Grundarfjörður er fullur af bókaormum og á skólabókasafni grunnskólans iðar allt af lífi. Hilmar Örn Runólfsson er bókaormur í 4. Bekk og hann hefur skoðanir á því sem hann les þó hann viðurkenni að stundum nenni hann ekki að lesa mikið. „Það er efitt að lesa bók sem manni finnst ekki skemmtileg,“ segir hann og bætir við að ef bókin grípi hann sé hann æstur í að klára. Og bókin sem hann fékk í hendurnar er einmitt slík bók, bók sem greip hann það mikið að hann var mættur á bókasafnið að lestri loknum og tók til láns allar þær bækur sem áður höfðu komið út í þessum bókaflokki. Jú mikil ósköp, við erum að tala um bókaflokkinn Hundmann og Kattmann eftir Dav Pilkey, höfund hinna fægu bóka um Kaftein Ofurbrók. Umfjöllunin hér snýr að nýjustu viðbótinni, Hundmann – Flóadróttinssaga. Bókafélagið gefur þessar bækur út.
Hvað fannst Hilmari um þessa vinsælu bók?
„Bókin er ótrúlega fyndin, myndirnar eru æðislegar og stundum les ég textann og skoða svo myndirnar aftur,“ segir Hilmar kátur. Bókin er kaflaskipt og þó hún sé samfelld saga er líka hægt að grípa í kafla hér og þar og njóta þess að lesa bara þá. Þetta eru bækur fyrir alla krakka, vill hann meina, og gæti jafnvel hugsað sér að pabbi hans gæti haft gaman af þeim.
En les Hilmar mikið?
„Stundum,“ svarar hann. „En stundum nenni ég því ekki en ég les samt alltaf eitthvað. Mamma vill að ég lesi á hverjum degi enda er hún kennari, kennarar vilja mest af öllum að krakkar lesi.“ En þar sem Kattmann og Hundmann bækurnar eru myndasögur og textinn takmarkaður, finnst Hilmar það vera auðveldara? „Já, miklu auðveldara og þá er ég líka að lesa þykka bók og get verið fljótur að því sem er ótrúlega gaman. Það er gaman að geta lesið þykkar bækur.“
Úr hundum og köttum yfir í skuggalega drauga.
Þar sem Hilmar var komin á flug með lesturinn tók að hann einnig að sér að lesa bókina Ráðgátan um skuggann skelfilega sem kom út fyrir jólin 2023 og er gefin út af bókaútgáfunni Uglu. Sú bók er eftir Kristinu Ohlsson er sú fyrsta í bókaröðinni um Draugastofuna. „Mér fannst bókin alveg skemmtileg og spennandi. Ég myndi alveg lesa fleiri bækur í þessum flokki.“ Hann segir að textinn sé þægilegur í lestri og myndirnar flottar. „En ég er samt hrifnari af Hundmann bókunum, finnst gaman þegar bækurnar eru fyndnar og Ráðgátan um skuggann skelfilega er ekki fyndinn, hún er meira bara spennandi,“ segir Hilmar.
En hvaða bækur eru í uppáhaldi? „Hundmann og Kattmann“ segir Hilmar sposkur og það er eitthvað grallablik í augunum á honum sem segir mér að viðtalinu sé nú senn að verða lokið, enda að koma frímínútur og það er uppáhaldstími Hilmars í skólanum.
En að lokum fæ ég hann til að segja mér hvort bókakápur skipti máli og hvort hann velti þeim mikið fyrir sér. Jú, hann vill meina það, flottar kápur gefi til kynna að gaman gæti verið að skoða bókina nánar. En hvað með fullorðna fólkið? Þarf það að lesa líka? „Auðvitað“ svarar hann að bragði. „Mamma las alltaf fyrir mig þegar ég var lítill og ég held það skipti máli, en það skiptir mestu máli að bækurnar séu fyndnar og myndinar góðar“ Að svo mæltu hringdi bjallan, ég rétt náði að smella af honum mynd og svo var hann rokinn.