Í dágóðan tíma fyrir mörgum árum lagði ég mér ekki annað til munns en glæpasögur. Þó aðeins glæpasögur eftir erlenda höfunda þar sem ég festi mig ekki alveg við þá íslensku enda fáir að skrifa krimma hér á landi. Svo mjög las ég af krimmum að einn daginn lagði ég þá á hilluna og hef ekki snert þá síðan, fyrr en í ár. Hin útvalda eftir Snæbjörn Arngrímsson varð fyrir valinu en hún er er sjálfstætt framhald bókarinnar Eitt satt orð er kom út fyrir ári síðan.

Aðalpersóna bókanna er lögreglumaðurinn Haraldur sem í upphafi sögunnar er að hætta störfum sökum aldurs og fær sendingu síðasta vinnudaginn sinn. Sendingin fær hann til að hverfa aftur til níunda áratugarins þegar hann, sem nýskipaður lögreglumaður í litlu þorpi á Austurlandi, þarf að takast á við dularfullt mannshvarf. 

Samhliða því sem við fylgjumst með Haraldi glíma við þetta sakamál fáum við innsýn inn í þorpslífið, sálarlíf Haraldar sem er nýskilinn þegar þarna er komið við sögu og samskipti hans við þorpsbúa sem eru ekki alveg hefðbundin. Hann á í einhverskonar ástarsamböndum sem eru þó ekki eiginleg sambönd og stundum fer starfið hans að þvælast fyrir honum.

Út-á-landi liðið

Það er ákaflega erfitt að staðsetja þessa sögu sem glæpasögu. Glæpurinn fellur í skuggann af persónulegum málum Haraldar og úrvinnsla hans á glæpnum, sem og starfshættir, er ekki trúverðug. Svo sem eins og meðferð sönnunargagna og viðtöl lögreglumanns við þorpsbúa sem margir hverjir liggja undir grun. Sú mynd sem höfundur dregur upp af litlu íslensku sjávarþorpi er þess eðlis að oft er eins og lítið sé gert úr landsbyggðinni, þessi mýta að lítil þorp innihaldi nánast eintóma sérvitringa og þar þekkist allir, og viti allt um alla, er orðið svolítið þreytandi.

Hver er hin útvalda?

Persónusköpunin hefði mátt vera dýpri, margt í fari Haraldar er einkennilegt og bætir engu við söguna, virkar hálf tilgangslaust. Sem dæmi má nefna þá staðreynd að hann les á hverju kvöldi upphátt fyrir sig einan og þýðir textann jafnóðum yfir á ensku. Sagan á að gerast árið 1998 og er reynsluleysi Haraldar hvað varðar alvöru glæpi  útskýrt með því að sem lögreglumaður í Reykjavík á fyrrnefndu ári hafi hann lítið haft að starfa annað en að bjarga köttum úr trjám. Á þeim árum er fíkniefnavandinn orðinn raunverulegur nánast um allt land, glæpir að aukast og farið að bera á ofbeldi með vopnum sem áður höfðu lítið sem ekkert þekkst. Þetta gengur því ekki alveg upp. Lausn gátunnar dettur svo í kollinn á Haraldi nánast af tilviljun, þar sem hann meðhöndlar sönnunargögn heima hjá sér, lausn sem er þá töluvert fyrr orðin frekar fyrirsjáanleg lesandanum. Titilinn á ég líka erfitt með að átta mig á og var töluvert að leita að þessari útvöldu sem titilinn gefur til kynna sé að finna þarna einhversstaðar í sögunni.

Hin útvalda er ágætis bók en ekkert meira en það og vekur vonbrigði sem spennusaga. Í henni er að finna allar klisjurnar um þorpsfíflin, sérlundaða lögreglumanninn, sem ættaður er úr borginni, og þorpsskækjuna. Sem íbúi í einu slíku þorpi væri ég alveg til í að sjá nýja nálgun á þessa sögustaði. 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...