Skúli Sigurðsson vakti athygli með fyrstu skáldsögu sinni Stóri bróðir sem bókaútgáfan Drápa gaf út 2022. Fyrir þá bók hlaut Skúli Blóðdropann, glæpasagnaverðlaun sem eru veitt ár hvert á Bessastöðum, samhliða Íslensku bókmenntaverðlaununum. Stóri bróðir er ekki til umfjöllunar hér en vert að minnast á hana engu að síður enda eftirtektarvert þegar höfundur hlýtur slík verðlaun í fyrstu atrennu. Maðurinn frá Sao Paulo er önnur bók Skúla, hún kom út fyrir jólin 2023.

Aðalpersóna bókanna er Héðinn Vernharðsson, ungur rannsóknarlögreglumaður í Reykjavík og árið er 1977. Leigubílsstjóri finnst látinn í leigubifreið, skotinn af stuttu færi í hnakkann. Héðinn fær málið inn á borð til sín og er þetta fyrsta málið sem hann fær til rannsóknar. Ekki líður á löngu þar til málið fer að vinda upp á sig og Héðinn dregst inn í alþjóðlegt samsæri þar sem fyrrum meðlimir þýska nasistaflokksins, íslensk ríkisstjórn og ísraelska leyniþjónustan Mossad koma við sögu.

Glæpasögur eiga það til að villa á sér heimildir.

Glæpasagan er frásagnarform sem gæti virst einfalt við fyrstu sýn en er mun flóknara en margur gæti haldið. Það er ekki endilega svo einfalt að skapa  fléttu sem er mátulega flókin, forðast misræmi og lenda sögunni þannig að allt gangi upp og virki sannfærandi án þess þó að niðurstaðan sé fyrirsjáanleg.  Sumar glæpasögur eru þess eðlis að oft er ekki alveg ljóst hvort um er að ræða sögu sem snýst um glæp og eltingaleik við þann seka, eða hvort þarna sé saga sem snýst að litlu leyti um glæp en þeim mun meira um sálfræðiflækjur aðalpersónanna, fjalla jafnvel um fortíð og flækjur lögreglumannanna, sem koma glæpnum sem slíkum lítið við og bæta engu við.  

Maðurinn frá Sao Paulo er ekta krimmi og fantagóð sem slík. Persónusköpunin er hnitmiðuð, engu púðri eða tíma er sóað í dýpt persónunnar Héðins, við fáum að vita það sem okkur nægir að vita. Héðinn er ungur, húmorískur og metnaðargjarn. Hann býr einn, daðrar við skrifstofudömuna á skrifstofu yfirmannsins, reykir Viceroy í hörðum, er bílaáhugamaður, fer stundum á svig við reglur og klæðist frekar leðurjakka en einkennisbúningi lögreglunnar. Ekki er verið að eyða tíma í samskipti hans við fyrrverandi kærustur eða drama úr fortíðinni. Maður er myrtur, Héðinn mætir á svæðið og ákveðið ferli fer af stað. Hins vegar nær Skúli að dýpka persónur þegar sagan þarf á því að halda. Við fáum innsýn í fortíð þjóðverjans Karls Gunthers og leyniþjónustu mannsins Yadins, enda er þeirra fortíð afskaplega þýðingarmikil fyrir framgang sögunnar. Fléttan er skemmtilega unnin en fljótlega í sögunni fær lesandinn að vita hvað átti sér stað í leigubílnum. Morðið sjálft er aðeins lítill hluti atburðarrásar sem fær lesandann til að tvístíga. Það er virkilega langt síðan ég las glæpasögu sem ruglar mig eins mikið í ríminu og þessi. Ég rokkaði fram og tilbaka í ágiskunum en var aldrei fyllilega viss. Efi Héðins og óbilandi trú Yadins togaði í mig sitt á hvað.   

My name is Bond, James Bond.

Sagan er að öllu leyti skáldsaga, skemmtilesning, þó að Skúli nýti atburði í mannkynssögunni og persónur sem lifðu og dóu þá má það ekki blekkja lesandann. Það þýðir ekki að lesa þessa bók með því hugarfari að atburðirnir séu í einhverju samræmi við raunveruleikann. Það hefur heldur ekkert upp á sig að horfa á frásögnina með því hugarfari að hún sé raunsæ að einhverju leyti. Verkferlar lögreglunnar í bókinni eru til dæmis í engu samræmi við verkferla lögreglunnar í raunheimum, bókin er njósnareifari sem tekur sér skáldaleyfi í einu og öllu.  Það er því ekkert sem á að virka trúverðugt svo því sé haldið til haga. Og það er hressandi og afslappandi. Héðinn minnir um margt á blöndu af James Bond og Morgan Kane, skúrkarnir frekar staðlaðir, einn með heilann í vöðvunum og annar mannlegri en lítill og pervisinn. Textinn er lipur og flæðir vel, Skúli er góður penni sem hefur gott vald á tungumálinu.

Ég hafði virkilega gaman af þessum krimma, hann var hressandi, á köflum fyndinn og ótrúlega ruglandi en skilur lítið eftir og slíkt er nauðsynlegt öðru hvoru, við getum ekki alltaf verið að innbyrða djúpan boðskap og við getum ekki alltaf hlaðið í heilabúið krefjandi spurningum sem samviskan krefst svara við. Það eina sem ég hefði viljað hafa öðruvísi er endirinn, ég hefði viljað að sagan hefði endað á hinn veginn án þess að ég vilji skýra það neitt nánar, þið skiljið sem lesið bókina til enda.

Ég hlakka til að lesa meira frá þessum höfundi, hann er hressandi og virðist átta sig á að krimmar þurfa ekki alltaf að vera djúpir og fullir af heimspekilegum vangaveltum, stundum er nefnilega gaman að gleyma sér bara í afþreyingunni. 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...