Franski bókaklúbburinn eða Frönskurnar eins og meðlimir kalla sig í daglegu máli var stofnaður í febrúar 2023. Bókaklúbburinn er frekar stór en meðlimir hans eru fimmtán konur sem voru saman í frönsku í Háskóla Íslands. Þær eru með Facebook grúppu en þær langaði til að hittast oftar. Nanna Reykdal kom því með hugmyndina að bókaklúbb.
Í hópnum eru eftirtaldar konur: Anna María Bogadóttir, Anna Þóra Benediktsdóttir, Guðlaug Friðgeirsdóttir, Gunnhildur Ólafsdóttir, Fjóla Guðmundsdóttir, Hrafnhildur Linda Heimisdóttir, Hrafnhildur Sesselja Mooney, Ingibjörg Úlfarsdóttir, Nanna Reykdal, Nanna Hrund Eggertsdóttir, Rósa Guðrún Sólberg, Snjólaug Aðalgeirsdóttir, Sólveig Nikulásdóttir, Sóley Þórarinsdóttir og Sonja Dögg Pálsdóttir.
Ekki allar sammála um Staðinn
Að sögn Hrafnhildar Lindu lesa þær bækur sem tengjast Frakklandi eða frönsku á einhvern hátt.
Við erum góður hópur sem var í frönsku í Háskóla Íslands og í Université Paul Valery í Montpellier á vegum Erasmus á árunum 1993-1996. Við eigum allar sameiginlegt að hrífast af franskri menningu og eiginlega öllu frönsku. Við lásum mikið í náminu, sem var mjög bókmenntamiðað, og það er gaman að geta rifjað upp gamla takta. Við veljum bækur á íslensku en oft er bókin einnig til á frönsku og sumar lesa frönsku útgáfuna. Okkur finnst líka vera kostur ef það er hægt að hlusta á bókina. Við höfum nokkrum sinnum búið til lagalista í stíl við bókina sem við erum að lesa og það eykur enn frekar á stemninguna og tilhlökkun fyrir næsta bókafund.
Það eru skiptar skoðanir um bækurnar og þær eru mishrifnar. Fyrsta bókin sem þær lásu var Staðurinn eftir franska nóbelsverðlaunahafann Annie Ernaux. Þær voru, að sögn Hrafnhildar Lindu, ekki allar sammála um þá bók. Sumum fannst stíllinn kaldur og fráhrindandi en öðrum líkaði bókin vel.
„Bókin sem okkur þykir vænst um og vorum hrifnastar af er bókin Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur, sem vill svo skemmtilega til að er einmitt meðlimur í bókaklúbbnum. Við vorum svo heppnar að höfundurinn bauð okkur heim til sín og við ræddum bókina við hana,“ segir Hrafnhildur Linda.
Á nóttunni er allt blóð svart klauf hópin
Bókin sem klauf hópin er franska verðlaunabókin Á nóttunni er allt blóð svart eftir David Diop. Sumum fannst bókin vera endalausar endurtekningar, óþolandi aðalpersóna og ofbeldisfull meðan aðrar lásu bókina á frönsku og íslensku, hlustuðu á hana jafnvel á ensku og kynntu sér höfundinn, hlustuðu á viðtöl við hann og fleira. „Það er eiginlega skemmtilegra þegar við erum ekki sammála,” segir Hrafnhildur Linda.
Þær ákveða yfirleitt eina bók fram í tímann. Reglan átti að vera að sú sem býður heim hverju sinni velur næstu bók en einhvern veginn hafa þær ákveðið lesturinn saman. Næst munu þær lesa Minnisbók Sigurðar Pálssonar og þá er einnig tækifæri að lesa Bernskubók og Táningabók.
Bók á frönsku eftir Guillaume Musso, einn vinsælasti franski höfundinn, Frönsk svíta, Íbúðin í París eða Veisla í farangrinum eftir Hemingway hafa líka verið nefndar sem mögulegar lesningar i vetur.
Láta klúbbinn ganga fyrir
Ráð Franska bókakúbbsins fyrir aðra bókaklúbba er að setja ekki of margar reglur en samt hafa nokkrar, hittast reglulega, láta klúbbinn ganga fyrir og njóta samverunnar. Síðast en ekki síst, mæta þó að ekki hafi náðst að lesa bókina.
Myndin af hópnum var tekin þegar þær tóku fyrir Í landi annarra eftir Leilu Slimani, þá var boðið upp á couscous og myntute. Þær eru stór hópur svo það vantar yfirleitt alltaf einhverjar.
Við þökkum Frönskunum kærlega fyrir að segja okkur frá klúbbnum sínum og óskum þeim góðs lesturs í vetur!