Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á meðan barnið tekur lúrinn sinn, á styttri tíma en það tekur að skrolla í gegnum alla vinina á Instagram. Skáldverk sem er þröngum skorðum sett, en þegar vel er gert getur það skilið mikið eftir sig.

Formið getur verið vandasamt en skemmtilegt. Örlítið augnablik í lífi, ein kvöldstund, smá innsýn. Persóna sem fær líf í gegnum nokkrar blaðsíður. Listin að segja mikið í fáum orðum. Þrátt fyrir þrönga stakkinn í orðafjölda þá gefur formið svo skemmtilega möguleika á leikgleði. Töfraraunsæi, súrrealismi, furðulegheit og ákveðið skáldlegt frelsi fá oftar meiri byr undir sína vængi í smásögunni heldur en í öðrum sagnaformum og eitthvað sem virðist smávægilegt og jafnvel hversdagslegt fær aukið vægi.

Smásagan er þægileg á ferðalagi, með stuttu athyglisspanni og jafnvel í lestri af símaskjá. Hér eru nokkur meðmæli með smásagnasöfnum.

Doris deyr  eftir Kristínu Eiríksdóttur

Breyska mennskunnar og samskipti einstaklinga eru í forgrunni
í þessu fyrsta smásagnasafni Kristínar sem kom út árið 2010. 

 Lífið að leysa eftir Alice Munro

Lífið að leysa er fjórtánda bók kanadíska rithöfundarins Alice Munro. Á yfirborðinu virðast sögurnar einfaldar, en þær kalla á djúpan lestur og skilja mikið eftir sig. Alice Munro hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir smásögur sínar árið 2013.

Kláði eftir Fríðu Ísberg

Það var með Kláða árið 2018 sem Fríða vakti fyrst athygli allra á ómissandi skrifum sínum. Smásagnasafn ríkt af innsæi og næmni. Hér er hægt að lesa umfjöllun Ragnhildar um Kláða.

Svefngríman eftir Örvar Smárason

Örvar leikur sér að forminu og býr til ákveðið töfraraunsæi í sínu fyrsta smásagnasafni, Svefngrímunni. En ég skrifaði einmitt um verkið stuttu eftir að það kom út, hægt er að lesa umfjöllunina hér.

Í miðju mannhafi eftir Einar Lövdahl

 

Eitt af þeim verkum sem að handritakeppnin Nýjar raddir á vegum Forlagsins hefur fært okkur. Sögur sagðar í hinum ýmsu formum, meðal annars í gegnum tölvupóstsamskipti.

 

Herbergi í öðrum heimi  eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur

Sjö smásögur eftir ungstirnið Maríu Elísabetu.
Það sést vel í þessari fyrstu bók höfundar að María hefur ástríðu fyrir leikgleði skáldskaparins.
Hægt er að lesa umfjöllun Rebekku um bókina hér

 


Vetrargulrætur eftir Rögnu Sigurðardóttur 

Frásagnir smásagnasafnsins eru fimm talsins og gerast á ólíkum tímum en allar snúast þær um einn afmarkaðan atburð. Bakgrunnur Rögnu sem myndlistarmaður kemur líka sterkt fram í leiðarstefi verksins. Sæunn hefur verið sammála mér um ágæti smásagnanna en umfjöllun hennar um Vetrargulrætur er hægt að lesa hér

Friday Black eftir Nana Kwame Adjei- Brenyah 

Þessi er næst á leslistanum mínum en hún Sjöfn hér á Lestrarklefanum mælti með henni. Verkið er fyrsta verk höfundar sem kemur frá New York fylki í Bandaríkjunum. Sögurnar eru myrkar og fjalla um erfið samfélagsleg málefni og þá sérstaklega um stöðu svartra í Bandaríkjunum, já og víðar. 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...