Hvað er ást?

Árið 2023 kom út bókin Hvernig er koss á litinn? en í henni langar ungri stúlku að mála koss en veit ekki hvernig hann er á litinn. Upphefjast miklar pælingar um það í kjölfarið en bókin er stútfull af litagleði og húmor. Árið eftir kom út bókin Lillaló, leiðist þér? en í henni reynir Lillaló að finna eitthvað að gera. Hún leitar af einhverjum til að spyrja um hvað hún geti gert til að leiðast ekki og það vill svo til að hún  finnur upp á allskonar skemmtilegu í kjölfarið.

Bækurnar eru gefnar út af Kvisti sem sendir frá sér þriðju bókina í ár, Lillaló, hvað er ást? Höfundur bókanna er Rocio Bonilla sem fæddist í Barcelona. Hún hefur gefið út yfir fimmtíu bækur og hafa þær verið þýddar á yfir þrjátíu tungumál. Bækurnar koma út í vandaðri þýðingu Svanlaugar Pálsdóttur.

Lillaló

Nýjasta bókin segir frá ungu stúlkunni Lovísu sem er allaf kölluð Lillaló. Hún á erfitt með að skilja þegar fullorðna fólkið talar um ást. Í bókinni vandræðast hún með að átta sig á því hvað ást er, enda er ekki hlaupið að því að skilja þetta hugtak. Hún kemst þó að því að ástin getur verið margt samtímis.

Vönduð og falleg

Bókin er harðspjalda og kemur út í stærra umbroti en fyrri tvær bækur. Ekki er mikill texti í bókinni svo hún hentar vel til upplesturs fyrir börn á leikskólaaldri  eða fyrir börn sem eru að byrja læra að lesa.

Myndirnar eru bæði fallegar og vandaðar, alveg eins og í hinum bókunum um Lilluló.  Litirnir á myndunum eru lágstemmdir en teikningarnar fá vel að njóta sín en Rocio Bonilla er bæði höfundur og myndhöfundur bókanna. Lillaló er með fjörugt ímyndunarafl sem birtist á svo skemmtilegan hátt á myndunum.

Hnyttin og ljúf

Bókin Lillaló, hvað er ást?  er hnyttin, ljúf og uppfull af gleði. Lillaló er forvitin stúlka sem er ekki hrædd við að spyrja spurninga og kanna heiminn. Bókin endurspeglar einlæga forvitni og áhuga barns á því sem er að gerast í kringum það á svo fallegan hátt. Svona vandaðar og myndríkar barnabækur eru dýrmæt viðbót inn í bókmennaflóru landsins.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...