Svefngríman er smásagnasafn eftir Örvar Smárason sem hefur að geyma átta eftirminnilegar sögur. Verkið hlaut nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta. Áður hefur Örvar gefið út nóvelluna Úfin, strokin og ljóðabókina Gamall þrjótur, nýir tímar. En Örvar er líklega þekktastur sem tónlistarmaður og þá helst sem meðlimur í hljómsveitinni FM Belfast.
Það fyrsta sem vekur eftirtekt við upphaf lesturs í prentuðu útgáfu verksins er líklega rykkápan sem er heldur óvenjuleg. Texti sagnanna prýðir alla bókina, fyrsta sagan hefst á kápunni. Rykkápan er mjög þunn og hálfgegnsæ eins og regnkápa, jafnvel svona einnota regnponsjo sem túristar kaupa. Kápan þar af leiðandi þannig gerð að hún kallar ekki endilega á mann af bókahlaðborði. Kantarnir bleikrauðir eru þó fallegir og það sem skiptir kannski meira máli er að innihaldið er gífurlega eftirtektarvert og skilur mikið eftir sig.
Töfraraunsæi
Titill verksins rammar inn sögurnar og andann einkum vel en það er viss draumkennd hula yfir öllu þar sem sögurnar einkennast af töfraraunsæi. Það er eitthvað á skjön í hverri frásögn. En töfraraunsæi mætti útskýra á þann hátt að það er þegar eitthvað undarlegt eða töfrandi rennur saman við raunveruleikann. Þó að kyrfilegar skilgreiningar á töfraraunsæi séu nokkuð á reiki milli manna. En það sem aðgreinir kannski allra helst töfraraunsæi frá vísindaskáldskap eða fantasíu er það að í töfraraunsæi er raunveruleikinn aldrei aflagaður í heild sinni, né er verið að skapa ímyndaða heima, heldur mætti frekar líta á töfraraunsæið sem einhvers konar bjögun og þá sem aðferð til að kafa dýpra og draga fram í sviðsljósið það sem leynist á bakvið raunveruleikann.
En svo er það gríman sem minnir mann á leikhúsið og hér er það kannski absúrdleikhúsið sem kemur upp í hugann. En absúrdisminn er auðvitað það sem er fjarstæðukennt eða fáránlegt en absúrdleikhúsið er notað til að sýna fáranleika mannlegrar tilveru. Þessi eiginleiki er ekki sprengdur upp hjá Örvari heldur er hann kraumandi að litlu leyti í hinum ýmsu skúmaskotum. Þessi absúrdismi læðist einhvern veginn upp að lesandanum, honum að óvörum. Og margt af því fáranlega er kannski ekki svo fjarri lagi raunveruleikanum.
Húmor með piparmyntubragði
Það er sérstaklega ferskur andblær í þessu efni, þessum sögum og þessum frásagnarstíl. Það gustar um og lesandi er einhvern veginn með stingandi piparmyntubragð í munninum eftir lesturinn. Sögurnar eru ferskar en minna samt að einhverju leyti á smásögur Svövu Jakobsdóttur. Örvari tekst að skapa mjög sterka heild með ólíkum sögum. Sumar sögurnar vöktu þó sérstaka eftirtekt og vil ég helst nefna sögunar “Holur” sem fjallar um hið eftirminnilega Endaþarmssafn sem er í samkeppni við hið þekkta Reðursafn og svo “Óráð” sem fjallar um veiku dótturina sem fer að tala tungum. Mikill húmor einkennir verkið en þó er einhver alvarleiki líka í köldum veruleika persónanna.
Smásagnasafnið er einnig fáanlegt á hljóðvarpaveitunni Storytel en þar er það í lestri ýmissa leikara sem ljá hverri sögu sinn blæ. Það var virkilega gaman að upplifa verkið á tvo vegu, þá bæði í hljóði og í eigin lestri. Og það kom mér á óvart hve smásögur henta hljóðbókaforminum vel. Það að heyra mismunandi túlkun hvers leikara á hverri sögu fyrir sig gefur nýja upplifun af verkinu.