Í Tjarnarbíó rís Brúðubíllinn upp frá dauðum. Þessi klassíska barnaskemmtun sem hefur vakið kátínu svo lengi sem elstu menn, eða alla vega ég, muna og heldur nú aftur á götur bæjarins, og leiksvið Tjarnarbíós, eftir fjögurra ára pásu.
Að sýningunni standa Hörður Bent Steffensen og Lalli töframaður en þeir bregða sér í allra kvikinda líki. Ef Steffensen nafnið hljómar kunnuglega þá gæti það verið vegna þess að Hörður er barnabarn Helgu Steffensen sem samdi handritið og stýrði brúðubílnum um áraraðir. Einnig hannaði Helga brúðurnar og búningana, nema búning apans Dúsks, sem er hannaður af Lenu Dís Jónsdóttur. Þá er verkinu leikstýrt af Sigrúnu Eddu Björnsdóttur og sömu gömlu raddir og áhorfendur þekkja úr fyrndinni tala fyrir brúðurnar, auk Harðar.
Fullorðna fólkið ekki markhópurinn
Sýningin er 45 mínútur og er mér sagt af heimildarmönnum að ég hafi notið hennar í botn upp úr 1994. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það, en nú, 31 ári seinna er ég mun minna hrifin. Brúðurnar eru einhverskonar meistaraverk ókennileikans, sem minna á anómótrónískar hryllingsverur eins og þær í Five Nights at Freddie‘s eða Willy‘s Wonderland. Frosin andlitin, lauslega morknuð málningin, snjáðir gallarnir sem aumingja Hörður hlýtur að fá lungnaskemmdir við að anda í gegn um, ókennilegar hreyfingar og skrækar raddirnar, allt öskrar þetta á mig hryllingur. Og er það bara ég eða er Svarti Svalur kóðaður sem svartur glæpamaður, með gullkeðju um hálsinn og lokka í eyrum? Nei, ég bara spyr. En sem betur fer er ég ekki markhópurinn. Ekki lengur. Ný kynslóð hefur tekið við og sem betur fer tók ég hana með mér í leikhúsið.
Sátu dolfallin
Vindum nú leikdómnum til sonar míns, hins þriggja ára Amo Dankwa. Samkvæmt honum er þetta það besta sem nokkru sinni hefur verið sett á svið. Töfrarnir eru ótrúlegir, nándin við leikarana spennandi, brandararnir ógeðslega fyndnir og boðskapurinn sterkur og hvetjandi. Hann telur sig einnig hafa lært heilmikið um hafið, eins og til dæmis að úlfar búi ekki í sjónum, og ég verð að játa að það er alveg rétt hjá honum. Svo virtist sem hinir ungu áhorfendurnir væru alveg jafn hrifnir og Amo minn, en þeir sátu dolfallnir og klöppuðu og svöruðu brúðunum þegar þær spurðu einhvers. Sýningin er svo auðvitað á góðu og fallegu máli, sem skiptir máli í hörðum heimi þar sem íslensk skemmtun virðist alltaf vera af skornum skammti í baráttunni gegn enskunni sem herjar á. Svo eru 45 mínútur frábær lengd til að byrja að þjálfa lítil börn í leikhússetum og þetta tilvalin sýning til að byrja á ef einhvern langar að kynna ungan ættingja fyrir töfraheimi leikhússins.





