Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska sjávarbænum Crow-on-Sea. Hvers vegna í andskotanum, spyr sannglæpasamfélagið, blaðamenn, fjölskyldur, vinir og hinn síglæpaþyrsti almenningur.
Smánaði blaðamaðurinn Alec Carelli býst til að svara.
Hver iðrast hvers?
Penance er skrifuð eins og um raunverulegt sakamál sé að ræða. Frásögnin hefst á lýsingu glæps eins og hann hafi gerst í raun, sökudólgarnir bera ekki nöfn heldur eru skráðir sem Stúlka A, Stúlka B og Stúlka C. Farið er yfir málsatvik á kaldan og fjarlægan hátt, rétt eins og um skýrslu sé að ræða. Við kaflaskil er skipt yfir í transcript af glæpahlaðvarpsþætti, sem nær að fanga það sjúka við að nota sanna glæpi sem afþreyingu. Þá tekur sögumaður bókarinnar, Alec Carelli, við keflinu, og fer að segja sína sögu. Hann segir lesendum frá því hvernig hann skaust upp á stjörnuhiminn sannglæpasagnahöfunda eftir að hafa starfað um árabil sem blaðamaður og hvernig hann missti orðspor sitt og æru við að vera viðriðinn hlerunarmál.
Í ljós kemur að Alec er sá sem mun tengja bókina saman fyrir lesendur, en hann er að skoða morðmálið sem var kynnt í byrjun bókar, þar sem þrjár sextán og sautján ára stúlkur pyntuðu og myrtu skólasystur sína og brenndu hana svo til dauða. Alec lítur á þetta mál, sem af einhverjum ástæðum hefur lítið verið fjallað um, sem tilvalið tækifæri fyrir sig til að skrifa bók sem mun slá í gegn. Hann ætlar að hreinsa mannorð sitt og skrifa bók sem mun koma honum aftur á kortið.
Morð og sagnfræði
Kaflarnir skiptast á milli persóna, og heita eftir meintum sökudólgum, stúlku A-C, og svo stúlku D, sem var viðriðin málið óbeint. Carelli tekur viðtöl við stúlkurnar, við foreldra þeirra, við kennara og félaga, systkini og fólk í litla bænum þar sem morðið átti sér stað. Þessi nálgun er stundum svolítið brotakennd en þó á heildina góð leið til að segja sögu út frá alls konar sjónarhornum. Til að mynda er áhugavert að sjá hvernig mamma stúlkunnar sem var myrt lýsir henni og hvernig stúlkurnar sem myrtu hana lýsa henni á gjörólíkan hátt. Það sem truflar mig örlítið við lesturinn er ofsalega langdregnar söguskýringar á bænum, allt til víkingatíma, og þar sem ekkert af þessu er í raun satt er mér erfitt að þykja saga bæjarins nægilega heillandi til að eiga skilið svona rosalega mikið pláss á blaðsíðunni. Þá er saga dáins frænda stúlku D alveg áhugaverð, en maður spyr sig hvers vegna hún er í bókinni?
Satt eða logið?
Svo er það „eftirmáli“ bókarinnar sem dregur svolítið úr sannleiksgildi frásagnar Carelli sem truflar smá, en ég hefði viljað krydda frásögnina með brotum úr viðtalinu við hann og greinum um hversu lágt hann leggst sem rannsakandi frekar en að skella því öllu aftast. Með því að enda á því eftir að hafa fylgt honum út bókina fer lesandi að efast óþarflega um hvað sé satt og hvað ekki, en hefði hann fengið færi á að spyrja sig að því í gegn um frásögnina væri bókin sterkari.
Bókin er flott ádeila á true crime, og sýnir hvernig hægt er að gera skáldaðar glæpasögur í true crime formi, sem vonandi hlífa aðstandendum við áhrifum þess að sjá harmleikjum fjölskyldna sinna og vina breytt í afþreyingu.