Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer
Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum, húð sem svitnar ekki og hennar æðsti tilgangur er að þjóna eiganda sínum, Doug. Doug lét hanna Annie sérstaklega fyrir sig í mynd fyrrverandi eiginkonu sinnar, og forrita sem kynlífs- og kúridúkku. Þess utan er Annie alveg eins og mennskar konur; hún á sér væntingar, vonir og þrár, er námsfús og forvitin og ef hún gerir eitthvað sem maka hennar líkar ekki mun hann drepa hana. En í tilfelli Annie er löglegt að drepa hana, enda er hún bara vél, eign Dougs, sem keypti hana til að þrífa húsið sitt og ríða.
Vél full mennsku
Í bókinni, sem sögð er út frá sjónarhorni Anniear, tekst höfundi listavel að sýna stöðu kvenna í nútímasamfélagi, en margar konur eru fjárhagslega háðar karlkyns maka, mega ekki fara út af heimilinu og verða að gera það sem þeim er sagt ef þær vilja lifa af. Hugur Annie er áhugaverður og raunsær, hún lærir stöðugt meira eftir því sem á bókina líður og lesanda er sýnt hvernig kynlífsdúkkuheimurinn virkar hægt og bítandi án þess að það verði óraunverulegt fyrir framvindu bókarinnar. Annie fer í viðgerðir og smurningu reglulega og í gegn um þær heimsóknir lærum við meira um hvernig hún virkar og um fólkið sem býr dúkkur eins og hana til, og þá sem kaupa þær.
Þá er líka heillandi hvernig lesandinn kynnist Doug í gegn um Annie, en hvernig hún sér hann breytist eftir því sem persóna hennar þróast og hún kemst í frekari kynni við umheiminn. Persóna Doug er mjög raunveruleg; ungur, hvítur karlmaður sem finnst fyrrum eiginkona hans hafa gert sér óleik og telur jafnvel að allt kvenkynið skuldi honum eitthvað.
Kynþáttur, kyn og gervigreind
Þá er hlutverk kynþáttar sérlega áhugaverður vinkill, þar sem Doug lætur gera Annie svarta eins og fyrrum eiginkonu sína, en þó ljósari en fyrirmyndina. Mér finnst spekúleringaskáldsögur oft gleyma að hugsa um kynþátt, annað hvort eru bara allir hvítir eða það er látið sem kynþáttamisrétti hafi lagast eða gleymst áður en bókin varð til. Það að halda þessari spennu á milli hvíts karlmanns, svartrar eiginkonu og svarts vélmennis gerir bókina enn raunsannari og vekur upp fleiri spurningar um stöðu fólks í samfélaginu, ekki eingöngu eftir kyni heldur einnig kynþætti og efnahagsstöðu.
Bókin er ekki löng en ósköp grípandi, persónur eru raunverulegar (líka þær sem eru vélmenni) og ádeilan liðast léttilega um bókina án þess að lesandi sé sleginn í hausinn með boðskapnum. Ég myndi alveg örugglega lesa þessa bók aftur, en hún er akkúrat sú tegund af vísindaskáldskap sem ég fíla – allt er ósköp venjulegt nema eitthvað eitt eða tvennt sem er nýtt og vekur mann til umhugsunar um stöðu mennsku, siðferðis og samfélagsins í heild.
Fullkomin fyrir: Lestur til að slaka á en fá samt svolítið að hugsa um. Aðdáendur mjúks vísindaskáldskapar, náframtíðarsagna og spökuleringaskáldskap, sem og almennir lesendur ættu að njóta.