Ég finn þig í grjótinu

„Sá sem er ríkur þarf að leita uppi sína eigin óhamingju á meðan henni er stanslaust haldið að þeim sem ekkert eiga.“

Skáldsagan Brimhólar eftir Guðna Elísson er aðeins 135 blaðsíður. Það væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir fyrri bók Guðna, Ljósgildruna, sem kom út í fyrra og hræddi hinn almenna lesenda með þykkt sinni og lengd. Guðni sýnir þó með Brimhólum að hann getur skrifað fallegar og töfrandi bækur hvort sem er í stuttu máli eða löngu. Tilvísanir í klassískar bókmenntir kallast vel á við nútímarómansinn sem dæmdur er til að enda illa, rétt eins og forverar hans. Stétta- og menningarmunur rífur unga elskendur hvorn frá öðrum í nútímanum rétt eins og hann hefur gert alla tíð.  

Bókin er þó tímalaus, þó að ég sem lesandi hafi ímyndað mér hana í nútíð þá gæti hún allt eins hafa átt sér stað fyrir tuttugu árum eða meira, í ókominni framtíð eða fyrndinni.

Einfeldningsleg fegurð sem hinir ríku sjá einir

Í verkinu er áleitnum spurningum um forréttindi og stöðu einnig svarað. Til dæmis hver á eitthvað í raun og hver á ekki eitthvað? Verkalýður og auðvald takast á undir yfirborðinu og augu lesenda eru opnuð hægt og bítandi á sama tíma og aðalpersónan okkar berst við að halda þeim lokuð.

Textinn er skrifaður á ljóðrænu og fallegu máli, þó án óþarfa skrúðs. Hvert orð virðist valið af kostgæfni, en textinn flæðir sem falleg heild. Tónninn er ávallt sá sami, en þyngd og alvarleiki aukast eftir því sem líður á verkið, og lesandi er dreginn frá bernskubrekum og hvolpaást yfir í hörku hins raunverulega lífs.

Það er einnig ánægjulegt að sjá tilvísanir í pólsk skáld og greiningu á pólskum ljóðum, en Íslendingar hafa allt of lengi litið niður á þjóðina sem deilir með okkur landi. Við þurfum að læra að líta á pólska menningu og tungumál sem gjöf sem myndi auka á dýpt okkar og skilning ef við aðeins tækjum við henni. Í Brimhólum vefur höfundur fallega saman þeim klassísku vestur evrópsku textum sem okkur hefur verið kennt að líta upp til, fornbókmenntum og pólskri ljóðlist í fléttu þar sem hver þráður styrkir hina og skapar ljóðrænan heim í kringum unga elskendur úti á landi.

Flótti frá þægindum

Sjórinn spilar stórt hlutverk í bókinni, enda kynnumst við kvótakóngi annars vegar og pólsku verkafólki hins vegar í litlu plássi við hafið. Fjaran kallar á persónur bókarinnar, hverja með sínum hætti, en mér finnst þó samband vinkvennanna Karólínu og Cecyliu fanga hjarta bókarinnar einna best, og hvernig þær taka að stunda saman sjósund. Fyrir hina ríku Karólínu er það áhugamál um stund, flótti frá ofurþægilegri tilveru hennar. Hún getur upplifað kulda og hark um stund í hafinu en hún varpar óþægindunum af sér og skilur þau eftir í fjörunni hvenær sem hún vill, klæðir sig sérbúinni sjósundsúlpu sem einangrar hana frá veðri, vindum og veruleika.

Hörkuleg náttúra er einstaklega falleg þegar þú veist að þér þarf aldrei að verða kalt. Cecilya stundar sjósund á annan hátt. Hún fer ótroðnar slóðir, tekur áhættu og skilur að kuldinn sem nístir inn að beini mun aldrei hverfa frá henni, heldur umlykja kjarna hennar. Rétt eins og þorpið sem hún á heima í gegn vilja sínum, og landið sem hún hefur verið þvinguð til að gera að sínu þrátt fyrir að þeir sem þar búa muni aldrei líta á hana sem heimamann.

Þetta er bók sem ég mæli hiklaust með, bæði fyrir þá sem lesa mikið og lítið, en heillandi textinn ætti að grípa alla lesendur sem mæta bókinni með opnum huga. Ég tel þetta einnig vera bók sem verður bara betri ef maður les hana oftar en einu sinni og því er hún hin eigulegasta jólagjöf.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...