Spennusagan Bylur er önnur bók höfundarins Írisar Aspar Ingjaldsdóttur sem hefur áður gefið út spennusöguna Röskun árið 2019 en þá skáldsögu er einmitt verið að kvikmynda þessa stundina.

Bylur fjallar um fjölskylduföðurinn Berg og leikskólakennarann Öldu. Þau segja söguna í fyrstu persónu, en kaflarnir skiptast bæði á milli þeirra sjónarhorna og svo á milli tveggja tíma, fortíðar og nútíðar.

Þá og nú

Í þátíðinni segir Alda frá lífi sínu sem einstæð móðir sem hefur hafið samband með Gunnari, pottþéttum gaur sem gerir allt rétt samkvæmt blaðinu en henni finnst ógurlega leiðinlegur.

Alda er sjálf róttæklingur og er mikið á móti hefðbundnum kapítalískum hlutverkum, annað en Gunnar. Bergur þátíðarinnar er löggildur fasteignasali og faðir Daníels, klárs og skemmtilegs leikskólastráks, og eiginmaður fatahönnuðarins Rögnu. Bergur átti erfiða æsku og unglingsár, en náði að snúa sér frá fíkn og almennum erfiðleikum og yfir á beinu brautina. Bergur og Alda búa bæði í litlu bæjarfélagi utan Reykjavíkur sem ekki er nefnt á nafn, en er lýst sem samheldnu og kósý.

Borg óttans

Í nútíðinni eru bæði Bergur og Alda flutt til Reykjavíkur. Daníel litli er dáinn og Bergur er viss um að Öldu sé um að kenna, þar sem hún flutti snarlega til Reykjavíkur og sleit samskiptum við Rögnu. Bergur ætlar að ná sér niðri á Öldu fyrir að myrða son sinn og beinir spjótum sínum að unglingssyni Öldu, honum Styrmi, sem fer einnig með sögumannsrödd í nokkrum köflum. Styrmir er, ólíkt móður sinni, mjög ferkantaður, reglusamur og skynsamur, og virðist hann vera í hlutverki foreldrisins fremur en mamma hans.

Draugar fortíðar

Þegar líður á söguna fáum við að vita meira um fortíð allra persónanna og aðdraganda slyssins sem leiddi til dauðsfalls Daníels. Fléttan er vel spunninn, textinn skemmtilegur, léttur, fyndinn og auðlæsilegur. Persónurnar hafa hver sína rödd, sem er eitthvað sem skilar vel mismunandi hugarástandi og áherslum. Nóg er af vísbendingum í bókinni til að lesandi geti leyst fléttuna, en þær eru vandlega settar inn og á lúmskan hátt svo það er alls ekki augljóst hver á í hlut og hvers vegna. Þá er sérlega vel farið með lýsingar á geð-  og fíknisjúkdómum, og gerendur eru ekki einfaldaðir í skrímsli heldur eru breyskir og fullmótaðir.

Persónuleikar

Eitt af því skemmtilega við bókina er hversu vel karakter Daníels er lýst, en höfundur hefur mikið lag á að gera persónu lítils barns góð skil, með öllum þeim húmor og lífi og þversögnum sem fylgja litlum krökkum. Daníel er ekki of mikill snillingur, eins og stundum verður með uppskálduð börn, heldur er hann lifandi og raunsær og svo fullmótaður að það er virkilega sárt að vita að hann muni deyja ungur. Styrmir er á sama hátt mjög vel heppnaður og raunsannur, en ég er aðeins minna hrifin af Öldu, sem er eins og gangandi staðalmynd um rótlausa konu sem aðhyllist róttækar hugsanir með hangandi hendi og er á sama tíma óábyrg móðir. Margir eru róttækir og andkapítalískir án þess að gleyma að hugsa um börnin sín, en það er Alda okkar því miður ekki. Bergur verður á hinn bóginn raunsærri, og sérstaklega finnst mér mikilvægt að hafa enda bókarinnar eins og hann er, án þess að kjafta frá því hvernig fer, því endirinn gefur okkur heila mynd og kjarnar okkur í raunveruleika.

Þegar allt er tekið saman

Bókin er hæfilega löng, ekki er eytt tíma  í óþarfa málalengingar eða að tyggja plottið ofan í lesanda. Sagan ber höfuð og herðar yfir vel margar spennusögur skrifaðar af okkar þekktustu höfundum þessa dagana. Ég mæli sérstaklega með lestri hennar í sumarfríinu fyrir þá aðdáendur spennusagna sem vilja skemmta sér vel í góðri fléttu.

Lestu þetta næst

Off the Grið

Off the Grið

Aftenging er fyrsta bók lögfræðingsins Árna Helgasonar og kom út hjá Bjarti á dögunum. ...

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...