Þá er október genginn í garð og ekki seinna vænna en að tileinka sér bandaríska siði og fara í hrollvekjugallann fyrir „spooky season“ eða „saison de spook.“ Hrolltíð gæti það verið á íslensku, en við þurfum sennilega þjóðarkosningu til að skera úr um besta íslenska heitið á tíðinni. Fyrst að Dominos getur haldið ostóber get ég allavega haldið upp á hrolltóber, svo ekki sé beðið um meira. Til að leggja mitt að mörkum til að koma okkur í ógnvekjandi gír hef ég tekið saman lista af nokkrum skemmtilegum og mishryllilegum bókum til að glugga í með grasker í annarri og hvítlauksgeira í hinni.

Hvað er það sem gerir hrollvekjubók góða? Ef markmiðið er eingöngu að hræða þá er kannski hægt að láta gæði textans sitja á hakanum, en ég er þó alveg viss um að eins og í öðrum bókmenntagreinum geti hrollvekjubók verið alveg jafn djúp, vel skrifuð og skilið jafn mikið eftir og fagurbókmennt OG hrætt mann í þokkabót. Þá er ekki víst að allir lesendur stundi hryllingsbókalestur, en fyrir fólk eins og mig sem elskar hryllingsmyndir, en er oft aðeins of hrætt við að horfa á þær eitt heima (maðurinn minn horfir ekki á hryllingsmyndir svo ég ætla að skilja við hann), þá er hryllingsbókin frábær lending. Ég er oftar minna hrædd þegar ég les en þegar ég horfi, en verð þó að viðurkenna að í gærkvöldi þurfti ég að leggja frá mér bókina sem ég var að lesa því ég var of hrædd.

Kíkjum á bækurnar sem ég mæli með í ár, en ég skipti þeim í nokkra flokka til einföldunar.

Klassíkin

Fall of the House of Usher eftir Edgar Allan Poe
Gotneska smásagan er án efa það sem við þekkjum Edgar Allan Poe fyrir í dag, og af góðri ástæðu. Hann var brautryðjandi í greininni og leit sjálfur út eins og persóna í Tim Burton mynd. The Fall of the House of Usher var skrifuð árið 1839, aðeins fjórum árum eftir að Poe, sem þá var 26 ára giftist 13 ára frænku sinni (Hvers vegna að skrifa hryllingssögur þegar líf þitt er hin raunverulega hrollvekja?), og hlaut góðar viðtökur lesanda. Í sögunni fylgir lesandi ónefndri söguhetju sem fer að hjálpa vini sínum Roderick Usher sem glímir við dularfull veikindi, og systur hans, sem er nær dauða en lífi. Reimleikar, uppvakningar, ættaróðöl og tæpur arkitektúr taka höndum saman til að skapa fullkomna gotneska hryllingssögu, sem er þó ekki svo hræðileg að ekki sé hægt að lesa hana með eldri börnum til að skapa stemningu. Nú má einnig sjá Mike Flannagan útgáfuna á Netflix, en hann hefur lagt mikið upp úr endurgerðum á eldri hrollvekjum eins og Bly Manor og Haunting of Hill House.

The Tell-Tale Heart eftir Edgar Allen Poe

Án efa uppáhalds Poe sagan mín, og með þeim frægari. Í henni er sögumaðurinn einnig nafnlaus, en í þetta sinn er hann einnig morðingi sem tekst á við annað hvort andlega byrgði sektarinnar rétt eins og í Glæpi og refsingu, eða drauga fórnarlambs síns. Sagan er stutt, auðlesin og mjög góður inngangur að sálfræðihryllingsflokknum, sem er mikið nýttur í seinni tíð og máir mörk hins raunverulega og yfirnáttúrulega.

We Have Always Lived in the Castle eftir Shirley Jackson

Ég veit ekki af hverju þetta er uppáhalds hryllingssagan mín, en hún er það. Höfundurinn, Shirley Jackson, er einnig höfundur The Haunting of Hill House og smásögunnar The Lottery, sem eru báðar vel þess virði að reka nefið ofan í í tilefni hrolltóbers. Þess utan er Shirley líka femínisk hetja sem skrifaði 17 bækur, átti fjögur börn og sá um alla eldamennsku, innkaup og heimilishald. Auk þess sem hún teiknaði litlar skrítlur um byrði konunnar. We Have Always Lived in The Castle fjallar um systurnar Constance og Merricat og frænda þeirra Julian, eftirlifandi meðlimi Blackwood fjölskyldunnar sem er litin hornauga af nágrönnum sínum eftir að fjórir fjölskyldumeðlimir dóu úr arsenikeitrun. Bæjarbúar trúa því staðfastlega að Constance hafi myrt foreldra sína og bróður og halda sig fjarri fjölskyldunni. Þegar fjarskyldur frændi mætir á svæðið og gerir hosur sínar grænar fyrir Constance fer Merricat að hafa áhyggjur.

Ímyndun eða alvara?

Come Closer eftir Sara Gran

Sálfræðilegur vandi eða djöfullinn? Maður spyr sig. Amanda er ósköp venjuleg 34 ára kona sem er hamingjusamlega gift og vinnur sem arkítekt. En þá fara draumarnir að sækja á hana. Svo byrjar hún að reykja. Svo fer hún að halda framhjá. Svo fer satanísk nærvera að stjórna gjörðum hennar svo hún ræður ekki við sig lengur. Er of seint að leita sér hjálpar, og ef svo er ekki, hvert á hún að snúa sér? Til kirkjunnar, galdranorna eða sálfræðinga og geðlækna? Dásamlega óþægileg bók um konu sem er annað hvort að missa vitið eða lenda í helvíti.

Lullaby eftir Lila Slimani

Ógeðsleg bók um barnfóstru sem er ekki öll þar sem hún er séð. Við fylgjumst með fóstrunni missa vitið hægt og bítandi og bókin endar í tragedíu. Upphafssena bókarinnar er hrúga af dauðum börnum svo ég er ekki að spoila neinu með því að segja þetta. Oj. Mæli með. Samt ekki.

The Push eftir Ashley Audrain

Blythe og Fox ákveða að eignast barn. En hvað ef barnið þeirra er illt? Eða gæti verið að Blythe sé bara ömurleg mamma? Blythe nær engri tengingu við dóttur sína, Violet, og er nokkuð viss um að stúlkan hafi hatað móður sína frá fæðingu. Þegar hjónin eignast annað barn, soninn Sam, fara að renna á Fox tvær grímur. Er Blythe klikkuð eða getur verið að Violet sé vond? Lesandinn veit ekki hvert hann á að fara eða hvað hann á að halda og er dreginn í spennandi og uggvænlegt ferðalag.

Baby Teeth eftir Zoje Stage

We Need to Talk About the Omen, hefði verið ágætt nafn á þessa bók líka. Er  hin sjö ára gamla Hannah full af illum öndum og vill móður sinni illt eða er mamma hennar bara ímyndunarveik tussa? Önnur nálgun á sömu minni og í The Push. Skemmtileg, létthryllingslesning fyrir alla sem eru smá hræddir við sjö ára börn.

Vafasöm vísindi

Natural Beauty eftir Ling Ling Huang

Þessi bók er æðisleg. Ég elska hana. Hún er líkamshryllingur, tráma, vafasamir auðjöfrar, kynþáttahatur, mannætuhreindýr og allur pakkinn vafinn saman í vel skrifaða og spennandi sögu sem grípur lesandann frá fyrstu síðu. Endilega setið hana í jólapakkann hjá einhverjum sem er með smá blik í auga sem kemur upp um að sá hinn sami vilji lesa ógeðslegar bækur.

Sundial eftir Catriona Ward
Kynslóðartráma, vafasöm vísindi og móðureðli koma saman í eyðimörkinni. Þegar Rob fer að taka eftir því að Callie, dóttir hennar, safnar litlum beinagrindum af dýrum og felur í herberginu sínu fer hana að gruna að illskan sem fylgt hefur ætt hennar hafi komið með henni þegar hún flúði eyðimörkina sem hún ólst upp í og hóf nýtt líf í venjulegu úthverfi. Rob fer frá ofbeldisfullum eiginmanni sínum og yngri dóttur til að reyna að bjarga þeirri eldri, og það er eingöngu mögulegt með því að snúa aftur að rótinni, ættaróðalinu Sundial.

Lakewood eftir Megan Giddings 

Þegar háskólaneminn Lena Johnson missir ömmu sína skyndilega kemur í ljós að fjölskylda hennar er ekki bara staurblönk heldur einnig stórskuldug. Lena þarf nú að sjá fyrir veikri móður sinni og þegar hún fær boð frá dularfullu fyrirtæki um að taka þátt í rannsókn fyrir háa fjárhæð getur hún ekki annað en sagt já. Lena þarf að flytja í afskekktan bæ, má ekki segja neinum hvað hún er í raun að fást við og þarf að svara undarlegum spurningum. Hlutirnir verða svo bara skrítnari og skrítnari, og ekki líður á löngu þar til Lena spyr sig hvort það hafi verið hræðileg mistök að flytja til Lakewood.

Intercepts eftir T.J Payne

Joe vinnur sem yfirmaður rannsóknarstöðvar þar sem lifandi manneskjur eru notaðar sem tilraunadýr. Tilraunirnar eru mikilvægar og fórnarlömb þeirra eru ómissandi hlekkur í þjóðaröryggi, svo það hvernig farið er með þær er smávægilegt í hinu stóra samhengi, er það ekki? Manneskjurnar fá engin nöfn, þær geta eingöngu legið og umlað, þær finna engar tilfinningar eða utanaðkomandi örvun, en samt eru þær lifandi, djúpt inni í sér og bíða færis. Þegar fyrrum eiginkona Joes deyr með voveiflegum hætti þarf Joe að horfast í augu við sjálfan sig og vinnuna sína sem er nú farin að elta hann heim.

Hryllingur innfæddra Bandaríkjamanna

The Only Good Indians eftir Stephen Graham Jones fjallar um dularfulla veru sem ásækir hóp manna af frumbyggjaættum. Bókin er hæg og dularfull, minnir svolítið á Stephen King, en spilar með minni sem sjást ekki oft í vestrænum bókum.

Moon of the Crusted Snow eftir Waubgeshig Rice spyr sig hvernig færi ef heimsendir kæmi, siðmenningin endaði og… friðlandið sem þú og þinn ættbálkur hefur búið á við takmörkuð nútímaþægindi finnur varla fyrir því. Rithöfundurinn Waubgeshig Rice spyr sig að þessu í endalokabók sem er skemmtilega öðruvísi. Ættbálkurinn heldur sínu striki, einangraður frá umheiminum, en þegar dularfullur hvítur maður skítur upp kollinum fara vafasamir atburðir að gerast.

Stolen Tongues eftir Felix Blackwell er bókin sem hræddi mig í gærkvöldi. Ég er bara búin með helminginn svo ég lofa engu um lokaútkomuna, en djöfull er hún ógnvekjandi. Þegr parið Felix og Faye fara í rómantíska ferð í afskekktan fjallakofa hitta þau fyrir dularfulla, forna veru sem fylgir þeim heim. Eitt af því besta við þessa bók er að persónurnar gera allt rétt – þær flýja úr ógeðslega creepy draugagangnum á afskekktu fjalli og fara bara heim, en ógeðið eltir þau.

Uppvakningaógeð

Maggie‘s Grave eftir David Sodergren

Ókei þessi bók er ógeðsleg en hún er líka mjög skemmtileg. Svolítið eins og að lesa slasher mynd. Hin einhleypa Maggie Ward er talin vera norn og er myrt á hryllilegan hátt á 17. öld og ófætt barn hennar skorið út úr legi hennar til að standast réttarhöld. Augljóslega þarf að athuga hvort barnið sé líka norn, ekki satt? 300 árum seinna er skoski bærinn þar sem gröf Maggiear stendur næstum yfirgefinn, þar búa enn aðeins 47 hræður og stöðugt fækkar íbúum. Einu ungmenni bæjarins eru fjórir hálf lífsleiðir unglingar og kornabarnið Eric, sem einn af unglingunum eignaðist tveimur mánuðum áður en bókin byrjar. En af hverju er fullorðna fólkið í bænum allt í einu farið að haga sér skringilega? Hver er hin dularfulla Courtney sem bankar upp á í draugabænum, og getur verið að Maggie sé að reyna að skríða upp úr gröf sinni í leit að barninu sem stolið var af henni?

And Then I Woke Up eftir Malcom Devlin

Uppvakningarnir eru komnir. Nei, þetta er ekki djók, þeir eru mættir á svæðið eins og við bjuggumst öll við og eins gott að vopnbúast og flýja. Mamma þín er uppvakningur. Sonur þinn er uppvakningur. Maki þinn er uppvakningur. Eins gott að þú drepir þína nánustu eftir að þau breyttustí slefandi, blóðþyrst skrímsli. Eða hvað? Sögumaður okkar vaknar á meðferðarheimili fyrir þá sem fengu vírusinn. Ekki zombie vírusinn heldur ímyndunarveikisvírusinn. Þann sem lét venjulegt fólk skyndilega halda að þeirra nákomnir væru orðnir að uppvakningum. Mömmur sem drápu börnin sín, börn sem drápu foreldra, fólk sem sprengdi upp heilu byggingarnar til að drepa alla sem inni í þeim voru þarf núna að vakna aftur til raunveruleikans og horfast í augu við gjörðir sínar. Allegóría um falsfréttir og öfgahyggju í hryllingsbúning.

World War Z eftir Max Brooks

Þessi klassíska uppvakningasaga er í uppáhaldi hjá mér því að hún sýnir á svo raunsæan hátt (held ég) hvað myndi gerast ef það kæmi alvöru uppvakningafaraldur. Bókin er skrifuð sem greinar og bréf eftirlifenda faraldursins, og fjallar um hvernig mismunandi fólk og þjóðir brugðust við og hverjar eftirstöðvar faraldursins voru. Sennilega öðruvísi að lesa hana eftir covid en þegar ég las hana síðast, en kannski er hún álíka raunsönn í dag. Ekki horfa á myndina, hún er ömurleg.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...