Drengurinn með ljáinn Ævar Þór Benediktsson

Fyrir jólin má treysta á að Ævar Þór Benediktsson sendi frá sér nýja bók, rétt eins og hægt er að treysta á að Arnaldur sé með nýja bók. Reyndar bíð ég með óþreyju eftir bók Ævars hver jól, rétt eins og margir bíða eftir nýja Arnaldi. 

Jólabók Ævars í ár er Drengurinn með ljáinn. Sagan segir af Halli, strák í tíunda bekk, sem í byrjun bókar sleppur naumlega frá því að verða fyrir vörubíl. Hann lifir af, deyr ekki. Það sem hann veit ekki er að þegar fólk sleppur naumlega frá dauðanum eykst næmni fyrir handanheiminum. Dökkklæddur maður heimsækir Hall og gefur honum verkefni. Aukin næmni Halls gerir hann að frábærum aðstoðarmanni dauðans. Hallur á að hjálpa fólki að komast „Hinum megin“. Leiðbeiningarnar eru ekkert ítarlegri en það. Dökkklæddi maðurinn fer og skilur Hall eftir með ljá sem sprettur fram úr hendi hans þegar látið fólk er nærri. Og hefst þá sagan! 

Tilfinningarík saga

Þessi bók er mjög frábrugðin nokkru sem Ævar hefur hingað til sent frá sér. Hér er bók með alvarlegum undirtón, um sorglega atburði og húmorinn sem hefur einkennt bækur hans hingað til er mjög dulinn. Síðustu ár hefur Ævar skrifað margar hrollvekjusögur og er skemmst að nefna bókina Skólaslit sem dæmi í þeim flokki, eða smásagnasöfnin hans tvö. Hrollvekjan er til staðar í Drengurinn með ljáinn en ekki á þann hátt sem við eigum að þekkja frá Ævari. Hér er ekki gantast með hryllinginn, heldur er hann virkileg hrollvekjandi. Það er svolítil „The Ring“ hula sem sveipar hryllinginn, fyrir þá sem þekkja þá góðu bíómynd. En undir niðri er tilfinningarík saga af dreng, því lesandi fær að vita það nokkuð snemma að það er eitthvað sem vantar í líf Halls. Það er undiraldan sem dregur bókina áfram og hægt og rólega opinberast fyrir lesandanum hvað bjátar á. 

Halló myndheimur!

Sigurjón Líndal Benediktsson skapar myndheim bókarinnar. Myndirnar eru allar kolarissur, óreiðukenndar og draugalegar. Sérstaklega þótti mér óvætturinn í bókinni vel heppnaður, virkilega ógn-og hrollvekjandi. En myndheimurinn er ekki eingöngu auðtúlkanlegar myndir, heldur líka krass og krot alls konar. Hallur sjálfur situr oft og krotar eða teiknar í bók og því líður lesandanum eins og hann sé að skoða myndir Halls. Myndirnar eru eins og hugsanir hans, óreiðukenndar og hryllilegar. Myndheimurinn dregur á einstakan hátt fram andrúmsloft bókarinnar og eykur á upplifunin og er vægast sagt vel heppnaður og Sigurjón á framtíðina fyrir sér í myndlistinni. 

Persóna sem auðvelt er að hafa samúð með

Bókin er unglingabók, fyrir 12 ára og eldri. Mikill skortur hefur verið á nýjum bókum fyrir unglinga og það er gleðilegt að sjá höfund eins og Ævar Þór taka við keflinu og skrifa unglingabók. Þegar miðstigi sleppir hjá börnum hallast þau að minni lestri og því er mjög dýrmætt að eins vinsæll höfundur og Ævar taki að sér að skrifa unglingabók. 

Bókin er virkilega grípandi. Kaflar eru stuttir og fljótlesnir. Stíll Ævars einkennist af stuttum setningum og stundum endurtekningum og áherslum. Bókin er því einstaklega auð- og fljótlesin, þótt hún virðist í fyrstu vera þykk. Myndirnar skapa svo mikið andrými í textanum. Hallur er persóna sem auðvelt er að hafa samúð með. Hann virðist í litlu sambandi við föður sinn, hefur tapað vinum, hann er einmana og þunglyndur. En hin nýfundna næmni og ábyrgðin sem fylgir henni knýr fram breytingar í einkalífi hans, sem eru bæði jákvæðar og neikvæðar. Ævar skrifar um Hall af mikilli næmni, þótt enn hefði mátt kafa dýpra í tilfinningalíf hans. 

Drengurinn með ljáinn er gullfalleg en hrollvekjandi saga af dreng sem þarf að axla mikla ábyrgð. Tilfinningarík unglingabók með mögnuðum myndheimi og grípandi söguþræði. 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...