Árið er 2083 og Jóhanna býr sig undir barnlausa viku. Hún gluggar í ættarsöguna sem Stefán faðir hennar hefur skrifað, og lesandinn fylgir henni inn í fortíðina. Stefán byrjar ættarsöguna á Ítalíu, rekur sig til Norður Ameríku, Íslands og Víetnam. Ættartré Jóhönnu vex og lengist, sem og skilningur hennar á bæði fortíðinni og föðurnum sem hún á í stopulu sambandi við.

Pedro Gunnlaugur Garcia er vel að Íslensku bókmenntaverðlaununum kominn sem hann hreppti á dögunum fyrir bókina Lungu. Þegar verðlaunin voru afhent hafði ég ekki enn lesið bókina, en hafði nýlokið við Tól Kristínar Eiríksdóttur, sem einnig var tilnefnd í flokki fagurbókmennta. Ég hugsaði með mér, ekki getur Lungu verið betri en Tól? Er það hægt?  Svo keypti ég bókina og las og viti menn, Pedro hefur tekist það sem ég taldi ómögulegt, að skrifa bók sem mér fannst jafn góð, ef ekki betri, en besta bók ársins.

Fersk og spennandi rödd

Lungu er ættarsaga, kynslóðasaga og er ekki eingöngu meinfyndin á köflum og grípandi, heldur einnig falleg, sorgleg og nístandi. Sagan rennur hratt og vel, stíllinn er beinskeyttur og hvorki uppskrúfaður né mínímalískur, og höfundur fléttar ólíka þræði og persónur saman af mikilli list. Bókin er skrifuð í þriðju persónu en skiptir um sjónarhorn eftir köflum og ljær kynslóð fram af kynslóð ferska og spennandi rödd. Töfraraunsæi liðast um frásögnina, en þó með skírskotun til raunveruleikans og lesanda er boðið að túlka töfrana sem frásagnargleði eða sannleika eftir því hvað hentar hverjum og einum.

Maðurinn er alltaf einmana

Stingandi og sterkur þráður í frásögn höfundar er þó einmanaleikinn, tilfinningin að vera útundan, aðskilinn samfélaginu og samferðafólki á einhvern hátt. Mér finnst þessi tilfinning einna dýpst og fallegust í sögunni um Alex, en við fylgjumst með honum vaxa úr grasi á jaðri íslensks samfélags, þar sem hann fær aldrei að teljast sem fullgildur meðlimur þjóðarinnar, eins og margir Íslendingar af blönduðum uppruna. Hann er einnig á jaðri fjölskyldu sinnar, þar sem foreldrar hans virðast hvorugir þess megnugir að gera það sem best er fyrir barnið, og skólakerfisins sem á svo erfitt með krakka sem falla ekki í þröngt mótið sem þeim er ætlað. Að lesa um unglingsár Alex í ferðalagi til Frakklands kristallar þennan einmanaleika sem bókin fangar svo vel, þá sérstaklega einmanaleika þess sem er aðskilinn heildinni og horfir utan frá inn á við.

Sambönd barna og foreldra í hrörnandi heimi eru krufin til mergjar, marglaga raddir mætast og lesandi hefur samkennd með öllum flestöllum persónum bókarinnar. Það er ekki vont fólk og gott, heldur fullt af manneskjum sem eru að reyna að gera sitt besta eða einfaldlega að reyna að lifa af.

Það er erfitt að skrifa ekki of mikið um bókina, en ég las hana hratt, hún greip mig strax í upphafi og hélt mér allan tímann. Í henni tekst höfundi að fanga fallegu röddina og frásagnargleðina sem skein í gegn í fyrri bók hans, Málleysingjunum. Hann gerir mannleg sambönd og tilfinningar að sterku miðlægu afli sem fangar lesanda og dregur hann inn í heim þar sem kynlíf breytist í tímaflakk, konur svífa, ólífur bjarga mannslífum og sjávarlínan fikrar sig alltaf nær og nær, tilbúin að steypa okkur öllum af jörðinni og inn á spjöld ættarsögunnar. 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...