Ógnvekjandi óbyggðasaga

 Donner leiðangurinn. Flugslysið í Andesfjöllum 1972. Dyatlov ráðgátan. Þáttaröðin Yellowjackets. Jafnvel rómantíska flugslysamyndin The Mountain Between Us eða raunveruleikaþátturinn Survivor. Ef eitthvað af þessu hefur vakið áhuga ykkar þá mæli ég með hinni nýútkomnu Small Game eftir ævintýrakonuna Blair Braverman. Small Game er fyrsta skáldsaga höfundar, en hún hefur áður skrifað greinar og bók um ævintýri sín í óbyggðunum, en hún hefur búið í óbyggðum Alaska og unnið sem hundasleðaleiðsögumaður, keppt í 1600 km hundasleðahlaupi og lært um survivalisma í Noregi og komið fram í hinum æsispennandi sjónvarpsþætti Naked and Afraid.

Brostu!

Raunveruleikaþátturinn Civilization er gæluverkefni sjónvarpsframleiðandans Larry. Fimm einstaklingar eru valdir til að byggja upp glænýtt samfélag frá grunni fyrir framan myndavélarnar. Þátttakendur eru allir klæddir í einfaldan bol, stuttbuxur og ræfilslega sandala. Þeim er flogið inn í afskekktan skóg og fá ekki einu sinni að vita í hvaða fylki Bandaríkjanna þeir eru, hvað þá meira. Þeir þurfa að bjarga sér í sex vikur – finna sér mat, drykkjarhæft vatn, skjól og auðvitað að líta vel út fyrir myndavélarnar.

Mara er ung kona sem starfar sem hálfgerður survival leiðsögumaður í óbyggðum Seattle. Hún tekur þátt í sjónvarpsþættinum sökum loforðs um hátt verðlaunafé sem mun kaupa henni aðgang að nýju lífi, en hún hefur ekki klárað grunnskóla, hefur ekkert bakland og langar að breyta lífi sínu til hins betra. Hún er sú persóna sem lesandi fylgir eftir í bókinni og kynnist óbyggðunum og hinum keppendunum í gegn um hennar sýn.

Sjónvarp og alvara

Til að byrja með gengur allt eins vel og það getur gengið hjá fimm hálfnöktum einstaklingum úti í óbyggðum með myndavélar allt í kring. En einn daginn verður breyting á. Einn daginn hættir viðleitni þeirra til að lifa af í óbyggðunum að vera sjónvarpsþáttur og verður blákaldir raunveruleikinn. Eða hvað?

Mara og félagar þurfa að taka erfiðar ákvarðanir og berjast við stórar utanaðkomandi spurningar og óvissu ásamt því sem þau takast áfram á við hungur, kulda, þorsta og allt þetta sem nútímamaðurinn hefur að miklu leiti ráðið niðurlögum á.

Auk þess að vera spennandi og fróðleg er bókin listilega vel skrifuð og Mara er sterk kvenpersóna sem er auðvelt að halda með. Small Game er fullkomin til að grípa í til að slaka á og læra upp á nýtt að meta lystisemdir þess að geta farið í sturtu hvenær sem er.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...