Vinátta og ást á ferðalagi

10. október 2023

Í sumar gaf Króníka út bókina Fólk sem við hittum í fríi eftir Emily Henry. Bókin kom fyrst út á frummálinu árið 2021 og var valin besta ástarsagan í Goodread Choice Awards það ár. Það þykja oft fín meðmæli því það eru lesendur sem velja verðlaunahafa þeirra verðlauna. Þessi bók var einnig mikið umtöluð í bókakimum samfélagsmiðla svo það var eiginlega nauðsynlegt að lesa hana og sjá hvort hún stæði undir þeim frábæru meðmælum sem hún fékk þar.

Bókin fjallar um Poppy og Alex. Þau hafa verið vinir í yfir áratug síðan þau kynntust fyrst á menntaárunum. Í raun er undarlegt að þau skyldu yfirhöfuð kynnast til að byrja með og svo halda vináttunni. Þau eru mjög ólík; hún er hvatvís og opinská, þráir tilbreytingu og vill ekki festast í viðjum vanans en ferkantaður, vill hafa allt í röð og reglu og fyrirsjáanlegt. Hann vill öryggi.

En lengst af þeim tíma sem þau hafa þekkst hafa þau búið langt frá hvort öðru. Hún í erilsamri New York en hann í smábænum þar sem þau ólust upp. Þau hafa þó alltaf gefið sér tíma til að skreppa saman í frí á hverju ári eða þar til fyrir tveimur árum síðan. Þau hafa ekki talast við síðan þá en Poppy hefur ákveðið að kippa öllu í lag. Hún skipuleggur vikufrí fyrir þau og ætlar sér að nýta það frí til að laga vináttu þeirra. Hún þarf bara að passa að ræða ekki ákveðna hluti og þá fer allt vel. 

Ekki algjör uppskrift

Undirrituð er mikill aðdáandi ástarsagna eins og hefur áður komið fram í öðrum bókapistlum eftir mig. Það er því óhætt að segja að ég þekki þær ágætlega og hafi nokkra reynslu af að lesa alls konar ástarsögur því þær eru jú það – alls konar. Þær geta verið mismikil froða til dæmis, veita lesandanum ánægju en vekja man kannski ekki mikið til umhugsunar eða skilja mikið eftir sig. Þær fylgja ákveðinni og margreyndri uppskrift alveg frá upphafi til enda. Það er allt í lagi, þær bækur eru frábærar þegar man er í þannig skapi en þessi bók fylgir ekki alveg formúlunni. Þetta er ástarsaga sem vissulega fylgir ákveðinni uppskrift eins og sjá má til dæmis á því hvernig Poppy og Alex kynnast. Fín vísun þar í When Harry Met Sally en þrátt fyrir það þá stígur hún af og til út fyrir formið. Hún hreyfir við manni og vekur mann til umhugsunar um ýmislegt. 

Sagan segir frá rúmum tíu árum í lífi Poppy og Alex. Lesandinn fer í smá tímaferðalag við lesturinn en hver kafli er ýmist tileinkaður nútímanum eða fortíðinni. Í þessu ferðalagi um tímann og samband Poppyar og Alex kynnumst við þeim sem einstaklingum og hvernig vinátta þeirra þróast yfir árin. Við kynnumst fortíð þeirra, æsku og fyrstu árum fullorðinsáranna og sjáum hvernig uppvaxtarár þeirra hafa mótað þau sem persónur. Það er eitthvað sem margir geta tengt við því atburðir æskuáranna geta mótað man fyrir lífstíð. Erfiðleikar og reynsla af þeim geta haft áhrif á tilfinningalíf okkar. Hvernig við tengjumst öðru fólki og hvernig við stundum leyfum okkur ekki að lifa lífinu alveg til fulls þó við gætum það vel. 

Poppy og Alex bera bæði bagga eftir uppvaxtarárin sem hafa áhrif á hvernig þau treysta fólki og sýna ást. Þetta setur mark sitt á þeirra vináttu og upp koma vandamál sem þau þurfa að takast á við. Það sem er tilbreyting við þessa bók er að persónurnar ræða í alvöru vandamálin, kljást og takast á við þau í gegnum bókina með dass af ást og rómans með. Þetta er ekki hið týpíska, það eru vandamál og enginn talar saman þar til allt í einu í endinn verður allt gott. Það er það sem ég á við þegar ég segi að þetta er ekki hin týpíska ástarsögufroða þó hún sé virkilega góð og veiti manni sömu lestraránægju og ekta froðubók. 

Besta þýdda ástarsagan ársins hingað til
En sem ástarsögu aðdáandi þá stekk ég á flestar þær ástarsögur sem koma út í íslenskri þýðingu. Ekki af því ég les ekki bækur á öðrum tungumálum heldur því ég vil styrkja og ýta undir íslenska þýðingu á bókum sem ekki eru þessir óþolandi mörgu krimmar. Það voru nokkrar útgáfur sem gáfu út svona „skvísu“ ástarsögur í íslenskri þýðingu í vor og í sumar og las ég þær allar. Hafandi gert það verð ég að segja að Króníku tókst að eiga bestu þýddu ástarsöguna sem flokkast undir sumarútgáfuna. Virkilega vel valin bók til að þýða og á útgáfan hrós skilið. Eina sem ég gæti sett út á er að prófarkalesturinn hefði mátt vera betri en það var of mikið af innsláttarvillum og slíku. 

Heilt yfir frábær bók, vel þýdd og stórskemmtileg.

Lestu þetta næst