömu vinkonurnar skjóti upp kollinum í fleiri en einni sögu og marglaga áhrif vinasambands sem er jöfnum fæti byggt á samanburði, öfund og þrá liðast um persónur Berglindar.
Ástarsamböndin fá einnig áhugaverða og marglaga útreið í meðförum höfundar. Í Stál og Augnablikið má finna tvær sögur sem eru svo algerlega ólíkar en takast þó á við sama efnið – hvernig augu manns opnast og maður ákveður hvort maður vill varpa hulu fyrir þau á ný eða horfast í augu við kaldan raunveruleika. Í sögunni Af Tinder til Tene fær lesandi smá pásu frá nakinni eymd og getur hlegið svolítið. Í sögunni Deitkvöld er pásan svo alveg búin og andlegt ofbeldissamband er tekið fyrir á raunsannan hátt sem vekur upp sterka samkennd hjá lesanda.
Kynslóðartráma
Tvær af sögunum fjalla beint eða óbeint um eldri konur og samskipti þeirra við börn sín og barnabörn. Ég held að margir lesendur geti tengt við ágreining og skoðanaskipti milli kynslóða kvenna, samband móður manns við sína mömmu, sem er oft jafn flókið og ruglað og manns eigið samband við mömmu. Nú á ég ekki móðurömmu svo ég hef ekki séð þetta sjálf á sama hátt, nema kannski hjá föðurömmu minni og mömmu hennar, en eitthvað frumminni vekur upp samkennd með persónum sagnanna. Einnig er einmanaleiki mæðra sem eiga uppkomin börn tekinn fyrir, en það er áhugavert efni sem er ekki endilega alltaf gerð góð skil. Sagan Barnvænn garður nístir svo hjartað niður í tær.
Rætur sjúkdóms
Fíknisjúkdómar eiga sinn stað í verkinu, en sagan Breytt ástand sem ljáir bókinni nafn sitt er um leið ljóðræn, falleg, heillandi og ristir inn að beini. Á einfaldan og beinskeyttan hátt segir frá ferðalagi inn í fíknina, frá tómleika og svartholi sem þarf að fylla, þar til sjúkdómurinn hefur troðið sér í öll auð rými og tekið yfir allt. Í sögunni Það sem fer upp kemur aftur niður er hrár og óspennandi djammheimurinn skoðaður í dagsbirtu, brotnar sjálfsmyndir og þær sem eru við það að molna takast á og hræsni þess sem er betri en aðrir þrátt fyrir að vera alveg eins hittir í mark. Sem betur fer finna sumar persónurnar bata, aðrar eru skildar eftir í lausu lofti, kannski skjóta þær upp kollinum síðar í sögum annarra, kannski fær lesandi að orna sér við ímyndun um að allt verði í lagi hjá þeim eftir að sögu þeirra líkur.
Bókin er vel skrifuð og á fallegu en beinskeyttu máli, þrátt fyrir að neyslulingó fyrsta áratugar þessarar aldar sé ríkt í bókinni og eldist merkilega illa. Flest þetta slangur er, að ég held, ekki lengur í notkun eða situr fast í eiturlyfjaheimi sem ég þekki aðeins af afspurn. Þrátt fyrir að orðanotkunin kippi mér af og til út úr sögunni held ég að það sé rétt valið stílbragð að láta persónurnar tala svona, bæði til að tíma- og staðsetja þær og til að ná fram realísku áhrifunum sem veita bókinni dýpt.
Allur stjörnuhimininn
Höfundur hefur frábært vald á smásagnaforminu og lesandi vill undantekningarlaust vita meira um persónur eftir að sögu líkur. Sögumenn eru margradda og mismunandi, þemun eru sterk en efnistök verða aldrei einsleit. Nú erum við hætt að gefa stjörnur en þessi myndi fá allan næturhimininn og ég er spennt að lesa meira eftir höfund besta smásagnasafns Íslands síðan Kristín Eiríks gaf út Doris deyr. Hlutlaust mat.