Ævintýri eins og þau best geta orðið

Vigdís Grímsdóttir er einn af þeim höfundum sem sópar að. Hún sjálf er eftirtektarverð, skemmtileg í viðtölum og hefur þetta yfirbragð sem ósjálfrátt vekur aðdáun, allavega hjá mér.  Bækurnar hennar Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón og Kaldaljós eru bækur sem ég las og las svo aftur þegar ég hafði náð meiri þroska og innihaldið birtist mér því á annan hátt. En svo tók Vigdís sér hlé frá skáldsagnagerð, þar til nú.

Ég var örlítið smeyk en þó eftirvæntingarfull þegar ég fékk í hendurnar Ævintýrið, skáldsögu Vigdísar eftir um tíu ára hlé. Ég var smeyk um að hún hefði glatað töfrunum eftir áratuga langa þögn, að ég yrði fyrir vonbrigðum, að ég hefði mögulega ofaukið í huganum snilldina í bókum hennar sem ég las fyrir margt löngu. Strax á fyrstu blaðsíðunni fann ég að hún var söm. Vigdís Grímsdóttir var komin aftur og hefur engu gleymt.

Á heitasta stað jarðarinnar

Ævintýrið fjallar um vináttu Drengs og Fisks og gerist í Borginni þar sem heitast er á allri jörðinni. Vigdís hefur sjálf sagt að fyrirmynd Borgarinnar sé landið Djibouti í Afríku en þar dvaldi hún í dágóðan tíma hjá dóttur sinni sem þar býr. Borginni í bók Vigdísar er stjórnað af Drottningunni, sem er einráð og  stjórnar með hörku og kúgar þegna sína til hlýðni. Brotum gegn reglum hennar er mætt með fangelsisvist og pyntingum sem allir þegnar óttast en til að halda í örlitla gleði í annars spennuþrungnu lífi, lituðu af ótta, þá tyggja þegnarnir Katt sem yljar og vekur vellíðan. Þess má geta að landið Djibouti er eina landið í heiminum þar sem er löglegt að neyta eiturlyfsins Katt. Er áætlað að rúm 90% þjóðarinnar neyti þessa eiturlyfs með ömurlegum afleiðingum. En þetta var útúrdúr.  Vinirnir tveir þræða stíginn í gegnum reglur og óútskýrð lögmál þar til þeir, ásamt gamalli konu og fjölskyldu hennar, ákveða að ganga á fund Drottningar og óska eftir breytingum.

Ádeila eða ævintýri, nema hvort tveggja sé

Þráðurinn í bókinni er bæði gamall og nýr. Kúgun, misbeiting valds þeirra sem ráða ríkjum, spilling og ótti. Allt er þetta viðfangsefni sem glímt er við í dag og er hægt að heimfæra á bæði stærstu einingarnar eins og heiminn sjálfan sem og litla eyju í norðri, jafnvel hin smæstu sveitaþorp, eina fjölskyldu. Alltaf er einhver sem vill ráða, oft með góðu eða illu. Alltaf eru einhverjir sem líða fyrir græðgi annarra. Svörin sem þessi litli flokkur fær frá einræðisherranum eru dæmigerð pólitísk svör sem segja í raun ekki neitt en svæfa þess í stað umræðuna svo viðkomandi spyrjendur eru engu nær og ringlaðir í kollinum.

Síðan er þessi eilífa klisja um heildarmyndina sem Vigdís deilir á, það henti þeim ríku, þeim sem völdin hafa, að sumir séu fátækir en aðrir ríkir og vanmáttur þegnanna er svo skýr. Maður skynjar vonbrigðin og vanmátt gömlu konunnar þegar það hellist yfir hana að það skipti ekki máli hvað sé sagt, hvað sé gert eða um hvað sé beðið, það sé ekki vilji til að bæta ástandið þannig að það komi sér vel fyrir þá sem verst eru leiknir. Það henti heildarmyndinni að ekki sitji allir við sama borð. Þetta er meginþráðurinn eins og ég sé hann. Þetta er raunveruleikinn einnig eins og ég sé hann.

En svo eru það litlu og örfínu þræðirnir sem lauma sér í gegnum söguna, oft án þess að lesandinn verði þess var. Hver er þessi Fiskur? Og hvernig getur vinátta myndast milli fisks og manneskju? Er þessi Fiskur yfirhöfuð til eða er Drengur að ímynda sér vin í einsemd þar sem engum er treystandi? Þessum spurningum verður hver lesandi að svara fyrir sig og mig grunar að þar verði enginn sammála.  Í heimi þar sem ólíkir kynþættir takast á og stríð eru háð á milli þeirra er jafnvel einu sinni voru í sátt og samlyndi, læðir Vigdís því að okkur að þó við séum ólík, þó við séum ekki eins á litinn, eða trúum á mismunandi hluti þá sé ekkert því til fyrirstöðu að geta átt vináttu þvert á það allt.

„Honum fannst bara svo gaman að segja það og honum fannst svo gott að hugsa það.“

Inn á milli birtast lesandanum svo setningar sem vekja upp skynjun sem erfitt er að útskýra, skynjun sem mögulega er ólík eftir því hver les hverju sinni.

– Mér finnst gott að sofna við eðlusöng, sagði hann oft við mömmu sína sem brosti því auðvitað vissi hún jafnvel og hann að eðlukurrið var enginn söngur.

Honum fannst bara svo gaman að segja það og honum fannst svo gott að hugsa það (Bls. 9)

Hversu oft teljum við okkur trú um eitthvað í huganum til að líða betur þó við vitum innst inni að við erum að blekkja okkur. Bara til þess eins að friða hugann, fá betri líðan. Við til dæmis teljum okkur trú um að ef við notum papparör í fernuna í stað plaströra þá séum við að leggja okkar að mörkum til að bjarga jörðinni þó innst inni við vitum að vandinn er svo stór að hann er ekki á okkar valdi að laga, ekki með fáeinum papparörum.

Við erum óþægilega minnt á þá staðreynd að fólk sé sett í dilka, líka í okkar eigin garði þar sem sumt fólk er velkomið á meðan annað fólk er það ekki.

– Æ báturinn hefði átt að sigla hingað á höfrungaströndina. Hér er pláss handa öllum og við hefðum getað búið um alla hér á veröndinni og gefið öllum að borða og drekka og svo hefðum við hjálpast að við að byggja handa fólkinu lítil hús eða kannski hreysi til að byrja með, sagði Drengur alveg eins og hann væri búinn að gleyma því að á Hvítu höfrungaströndinni mátti enginn búa nema hann og foreldrar hans.

– Þetta voru ekki ferðamenn sem komu að glápa á höfrungana. Þetta fólk var að flýja stríðin og hungrið heima hjá sér og það er bannað að hjálpa svoleiðis fólki, líka á friðuðu ströndinni þinni. Sumt fólk fær hvergi að vera. (Bls. 69)

Og það eru fleiri gullkorn.

Það er eitt af því versta sem hendir mannveru að eiga engra kosta völ og verða að sætta sig við það sem að henni er rétt. (Bls. 111)

Eiginlega langar mig að segja að Ævintýri Vigdísar sé skynjun út í gegn, upplifun hvers og eins og aldrei sú sama. Ævintýrið gæti líka birst lesandanum á mismunandi hátt, eftir því hvar hann er staddur í sínu lífi. Þessa bók kem ég því til með að lesa aftur seinna og nú þegar hefur hún stundum birst mér í huganum þegar ákveðin mál eru til umfjöllunar. Þetta stóra ævintýri í fáum orðum er djúpt og óútreiknanlegt, textinn lipur og torræður í senn, flæðir um hugann og skilur eftir sig ummerki. En umfram allt töfrandi ævintýri með alvarlegum undirtón eins og góð ævintýri voru í gamla daga.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...