Barnabókaseríur sem verða fullþýddar

Það hefur komið fyrir að barnabókaseríur sem byrjað er að þýða yfir á íslensku séu ekki kláraðar. Nokkuð margar bækur hafa verið gefnar út í íslenskri þýðingu sem eru hluti af seríu síðasta árið til dæmis Kepler 62, Villinorn, PAX, Handbók fyrir ofurhetjur, Seiðmenn hins forna og Ótrúleg ævintýri Brjálínu Hansen. Íslenskir lesendur eru háðir því að haldið sé áfram að þýða bækurnar til að geta klárað seríurnar. Lestrarklefinn hafði samband við útgefendur til að komast að því hve margir af þessum bókaflokkum verði fullþýddir í íslenskri þýðingu.

Bókabeitan gefur út Kepler62 og hafa nú þegar komið út þrjár bækur í þeim bókaflokki en alls hafa komið út sex bækur í Finnlandi og Noregi. Bókabeitan hefur skrifað undir samning um þýðingu og útgáfu á þremur síðustu bókunum og fjórða bókin kemur út í vor. „Við stefnum á að gefa bók fjögur út með vorinu, fimmtu bókina í haust og þá síðustu öðru hvoru megin við áramótin næstu,“ segir Birgitta Elín Hassell hjá Bókabeitunni. Íslensk heiti á bókum fjögur til sex eru LandnemarnirVírus og Leyndarmálið.  „Af öðrum seríum sem við gefum út mætti kannski nefna Hrollsbækurnar eftir R.L. Stine. Þær eru allar sjálfstæðar enda við að gefa þær út í þeirri röð sem okkur hugnast best. Við veljum sem sagt skemmtilegustu bækurnar og þýðum þær.“

 

Bókaforlagið Angústúra hóf útgáfu á þremur barnabókaseríum á síðasta ári, VillinornÓtrúleg ævintýri Brjálínu Hansen og Seiðmenn hins forna. Alls eru sex bækur í seríunni um Villinorn eftir Lene Kaaberbøl og seríunni er lokið í Danmörku. Í samtali við Maríu Rán Guðjónsdóttur frá Angústúru kemur fram að allar bækurnar verði þýddar. „Fyrsta bókin kom út síðasta sumar og svo kemur næsta bók út núna í vor. Við erum að búa hana til prentunnar og ljúka við kápuhönnun,“ segir María Rán. Bækurnar um Villinorn fá sérhannaða kápu fyrir íslenskan markað. Bækurnar hafa verið gríðarlega vinsælar í Danmörku og síðasta haust var gefin út bíómynd byggð á bókunum.

 

Önnur barnabókaserían sem Angústúra byrjaði á í fyrra er Seiðmenn hins forna eftir Cressidu Cowell, höfund bókanna um Hiksta sem temur drekann sinn. Gefnar hafa verið út þrjár bækur á frummálinu og María Rán segir að öruggt sé að þær verði allar gefnar út. „Önnur bókin kemur út núna í vor og þriðja í haust og bíómynd er væntanleg.“

Þriðja bókaserían frá Angústúru er Ótrúleg ævintýri Brjálínu Hansen og fyrsta bókin kom út í íslenskri þýðingu fyrir jólin en alls eru þær þrjár. „Næsta bók um Brjálínu kemur út næsta haust, en við ætlum að gefa þær allar þrjár út,“ segir María Rán.

 

Drápa byrjaði að gefa út tvær barnabókaseríur á síðasta ári. Alls hafa komið út tíu bækur í PAX-seríunni í Svíðþjóð, en fyrsta bókin PAX – Níðstöngin kom út í íslenskri þýðingu fyrir jólin. Ásmundur Helgason hjá Drápu segir að þegar hafi verið keyptur útgáfuréttur að fimm bókum úr seríunni og það sé háð viðtökum hvort keyptur verði rétturinn að þeim fimm síðustu. „Bók númer tvö í PAX-bókaflokknum kemur út núna í vor og þriðja kemur  út fyrir næstu jól. En það er öruggt að það verða gefnar út fimm bækur,“ segir Ásmundur.

Annar bókaflokkur sem Drápa hefur gefið út í íslenskri þýðingu er Handbók fyrir ofurhetjurNú þegar hafa komið út þrjár bækur í seríunni en gefnar hafa verið út fjórar í Svíþjóð. Ásmundur segir að viðtökurnar við bókunum hafi verið mjög góðar. „Sú fjórða kemur út á íslensku í vor eins og búið er að lofa og svo geri ég ráð fyrir að fimmta bókin komi út í haust í Svíþjóð og á svipuðum tíma í íslenskri þýðingu.“

Það ætti því að vera óhætt fyrir bæði börn og fullorðna að hella sér í í þessar seríur þar sem staðfest er að nær allar verða þýddar til enda.

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...