Smámunir sem þessir – árið er 1985

5. maí 2023

Í litlum bæ á Írlandi býr kolakaupmaðurinn Bill Furlong ásamt konu og fimm börnum. Bærinn  heitir  New Ross og stúlkurnar hans Bills ganga í St Margaret´s skólann, sem er eini skólinn fyrir góðar stúlkur. Við bæinn er klaustur, rekið af nunnum Góða hirðisins.  Nunnurnar reka þar þvottahús en einnig eru stúlkur sendar þangað í betrunarvist, stúlkur sem taldar eru haldnar siðferðisbrestum. Sagt er að nunnurnar sjái stúlkunum fyrir grunnmenntun enda eigi tilgangur dvalarinnar að vera sá að endurhæfa þær, fá þær til að gera yfirbót á slæmri hegðun.  Ekki er þó allt sem sýnist í þeim efnum og mögulega er endurhæfingin fólgin í að láta þær þræla myrkranna á milli í þvottahúsi nunnanna.

Óhreinn/hreinn þvottur?

Skáldsagan, Smámunir sem þessir, er sögð í þriðju persónu og gerist rétt fyrir jólin 1985. Efnahagsástand landsins er erfitt og í New Ross hafa verksmiðjur hætt störfum. Það er því mikið atvinnuleysi og Bill reynir hvað hann getur til að halda í sín viðskipti, þó það kosti að hann þurfi að loka augunum fyrir því sem hann sér í klaustrinu. Því það getur orðið honum dýrkeypt að styggja besta viðskiptavininn, nunnurnar, sem sagðar eru hafa mikil undirliggjandi ítök í samfélaginu enda flest öll fyrirtæki bæjarins, sem og betri fjölskyldur, sem senda þvottinn sinn í klaustrið og fá hann skínandi til baka. En fortíð Bills, sem og óljós uppruni hans sjálfs, gera það að verkum að hann á erfitt með þetta blinda auga sitt og svo á hann sjálfur fimm stúlkur, þannig að þrátt fyrir aðvaranir bæjarbúa, sem og hans nánustu, verður honum æ ljósara að við svo getur ekki búið.

Bókin er skrifuð af rithöfundinum Clarie Keegan og það er Bókaútgáfan Bjartur sem gefur út íslenska þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur. Hér mætti eflaust tala um nóvellu en bókin er aðeins 104 blaðsíður en segir miklu lengri sögu en fjöldi blaðsíðna segir til um.  Aðalpersónan Bill og samviskan hans gæti svo vel táknað togstreitu heillar þjóðar sem mögulega gerði sér grein fyrir hvað gekk á, en valdi af ýmsum ástæðum að líta framhjá. Því nunnurnar í klaustrinu „áttu“ mörg litlu samfélögin á Írlandi og afkoma marga því undir þeim komið.

„„Ekki taka þessu illa, Bill.“ Sagði hún og klappaði á ermi hans. „Þetta er ekki mitt mál eins og ég sagði, en þú hlýtur að gera þér grein fyrir því að þessar nunnur eru með puttana í öllu.““ bls 91.

„…hann hafði bara farið eins og hræsnari“

Hryllingurinn kraumar undir niðri, þögn bæjarbúa er keypt með mútum, einnig þögn Bills. Hann er þó tvístígandi, samviskan lætur hann ekki í friði og hann á erfitt með að láta kyrrt liggja.

„Það versta var hvernig komið hafði verið fram við stúlkuna á meðan hann var þarna og hvernig hann hafði leyft því að viðgangast og ekki spurt um barnið hennar – það eina sem hún hafði beðið hann um að gera –  og hvernig hann hafði tekið við peningunum og skilið hana þarna eftir við borðið með ekkert fyrir framan sig og brjóstamjólkina lekandi undir litlu golftreyjunni svo það komu blettir í blússuna og hvernig hann hafði bara farið, eins og hræsnari, í messu.“ bls 85.

Með öðrum orðum, verst var hvernig þjóð og heimurinn allur sáu og vissu hvernig komið var fram við þessar stúlkur, létu það viðgangast og héldu áfram sinni tilveru og messuferðum eins og ekkert væri. Takið eftir því að árið er 1985. Ekki 1950 og eitthvað eða 1940 og eitthvað. Í eftirmála bókarinnar kemur fram að síðasta þvottahúsinu var lokað  árið 1996. Í hugum margra er það ár næstum eins og í fyrra. Það er nefnilega freistandi að áætla að grimmdarverk sem þessi, séu verk löngu gleymdar fortíðar, eitthvað sem gerðist þegar amma var til eða langamma. Við viljum ekki trúa að stúlkur hafi verið faldar, píndar og sveltar á þeim tíma er við sjálf vorum áhyggjulaus börn eða unglingar.  Ég meina, árið 1996 var ég orðin tveggja barna móðir!

Ein af þessum sem okkur ber skylda til að lesa.

Bækur eins og þessi minna okkur á að vera vakandi, taka afstöðu, við eigum öll að vera Bill Furlong, líka í dag.  Grimmdin er víða og nær okkur en við höldum. Því miður.

Þvottahús Magdalenu-systra á Írlandi upp úr 1900. early 1900s
Saga Magdalenu-þvottahúsanna er myrk og löng og einhvern veginn er eins og þessi svarta saga í sögu Írlands hafi ekki almennilega farið hátt, allavega ekki hér á landi, þrátt fyrir gerð kvikmyndar eins og The Magdalene Sisters frá árinu 2002 og heimildarmyndarinnar „The forgotten Maggies, offical documentary“.  Báðar þessar myndir eru skylduáhorf okkar allra því saga þessara stúlkna má ekki falla í gleymsku.

Þessi litla saga, Smámunir sem þessir er saga sem fólk verður að lesa, hún vekur okkur til umhugsunar, hristir upp í okkur. Sagan er fallega skrifuð, um hugrekki og sorg,  samkennd og ábyrgð okkar allra gagnvart þeim sem minnst eiga og hafa jafnvel enga rödd.  Þessi látlausa bók er gríðarlega áhrifarík og ekki furða að höfundurinn, Claire Keegan, sé einn virtasti rithöfundur Íra.

Árið 2013 kom loks afsökunarbeiðni frá írsku ríkisstjórninni vegna Magdalenu-þvottahúsanna. Forsætisráðherra Íra hét þá Enda Kenny, unga stúlkan í sögunni, með brjóstamjólkina í golftreyjunni, var kölluð Enda.

Lestu þetta næst