Ofurkraftur úr bókum

4 stjörnur s

handbok-fyrir-ofuhetjur-600x854Í gærkvöldi kláruðum við bókina Handbók fyrir ofurhetjur – Fyrsti hluti: Handbókin. Bókin var spennandi og vakti mann til umhugsunar og hvatti til samræðna um einelti og stríðni. Bókin er um Lísu sem er ný í skóla, í bæ sem hún þekkir lítið. Hún er lögð í mikið einelti á nýjum stað og sækir í bókasafn bæjarins til að forðast hrekkjusvínin. Dag einn rekst hún á rauðglóandi bók á bókasafninu, sem finnst ekki í skrám bókasafnsins. Bókin heitir Handbók fyrir ofurhetjur. Skyndilega er Lísa komin með vopn í hendurnar gegn óvinum sínum.

Skoðað fyrir svefnhanbofur

Bókin er ríkulega myndskreytt, vel þýdd og spennandi. Hún byrjaði nokkuð rólega og það tók okkur þrjú kvöld að klára hana alla. Síðustu kaflarnir voru hraðir og spennandi og okkur langaði að lesa meira um Lísu þegar bókin var búin. Sem betur fer kemur önnur bók um Lísu þar sem maður getur lesið meira um hana og ofurkraftana hennar. Þegar síðustu kaflarnir voru lesnir bað stráksi endurtekið um að lesinn væri næsti kafli, þetta væri svo spennandi. Eftir lestur bókarinnar var erfitt að fá drenginn til að sofa, hann vildi skoða bókina aftur spjaldanna á milli. Það hlýtur að teljast jákvæður dómur frá sex ára strák.

Sterkar stelpur

Það sem mér fannst áhugavert við þessa barnabók er að aðalsöguhetjan er stelpa. Mín tilfinning er reyndar að stelpusöguhetjur séu að verða algengari, eftir að vakin var athygli á skorti á jákvæðum stelpufyrirmyndum. Mér finnst Lísa vera jákvæð fyrirmynd fyrir stelpur og stráka. Hún er með sterkar tilfinningar og þarf að takast á við mikla vanlíðan sem fylgir eineltinu sem hún lendir í. Aðstæður hennar gáfu tilefni til að ræða um einelti og stríðni. Í lok bókarinnar er talað um stríðni og einelti og börnin hvött til að tala um vandamálið og leita sér hjálpar ef þau standa frammi fyrir sömu vandamálum og Lísa, meðal annar með því að hringja í hjálparsíma Rauða krossins 1717.

Handbók fyrir ofurhetjur er skemmtileg, hröð og spennandi um sterka stelpu sem þarf að taka málin í sínar hendur. Ég sé samt ekki fyrir mér að hún verði lesin mörgum sinnum eins og margar aðrar bækur, en okkur hlakkar til að lesa næstu bækur í seríunni. Handbók fyrir ofurhetjur fær eina eimreið og þrjá vagna.

 

Hits: 151


'Ofurkraftur úr bókum' have 4 comments

 1. 11/09/2018 @ 22:29 Lesefni fyrir yngstu lesendurna – listi – Lestrarklefinn

  […] þetta séu einu bækurnar sem börn á aldrinum 6-9 ára geta lesið. Til dæmis er nýútkomin Handbók fyrir ofurhetjur og það er vel þess virði að kíkja á þær bækur. Það er til fjöldinn allur af bókum á […]

  Reply

 2. 25/10/2018 @ 11:52 Æ-var ofurhetja – Lestrarklefinn

  […] En ég verð alltaf jafn hissa en ánægð þegar ég sé að ný bók er komin út, byggð á nýrri hugmynd en alveg jafn skemmtileg. Ofurhetjuvíddin er þar engin undantekning. Ævar hinn ungi þarf að kljást við ný vandamál í bókinni. Hann flytur í nýtt hverfi og endar í skóla þar sem hann er lagður í svæsið einelti. Það gerði okkur mæðgin svolítið leið að lesa um raunir Ævars, sem var ný reynsla við lestur bókar eftir Ævar Þór. Oftast hlæjum við bara með bókunum, en þarna náðum við að ræða um alvarleg málefni tengd einelti. […]

  Reply

 3. 07/01/2019 @ 18:42 Barnabókaseríur sem verða fullþýddar

  […] bókaflokkur sem Drápa hefur gefið út í íslenskri þýðingu er Handbók fyrir ofurhetjur. Nú þegar hafa komið út þrjár bækur í seríunni en gefnar hafa verið út fjórar í […]

  Reply

 4. 01/06/2019 @ 08:00 Rauða gríman snýr aftur!

  […] bókin um Rauðu grímuna var komin búðir, Handbók fyrir ofurhetjur – Vargarnir koma. Bækurnar um Lísu, ósköp venjulega stelpu sem kemst yfir handbók fyrir ofurhetjur, eru grípandi lesning fyrir […]

  Reply


Would you like to share your thoughts?

Your email address will not be published.

Lestrarklefinn[hjá]lestrarklefinn.is