Gefum unglingum bækur. Þetta er svona einfalt.
Auðvitað ættum við helst að gefa öllum bækur því þær eru frábærar en í þessum pistli ætla ég að einblína á af hverju bókagjöf til unglings er virkilega góð hugmynd. Sem höfundur ungmennabóka er ég auðvitað ekki hlutlaus þegar kemur að þessu en ég hef mikla ástríðu fyrir málefninu, bæði sem rithöfundur en líka sem lesandi.
Vilja unglingar lesa?
Það vildi svo til að árið sem ég gaf út mína fyrstu bók vann ég í bókabúð. Þar mættu mér ýmis viðhorf gagnvart unglingabókum og eftirfarandi atvik átti sér stað. Eldri kona bað mig um að hjálpa sér að finna gjöf fyrir fjórtán ára barnabarnið sitt. Ég var himinlifandi og byrjaði á að sýna henni bækur. Konan var heldur betur hissa á mér.
„Ég gef ekki unglingum bækur, það er peningaeyðsla,“ sagði konan og hló. „Þau vilja bara vera í símanum.“ Ég var svo hissa að ég spurði hana næstum því hvað hún væri þá að vilja í bókabúð. Þessi orð hennar hafa setið í mér síðan og ég var mjög hugsi yfir þessu, sérstaklega þar sem þetta er ekki í eina skiptið sem ég hef heyrt eitthvað þessu líkt.
Síðan þá hef ég talað við unglinga í kringum mig sem flestir segjast hafa mjög gaman af því að lesa. Einnig hef ég talað við fagfólk á bókasöfnum og skólabókasöfnum. Þau vilja líka meina að börn og unglingar vilji lesa! Vandræðin eru frekar skortur á efni á íslensku sem börn og unglingar hafa áhuga á en það er efni í annan pistil.
Önnur hindrun í þessu öllu er að þessi hópur kaupir sér ekki endilega sjálfur bækur. Hér kristallast hlutverk fullorðna fólksins.
Gefum unglingum bækur. Bókakaup eru að mínu mati ekki peningaeyðsla því rétta bókin gæti breytt öllu.
Virkjum hvort annað – verum fyrirmynd
Það er ekki hægt að horfa á unglinga í símanum og fussa yfir því að þeir lesi ekki. Við þurfum að vera fyrirmynd og halda bókum og lestri að börnum okkar. Sem foreldri veit ég sjálf að það er ekkert grín að finna tíma í asa hversdagsins til að setjast niður og lesa. Það eru allir á milljón! En hérna er kannski gullið tækifæri til að reyna að búa til símalausa samverustund þar sem allir lesa sér til yndisauka.
Við verðum líka að aðlaga okkur að breyttum tímum. Það er hægt að benda unglingum á bókahliðina af samfélagsmiðlum, til dæmis booktok og bookstagram, sem hafa sprungið út síðustu ár. Það má heldur ekki gleyma því jákvæða. Þökk sé þessum miðlum þá hafa unglingar ratað inn í lestrarsamfélög og fundið bækur sem tala sterkt til þeirra. Fyrir utan það þá þekki ég líka fullorðið fólk sem byrjaði aftur að lesa eftir að hafa fylgst með þessum bókatengdu miðlum.
Gefum unglingum bækur. Af því að við erum bókelskandi þjóð, er það ekki?
Úr óbeit yfir í ástríðu
Þegar ég var ung þá þoldi ég ekki að lesa. Mér fannst bækurnar í skólanum ekkert spennandi og svo átti ég líka erfitt með lestur. Ég fékk bækur í jólagjöf ár eftir ár og þær sátu óhreyfðar í neðstu hillunum í herberginu og söfnuðu ryki. En ein jólin opnaði ég bók sem mér var gefin. Hún greip mig frá fyrstu setningu og ég las hana alla. Síðan fór ég beint að rykugu hillunni og tók næstu bók og þá næstu þar til ég var búin með þær allar. Þetta var augnablikið sem ég uppgötvaði töframátt bóka og þessa reynslu er ekki hægt að meta til fjár. Það þarf bara eina bók til að kveikja áhugann.
Gefum unglingum bækur. Jafnvel þótt þau lesi þær ekki strax þá gætu þau gert það seinna.
Bækur breyta lífum
Ég trúi því að það séu til bækur fyrir alla. Þær bestu grípa mann á fyrstu blaðsíðu og þá er björninn unninn. Bækur geta snert við okkur, gefið okkur hugmyndir og innblástur og eru veganesti út í lífið. Þær breyta lífum. Allavega breyttu þær mínu lífi svo mikið að barnið sem hafði óbeit á lestri er orðinn rithöfundur í dag.
Gefum unglingum bækur. Af því að lítill neisti getur kveikt mikið bál.






