Sögur til næsta bæjar: Bókaormurinn

12. janúar 2026

Bókaormurinn

Eftir Svavar Daðason

Ég þarf hjálp.

            Ég er búinn að ná hinum víðfræga botni. Konan mín er farin frá mér, börnin mín tala ekki við mig og vinir og ættingjar forðast að hitta mig. Ég er búinn að missa húsið og vinnuna og bókasöfn taka ekki við mér.

            Þetta átti auðvitað ekki að fara svona. Ég byrjaði, eins og aðrir, bara á að fikta. Í gríni sem varð síðan alvarlegra og ágerðist með tímanum. Ég man eftir fyrsta skiptinu. Ég sat með konunni minni og vinahjónum okkar á fínum skemmtistað á efstu hæð með útsýni yfir Austurvöll. Við höfðum komið okkur makindalega fyrir úti á svölum með kampavínsflösku og ég var ekki búinn að borða neitt allan daginn.

            „Shit Marta, ég er svo svangur að ég gæti bókstaflega étið þessa bók!“ sagði ég við konuna mína hlæjandi og benti á gamla, snjáða skruddu sem lá á borðinu sem við sátum kringum. Við vorum öll búin að fá okkur duglega af flöskunni og Halldór vinur minn kláraði úr glasinu sínu, kveikti sér í mjórri myntu sígarettu og tók stóran smók. Síðan blés hann út um vinstra munnvikið og horfði á mig glottandi.

            „Ég skal borga þér fimmtíu þúsund kall ef þú étur þrjár blaðsíður úr henni.“

            „…ertu að djóka í mér?“

            „Mér hefur aldrei verið jafn alvara á ævi minni. Fimmtíu þúsund kall. Ég er með hann í veskinu!“

            Marta og Lína horfðu á hvor aðra og hlógu ógurlega að þessu öllu saman. „Djöfull eru þið ruglaðir strákar!“ sagði Lína brosandi og fékk sér sopa af víninu. „Allt eðlilegt hér!“ hnussaði í Mörtu sem kveikti sér í sígarettu. Ég vissi samt að Halldór var ekki að grínast. Ég hafði séð þetta augnaráð áður. Ég horfði djúpt í augun á honum og lyfti bókinni. Opnaði hana og reif úr þrjár blaðsíður af handahófi. Ég heyrði í stelpunum hlæja taugaveikluðum hlátri og biðja mig um að leggja blaðsíðurnar frá mér en ég ætlaði ekki að guggna. Ég horfði á Halldór á meðan ég tróð síðunum upp í mig, fann dauft bragð af gulnuðum blaðsíðunum og hvernig þær urðu linar uppi í mér. Bragð af gömlu bleki að leysast upp fyllti munninn á mér og ég fann skánina myndast á tungunni. Ég heyrði klið í kringum mig og áttaði mig á því að fleiri voru farnir að horfa á mig.

            „Hvað ætli sé að?“ heyrði ég hrópað við hliðina á mér og síðan hrossahlátur berast úr sömu átt.

            Samt sat Halldór þarna hreyfingarlaus. Ég hélt enn augnsambandi við hann og tuggði af áfergju. Ég þurfti að tyggja hverja síðu oft og mörgum sinnum, fyrst var eins og þær löguðu sig að tönnunum. Þær voru seigar ég viðurkenni að í upphafi voru þær ekki sérlega lystugar. Ég veit ekki hvað þetta tók langan tíma en þetta leið eins og heil mannsævi. Þegar ég loksins kyngdi síðasta bitanum og sýndi öllum sem sjá vildu að ég hefði borðað blaðsíðurnar sá ég að hann var loksins farinn að brosa og hlæja. Ég meina þá að hann hristist allur og grét óstjórnlega af gleði yfir þessu gríni hjá mér.

            „Hahaha, djöfull ertu ruglaður maður!“ sagði hann þegar hann náði andanum. Hann þurrkaði gleðitárin úr augunum, stóð upp, náði í veskið og taldi seðlana, setti þá í lófann minn og kyssti mig blautum rembingskossi á hægri kinnina. „Alveg vangefinn,“ sagði hann og sótti meira kampavín. Ég og Marta fórum heim stuttu eftir þetta. Hún skammaði mig og sagði að þetta væri bæði heimskulegt og hættulegt en ég hló að þessu og sagði henni að ég myndi auðvitað ekki gera þetta að vana.

            En ég vissi þá strax að þetta væri eitthvað ótrúlegt sem ég yrði að endurtaka.

            Það liðu nokkrir mánuðir þar til þetta gerðist aftur. Þá var ég nýkominn heim úr vinnunni og hafði verið að velta þessu fyrir mér. Marta var í helgarferð í Köben og börnin voru í pössun. Ég hafði farið í Eymundsson og keypt mér „spennusögu“ eftir höfund sem ég þekkti ekki og hún var svo léleg að ég varð að gera eitthvað drastískt. Bókin var örugglega fjögur hundruð blaðsíður en ég sat þarna við stofuborðið og gúffaði í mig eins og óður maður. Ég held ég hafi farið í blakkát. Þetta var víma sem ég hafði aldrei upplifað áður og blaðsíðurnar bara hurfu ofan í mig. Ég man bara eftir að hafa setið við stofuborðið með örfáar tætlur hér og þar og tóman kjölinn fyrir framan mig. Ég upplifði frumstæða sælutilfinningu um allan líkamann. Ég var með bleksvertu niður á háls.

            Eftir þetta varð ég tíður gestur í bókabúðum borgarinnar. Ég keypti alls konar bækur og át þær þegar tækifæri gafst. Ég át allar bækur sem ég komst í. Ég var lengi að melta Stríð og frið, A Song of Ice and Fire bálkurinn rann ljúft niður og ég hámaði The Secret History í mig. Sally Rooney skilur alltaf vont bragð eftir í munninum en það besta sem ég fæ eru ljóðabækur.

            Ég flaug of nálægt sólinni. Marta mín var orðin hissa á að ég kæmi heim drekkhlaðinn pokum frá Eymundsson þegar ég var nýbúinn að segja að ég gæti ekki farið í matarbúð vegna þess að ég ætti ekki peninga til þess. Pallurinn sem við ætluðum að byggja varð að engu því ég þurfti að fjármagna fíknina. Ég var meira segja farinn að éta viðkvæmar skýrslur í vinnunni þegar enginn sá til. Ég var orðinn svo spenntur fyrir jólabókaflóðinu að ég talaði ekki við Mörtu þegar hún gaf mér ferð til Parísar í staðinn fyrir ritsafn Jóns Trausta eins og ég bað um (ég ætlaði að fá mér almennilegan jólamat þegar allir væru sofnaðir).

            Auðvitað komst á endanum upp um mig. Marta labbaði inn á mig að úða í mig Arnaldi, Yrsu og Ragnari Jónassyni aðfaranótt þrettándans. Hún sagðist aldrei hafa verið hrædd við mig fyrr en þarna, þar sem ég sat í sófanum, froðufellandi og gúffandi léttmetinu í mig.

            Ég spíralaði eftir þetta og missti á endanum tökin. Ég var rekinn úr vinnunni fyrir að éta ársreikning félagsins áður en það tókst að ljósrita hann og Marta fór með börnin eftir að yngri dóttir mín þurfti að útskýra fyrir kennaranum sínum, tárvot, að það var pabbi hennar sem át heimanámið hennar en ekki hundurinn.

            Nú sit ég einn í ógeðslegri leiguíbúð á Mýrargötu og skammast mín fyrir það sem ég er orðinn. Ég fer á bókasöfn borgarinnar vopnaður fölsuðum skilríkjum og gerviskeggjum og ét þær bækur sem ég kem höndum yfir. Krakkarnir sem bera út Morgunblaðið eru hætt að koma í götuna af ótta við að lenda í mér.

            Ég er skrímsli.

            En batnandi mönnum er best að lifa. Blýið er að klárast og þá legg ég síðustu söguna að vörum mínum. Guðmundur Jónasson mun ekki framar éta bækur.

 

…ekki nema ég komist í eitthvað sérlega bitastætt!

 

Svavar Daðason er íslenskunemi á B.A. stigi með ritlist sem aukagrein. Hann er uppalinn í Hveragerði en býr nú í Reykjavík eftir tveggja ára viðkomu í Berlín. Innblástur að sögunni kom frá ljóðinu Bókagleypir eftir Þórarinn Eldjárn.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í janúar 2026. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst