Tuttugu nýjar hrollvekjusmásögur

Annað árið í röð sendi Ævar Þór Benediktsson íslenskum börnum hryllingssögur að vori. Í ár eru það Fleiri hryllilega stuttar hrollvekjur með myndlýsingum eftir Ágúst Kristinsson, sem myndlýsti líka Hryllilega stuttar hrollvekjur sem kom út í fyrra.

Það hefur mikla kosti að gefa út bók með hryllingssögum að vori til. Helsti kosturinn er auðvitað að það er mun bjartara fram eftir kvöldi á vorin og lesandinn getur jafnað sig á hryllingnum yfir sumarið. Hugrakkir geta beðið haustmykursins með lesturinn.

Hvað finnst þér verst?

Eins og í fyrri bók fékk Ævar krakka í 6. bekk í Fossvogsskóla í lið með sér við að flokka sögurnar í Vont, Verra og Verst. Af flokkun krakkana er greinilegt að þeim þykir líkamlegur óhugnaður verstur, þar sem ormar skríða undir húðinni og amman er norn.. eða kannski eitthvað allt annað. Að ég tali ekki um nábrækurnar. Sjálf hefði ég raðað sögunum upp í allt aðra röð. „Hæhó-maðurinn“ hefði til dæmis fallið flokkinn verst hjá mér, sem og „Pinni“. Þá sögu las ég reyndar með syni mínum og saman fengum við gæsahúð og stundum og æjuðum saman.

Það kemur sér vel að bætt hefur verið við nokkrum línum aftast í bókinni þar sem lesandinn getur sjálfur raðað sögunum í sinn eigin hryllingslista. Svona „gerðu það sjálfur“ form er að sjálfsögðu mjög algengt í bókum Ævars, samanber Þín eigin bókunum. Með þessu fær Ævar lesendur til að velta sögunum fyrir sér, leggja hugsun í textann og gera upp við sig hvað þeim finnst sjálfum. Fyrir vikið gæti verið að krakkarnir velti bókinni lengur á milli handanna og lesi sumar sögur oftar en einu sinni. Allt sem fær krakka til að lesa og pæla fær góða einkunn hjá mér.

Samspil rit- og myndhöfunds

En þegar talað er um hrollvekjurnar þá er engin leið að fjalla ekki líka um hrikalegar (í þessu tilviki er orðið hrikalegt notað í mjög jákvæðri merkingu) myndlýsingar Ágústs Kristinssonar. Þegar lesanda rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þá er það jafnan vegna þess að myndirnar hafa ýtt lesandanum yfir mörk eigin ímyndunarafls. Myndirnar eru myrkar og svarthvítar og draga saman efni hverrar sögu. Ágústi tekst að gera sakleysislega vatnsrennibraut óhugnanlega (ég spá dræmri notkun á vatnsrennibrautum í sumar). Í lok bókarinna skrifar Ævar að hann hafi skrifað nokkrar sögur út frá teikningum Ágústar, sem er skemmtilegur viðsnúningur og gerir samspil rit- og myndhöfunds enn áhugaverðara.

Látum hræða okkur

Smásagnaformið er Ævari tamt í meðförum, hann ögrar og kemur á óvart og á athygli lesandans óskipta. Stíll Ævars er ríkjandi í bókinni, sögurnar eru orðaðar á einföldu máli og auðskildu. Hann víkur sér ekki undan óhugaði og hryllingi. Sögurnar eru óhugnanlegar og hjá lesendum með virkt ímyndunarafl munu þær vekja viðbrögð og aðdáun/hrylling. Það er gaman að láta hræða sig og skelfa og enn betra þegar maður veit að ímyndunin er í þessu tilviki hræðilegri en raunveruleikinn.

Fleiri hryllilega stuttar hrollvekjur eiga ekki eftir að valda hrollvekjuþyrstum lestrarhestum vonbrigðum.

 

P.S. Mér finnst tilefni til að innihald ísskáps Ævars sé rannsakað nánar eftir lesturinn á sögunni „Hugmyndir“, þar sem mér þykir Ævar lýsa sköpunarferlinu á bókinni Þín eigin undirdjúp – og lesturinn á smásögunni var mjög truflandi og óþægilegur.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...