Brothætt líf

27. september 2025

Önnur ljóðabók Sunnu Dísar Másdóttur, Postulín, kom út á dögunum. Sunna hefur getið sér gott orð sem skáld, bæði með einstaklingsverkum sínum, ljóðabókinni Plómum og skáldsögunni Kul, og með verkum sem hún hefur unnið með skáldahópnum Svikaskáldum.

 

Postulínsheimur

Ljóðabókin Postulín er falleg á allan hátt. Bæði kápan og uppsetningin er mínímalísk en um leið sterk, engri línu er ofaukið, eða litbrigðum, letrið fellur að umhverfi kápunnar eins og steinar landslagi. Þá eru ljóðin sjálf úthugsuð og hvert orð er á réttum stað og stendur sterkt og fullkomið, ljóðlínurnar meitlaðar úr bergi tungumálsins þar til berar rætur tilfinninganna standa einar eftir. Bókin lest best sem heild, sem saga sem vindur ofan af söguþræðinum með hverri síðu. Lesandi mætir ljóðmælanda vörum um sig, tilbúnum að opna á sárin sín en óviss um hvar skal byrja. Ljóðmælandi leggur línurnar, reynir að bjóða upp á samhengi við ókominn sársauka, allt sem er sagt undir rós fyrst um sinn er afhjúpað þegar á líður.

Venjulega myndi ég láta nokkur ljóð fylgja með þessari færslu, en mér finnst eins og það að taka ljóð héðan og þaðan úr bókini geti bæði spillt fyrir lesendum afhjúpunum bókarinnar sem og dregið úr ljóðunum með því að taka þau úr samhengi.

 

Sorg og sannleikur

Bókin er mjög sorgleg en um leið falleg, hún hittir á þennan fínlega þráð sammannlegrar upplifunnar þar sem þjáningin er svo hrein og mannleg að hún verður falleg í óbærileika sínum. Við hittum fyrir dauðann sjálfan og lærum á hegðun hans, hvernig hann kemur og tekur pláss hvort sem honum er boðið inn eða ekki. Við hittum fjöllin sem nötra og skjálfa í takt við mannshjartað, þránna sem er grafin djúpt í steinhjarta jarðarinnar, rétt eins og í hjörtum okkur mannanna þegar við leitum svara við spurningum sem enginn getur tekist á við af yfirvegun.

Postulín er gegnumgangandi þema í bókinni, hreinleiki þess og viðkvæmni, styrkur og þol kallast á við sömu eiginleika í náttúrunni og í mönnunum. Myndmál bókarinnar er fallegt og sterkt, nýjum myndum er varpað fram og gömlum á nýjan hátt, hugtök sem lesandi taldi sig þekkja öðlast nýtt líf í færum höndum Sunnu Dísar.

Ég hvet alla ljóðaunnendur til að lesa þessa bók og njóta fegurðarinnar. Sunna Dís á mikið hrós skilið fyrir vel unnið verk og tekur sér verðskuldaða stöðu í fremstu röð íslenskra skálda með þessu fallega listaverki. Þó vil ég vara lesendur við að bókin er sorgleg, og ef lesandi er í tilfinningalegu uppnámi eða viðkvæmri stöðu er kannski betra að bíða með lesturinn um stund.

Lestu þetta næst

Off the Grið

Off the Grið

Aftenging er fyrsta bók lögfræðingsins Árna Helgasonar og kom út hjá Bjarti á dögunum. ...

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...