Háskalegur hvítur klaki
Eftir Sólborgu Erlu Ingadóttur
Hvítir vettlingar með „fluffy“ rauðbrúnum loðkanti taka ákveðnir um stýrið á fjörutíu og fjögurra tommu, breytta, vígalega vetrarjeppanum. Hún sér langt yfir, hátt uppi, örugg í rauða bílnum klæddum hvítum kösturum. Konan hefur ekki augun af klakalagðri götunni. Dauft bros læðist fram á varir hennar þegar þau hristast yfir ójöfnurnar. Henni er orðið allt of heitt í hvítri dúnúlpunni svo hún teygir sig í hvíta húfuna og hendir henni í sætið við hliðina á. Út um gluggann horfir hún á snjóbyl síðustu daga bráðna ofan í jörðina.
Konan stígur mjúklega af bensíngjöfinni á bremsuna og vaggar í allar áttir innan í þýðum bílnum meðan hann hristist yfir klakaholurnar. Saltið er farið að éta sig í gegnum snjóinn og það glittir sums staðar í malbikið þegar hún hossast yfir snæviþaktar göturnar. Vatnselgurinn rennur ofan á snjóklakanum svo konan stígur varlega á bremsurnar þegar bíllinn skríður til á klakaskornum götunum. Vaggandi varlega í allar áttir þylur hún möntruna sína aftur og aftur í huganum. Loks sleppur hún út um varirnar og endurómar eins og bæn um bílinn.
„Heila stæði á malarstæðinu við háskólann, heila stæði á malarstæðinu við háskólann.“ Örugg um að „secreta“ til sín hvað sem er.
Varlega bíður hún færis að beygja inn á stæðið og að sjálfsögðu er gott stæði laust fyrir hana nálægt grasbalanum aftast, þar sem stóru jepparnir, ferðabílarnir og rúturnar leggja alltaf. Konan í hvítu dúnúlpunni rennir bílnum í stæðið, setur hann í park, svissar svo bílnum af og slekkur á ljósunum. Opnar hurðina, fótar sig á klakakrapinu sem þekur breitt stigbrettið, mjallhvítir vetrarskórnir skera sig frá drullubrúnu brettinu. Hljóðlaust stekkur hún niður á snævi þakið, hvítt planið alsett svörtum doppum. Hún læsir bílnum með lyklinum upp á gamla mátann með því að snúa honum í læsingunni.
Hvítklædd konan, frá toppi til táar, mælir út svarthvítt planið fyrir framan sig um leið og hún stígur varlega á hvíta hálkuna. Skref fyrir skref færast hvítu skórnir áfram og sporin mynda doppóttan krákustíg eftir planinu alveg út á götu. Nánast ósýnileg í fönninni arkar konan varlega áfram brothætt í blautri hálkunni. Brakandi leitar fóturinn varlega að fótfestu ofan í ótroðnum snjónum með fram göngustígnum og arnaraugu leita svo að næsta sandfláka ofan á troðnum snjónum. Skref fyrir skref liðast hún upp göngustíginn við hringveginn að Aðalbyggingunni. Hún lítur upp og rekur upp stór augu þegar hún sér stjúpdóttur sína.
„Hæ, varstu með strætó?“ segir konan og lítur upp á hávöxnu stúlkuna.
„Hæ, ég tók ekki eftir að þetta væri þú!“ Stúlkan horfir undrandi á stjúpu sína.
„Hvenær ertu búin í vinnunni? Á ég ekki að skutla þér heim, þegar þú ert búin?“
„Um klukkan tvö.“
„Er það, en frábært, ég er líka búin klukkan tvö.“
„Hjúkket, það væri rosalega fínt að fá far.“
Eins og tvö hvít skip renna þær fram hjá hvor annarri og horfa um öxl. Varlega sigla þær áfram frá hvor annarri. Unga stúlkan kjagar áfram með hvíta kápuna flaksandi frá sér í kuldanum og geislandi koparhárið slegið niður á bak. Hún passar vel upp á bumbubúann sem kápan nær ekki alveg utan um.
„Bara vika eftir í vinnunni og svo er ég komin í barneignarleyfi.“
„Við verðum í bandi um klukkan tvö.“
Fet fyrir fet færast fætur stjúpunnar áfram upp brekkuna þar sem langþráð öryggið við Háskólatorg blasir við. Upphitaðir göngustígar! Hvítklædda konan hraðar sér inn í notalegheitin í Hámu, tekur upp nýju tölvuna og sekkur sér ofan í greiningar á skáldsögum.
Klukkan rúmlega tvö keyrir konan inn Sæmundargötu í leit að stjúpdótturinni. Hálkan hefur heltekið götuna. Friðsemd bíður við stórhýsi Alvotech og vogar sér ekki út á glerhálan veginn. Konan kemur auga á hana handan götunnar en þorir ekki að snúa jeppanum á staðnum. Hún getur loks beygt inn á bílastæði Alvotech, þar sem henni tekst að snúa honum í hálkuflákanum og komast til baka til ungu stúlkunnar. Langar lappir Friðsemdar eru í engum vandræðum með að vippa sér upp í hækkaðan jeppann þrátt fyrir að hún sé komin á steypirinn. „Aaaah“ dettur upp úr Friðsemd um leið og hún hallar sér aftur í sætið, umvafin áru kyrrðar og hljóðlausrar hamingju, greinilega dauðfegin að fá far heim.
Þær spjalla rólega um daginn og veginn meðan hvítklædda stjúpan keyrir varlega yfir klakann.
„Ég held að Hringbrautin og Kringlumýrabrautin séu alveg orðnar hreinar alla leið heim í Hafnarfjörð.“ Dettur upp úr henni um leið og hún forðast allar holurnar sem hún skemmtir sér venjulega svo vel við að hristast yfir.
Þær vagga varlega inni í hlýjum bílnum, krafturinn undir húddinu purrar þægilega og leiðir þær örugglega eftir hvítum götunum á áfangastað.
Síðasti spölurinn að heimili Friðsemdar er krúttleg lítil brekka, núna samfellt hvítt og hált klakastykki. Fljótandi ofan á klakanum rennur vatnið í allar áttir niður hallann eins og dauðagildra. Hún keyrir varlega upp litlu, þröngu brekkuna í miðbænum, alsetta klaka, dauðfegin að örlögin leiddu þær saman þennan dag til að koma stúlkunni og bumbubúanum ósködduðum heim. Hvítklædda konan finnur léttinn leika um allan líkamann, Friðsemd og bumbubúinn hefðu aldrei komist ósködduð upp þessa brekku ein og óstudd. „Þvílík heppni,“ hugsar hún upphátt, því Friðsemd er ferlega bílhrædd og óvön vetrarfærðinni. Það er líkt því að forsjónin hefði leitt þær saman í asahlákunni þarna fyrir framan háskólann. Friðsemd sem treysti sér ekki til að keyra sinn bíl í hálkunni og hvítklæddu konuna sem fór allt of snemma af stað til að verða örugglega ekki of sein í tíma. Stundum eru háskalegir hálkuvegir örlaganna órannsakanlegir.
***
Hvítt lífsblik
Eftir Sólborgu Erlu Ingadóttur
Það blikar á hvítt, lækna og ljósmæður, þegar Björk kemur fyrst inn í þennan heim, á ári trésins, fimmtán mínútum á undan bróður sínum. Þau tvibbarnir skutust með orgi út í lífið.
Krumpuð, pínulítil, saklaus kraftaverk.
*
Nokkrum mánuðum seinna voru þau færð í nákvæmlega eins hvíta handprjónaða blúndukjóla. Annar var skreyttur bleikum borða og hinn bláum; þeim voru gefin nöfnin Björk og Hlynur. Sama dag fengu þau sitt hvort tréð í garðinum hjá ömmu og afa.
Börnin urðu fljótt björt ljós í lífi allra sem hittu þau.
*
Hvít ljós heilluðu frá unga aldri, fyrst ljósin í loftinu, stjörnur himinsins og vasaljósin sem spennandi var að leika sér með. Um áramótin fengu þau að halda á stjörnuljósum. Þau brunnu skær í höndum þeirra örstutta stund, bjartari en stjörnur himinsins sem skinu niður á þau, fönguðu hjarta þeirra. Innan um stjörnurnar var dularfullur, stór og bjartur máninn sem vakti yfir þeim.
*
Tunglið hangir á himninum, stirnir á hvíta, kalda mánabirtuna. Snjókarlarnir fyrstu af mörgum rísa. Hlynurinn stingur steinum í snjóhvítan hausinn, festir bláan trefil og hatt. Trjágreinar Björkin finnur fyrir hendur, trefil og bleika húfu.
*
Við fermingu fengu þau hvítan kufl og hanska. Margir fengu sér ný hvít föt, kjóla, pils, skyrtur eða skó. Tísku – Björkin litla, spennt fyrir fermingunni, var fín í hvítum og rauðum kjól. Herralegur – Hlynurinn fékk sér hvíta skyrtu, jakkaföt og skó.
*
Björkin glæsta lýsti upp sumarið í hvítum gallabuxunum og hörfötunum. Hvítu bolina og skóna smeygði hún sér í um leið og sumarið nálgaðist. Hvítu íþróttasokkarnir settu svo punktinn yfir i-ið þegar sólin hækkaði á lofti.
*
Hlynurinn arkar afslappaður í hvítum bol og strigaskóm, hættur að klæða sig upp í kjól sem einn af Bjarkar – vinkonugenginu. „Dapper!“ Hlynurinn djarfi setur upp hattinn við hvítu hörjakkafötin.
Hvítu sumarfötin lyfta lundinni er dagurinn lengist.
*
Seinna skelltu flestar stelpurnar sér í hvítan kjól við brúðkaupið sitt og strákarnir nældu sér í hvíta skyrtu og blóm.
*
Hlynurinn og Björkin þeim fatast ekki flugið. Hvítvoðungar fæðast þeim sama ár. Jón Bjarki og Haukur Tumi eru heillandi, nánast eins og tvinna tvíburapar.
*
Loftið fyllist af fagnaðarköllum, það blikar á hvítar veifur og stjörnuljós í rökkrinu á Vatnsenda þegar Björk og Elli mæta í veisluna sína, búin að fara í ljósmyndatöku við Rauðavatn. Hún er umvafin hvítum blómum með brúðarvönd úr hvítum rósum. Björkin sveiflar hvítu pilsinu um gólfið og dansar glöð inn í hjónabandið á háu hvítu hælunum. Fyrir framan hvítan rósavegg festast veislugestir á filmu undir hvítum blossum frá ljósmyndavél, hláturinn fyllir loftið.
*
Stirnir á stjörnuljós og klingir í kampavíni. Hlynurinn hagyrti glaðlega myndir færir í orð. Björkin greinamarga óhemjuviljastyrk geymir og alltaf er hún til í eitthvað útivistar „bras“.
*
Brúðhjónin stilla sér upp og skera hvíta brúðartertuna með pompi og prakt. Kökuna umkringja hvítar og brúnar makkarónur ásamt girnilegum súkkulaðihjúpuðum jarðarberjum.
Hvítur draumur með súkkulaði.
*
Jafnvel presturinn var skrýddur hvítum messuklæðum yfir prestshempunni með rauða stólu (breiðan borða), í sömu litum og þegar hann og Hlynurinn hugrakki léku jólasveina fyrir okkur í „den“.
*
Björk hin hugdjarfa sem klífur óhrædd snævi þakta fjallstoppa, ísilagða kletta og rennir sér á skíðum niður fannhvítar brekkur milli þess sem hún rannsakar hvíta dropasteinshella í jörðu niðri.
*
Litla Björkin blómstrar hvítum rósum með stjörnum í hverju skrefi. Hlynurinn smái hefur laufgast fannhvítum fiðrildum sem fljúga gleðibylgju langt út í heim.
Hún Sólborg Erla, stundum kölluð fröken Fix, hefur alltaf verið forfallinn bókaormur. Hún hefur lesið bækur frá barnæsku af öllum tegundum og litum. Seinna bættust við tískublöð og listaverkatímarit í hrönnum þegar hún leiddist út á listabrautina sem hún hefur haldið sig inni á nánast alla ævi. Hún útskrifaðist úr MHÍ 1993 og gerðist svo fatahönnuður og margmiðlunarfræðingur ásamt því að vinna við grafíska hönnun. Núna er hún komin í Háskóla Íslands þar sem hún upplifir draum ellefu ára sjálfs Sólborgar Erlu um að verða ljóðskáld og rithöfundur. Ljóðin hafa fylgt henni síðan hún man eftir sér og streyma núna beint úr hárflækjum argintætunnar inn í hugann og birtast á pappír.

